15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (2800)

207. mál, aukagreiðslur embættismanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég held, að það sé alveg óþarfi að vera að karpa um þetta. Ég held, að það sé hverjum sæmilega skyni bornum manni ljóst, í hvaða tilgangi svona fsp. er borin fram, þegar talað er um sérsviðið. Til hvers átti að nota þessa skiptingu, þ. e. upplýsingar um þær greiðslur, sem væru á sérsviði hvers og eins? Hver getur verið hugsunin á bak við þetta? Hugsunin á bak við þetta er auðvitað engin önnur en sú að koma því inn hjá mönnum, að af því að þetta sé á sérsviði þessa og þessa starfsmanns, þá hafi hann átt að vinna það án endurgjalds. Það er meiningin. Þá átti hann að vinna það fyrir embættislaun sín og ekki fá fyrir það sérstaklega. (Gripið fram í.) Þetta eru engar hártoganir, því að ef hv. þm. hefði meint eitthvað annað en að fá grundvöll fyrir slíkar ályktanir sem þær, sem ég nefndi áðan og skal ekki endurtaka, hefði hann alls ekki spurt um sérsvið, heldur hvað greitt væri yfirleitt fyrir slík störf. Nei, sérsviðið þurfti að vera, vegna þess að það átti að koma því á framfæri, að einmitt þessir menn væru sekir menn, þeir væru sekir um að taka greiðslur af ríkinu fyrir verk, sem væri á þeirra sérsviði í embættisþjónustunni, og ályktunin átti auðvitað að vera: sem þeir áttu aldrei að fá neitt fyrir aukalega.