15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (2795)

207. mál, aukagreiðslur embættismanna

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram við hæstv. ríkisstj. svo hljóðandi fyrirspurn:

„Hverjir embættismenn hafa undanfarin fimm ár hlotið sérstakar greiðslur fyrir undirbúning og samningu lagafrumvarpa, matsgerðir og álitsgerðir á sérsviði sínu, og hverju hafa numið árlegar greiðslur til hvers þeirra á því tímabili ?“

Og í öðru lagi:

„Hverjir embættismenn hafa s. l. fimm ár unnið hliðstæð störf á sérsviði sínu án þess að taka fyrir sérstakar greiðslur?“

Ástæðan til þess, að slík fsp. er borin fram, er í stuttu máli sú, að um það hefur gengið þrálátur orðrómur, að ýmsir embættismenn ríkisins hafi undanfarin ár þegið ekki óverulegar fjárgreiðslur auk embættislauna fyrir að vinna ákveðin verk í þágu hins opinbera, sé þar stundum og jafnvel oft um að ræða verk á sérsviði þessara embættismanna, verk, sem aðrir sambærilegir embættismenn vinna án sérstakrar þóknunar. Mér er engin launung á því, að mjög hefur á því borið, að einhverjir hinir hæst launuðu embættismenn ríkisins, hæstaréttardómarar, hafa fyrir umtalsverðar aukagreiðslur unnið að matsgerðum, álitsgerðum ýmiss konar, undirbúningi löggjafar o. fl. Nú hygg ég, að allir geti verið sammála um það, að hinir virðulegu hæstaréttardómarar, sem falið er til varðveizlu eitt af fjöreggjum þjóðfélagsins, eigi að hafa góð laun, en það ætti þá jafnframt að vera skýlaus krafa, að þeir væru með öllu óháðir og tækju ekki við öðrum fjárgreiðslum í stórum stíl, hvorki frá ríkisvaldinu né öðrum. Mér virðist, að þetta sé svo almenn og sjálfsögð regla, að um hana ætti naumast að þurfa að deila. Hér er um annað og meira að tefla en fjárgreiðslurnar sjálfar. Ég hef viljað nefna þetta sérstaka dæmi, þó að fsp. sé víðtækari.

Vænti ég svo svara við þessari fyrirspurn.