16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (2806)

154. mál, glersteypa

Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. var að reyna að verja það hér, að Framkvæmdabankinn hefði ekki nánari afstöðu til Alþ. en aðrir bankar ríkisins. Vitanlegt er, að þegar ríkið á annað borð með lögum skapar sérstaka banka hér í landinu, þá verður það náttúrlega á einn eða annan hátt alltaf undir stjórn Alþ., sem slíkir bankar verða. Það er óhjákvæmilegt, vegna þess að það er Alþ., sem ræður því, að þessir bankar verða til, og skipar þess vegna með einum eða öðrum hætti þeirra stjórn. En hátturinn er mismunandi. Hæstv. fjmrh. segir, að Landsbankinn sé undir beinni yfirstjórn Alþ. Hann er nú ekki vanur að leggja mikla áherzlu á yfirstjórn Alþingis á Landsbankanum. Það er frekar ég, sem hef orðið að minna á það, að Alþ. gæti einhverju ráðið um, hvað Landsbankinn ákvæði á hinum ýmsu tímum.

Það, sem ég lagði áherzlu á, var, hvernig tengslin eru. Alþ. kýs bankanefnd 15 manna, er í sex ár að þessu, fimm menn í hvert skipti með tveggja ára fresti. Síðan kýs þessi landsbankanefnd bankaráð, og síðan kýs þetta bankaráð bankastjóra. M. ö o.: Stjórnin á sjálfum Landsbankanum er þannig, að það er fyrst í þriðja lið svo að segja frá Alþingi, sem þeir menn koma til, sem ráða öllum framkvæmdum bankans. Bankaráð í Landsbankanum má, ef ég man rétt, og ég held ég muni það rétt, alls ekki skipta sér af lánveitingum bankans. Það má ákveða hans allsherjarstefnu, en mig minnir, að það megi ekki skipta sér af einstökum lánveitingum.

Hér hins vegar háttar allt öðruvísi, og það er ekki þannig um neinn banka. Þó að bankaráð Búnaðarbankans sé að nokkru leyti kosið af nefndum Alþ., þá hefur bankaráð Búnaðarbankans ekki með það að gera að sjá um útlán. En hvað hefur bankaráð Framkvæmdabankans? Það hefur ekki aðeins, eins og stendur í 16. gr., umsjón með starfsemi bankans. Það tekur, að fengnum tillögum bankastjóra, ákvörðun um lánveitingar og lántökur svo og um kaup og sölu skuldabréfa og hlutabréfa.

Af hverju er þetta haft svona náið? Af hverju er þetta eina bankaráðið, sem getur tekið ákvörðun um lánveitingar, sem hefur bókstaflega valdið til þess, þar sem þeim er annars bannað það? Af því að þegar þessi lög eru sett, þá er gengið út frá því, að þetta bankaráð sé miklu nátengdara en öll önnur bankaráð ríkisvaldinu, ríkisstjórninni og Alþingi. Þess vegna held ég, að ef svona fsp. hefði verið borin fram fyrir þrem árum, þegar lögin um Framkvæmdabankann voru sett, þá hefði þetta þótt eðlilegt. Þá var nefnilega látið í veðri vaka af þeim, sem fyrir bankanum börðust, að þetta ætti raunverulega fyrst og fremst að vera stofnun til ráðuneytis ríkisstjórninni í fjárfestingarmálum, og það var eiginlega gengið út frá því, að það væri svo að segja engin almenn bankastarfsemi, sem þessi banki hefði með höndum, Landsbankinn mundi afgreiða svo að segja öll málin, var þá sagt. Það átti enginn skrifstofukostnaður að vera og ekki neitt.

Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að maður vilji fá úr því skorið, hvernig þessi banki, sem stendur undir sérstakri stjórn fjmrh., sem er tengdur fjmrn. á sérstakan hátt, þessi banki, sem var settur hér í gegn á Alþ. með yfirlýsingum um það, að hann ætti ekki að skipta sér yfirleitt af almennum útlánum, hafi starfað. Það er ekkert undarlegt, þó að við komum fram með fyrirspurnir um slíkt. En mig skal hins vegar ekkert furða, þó að kannske stjórnarliðið hér í hv. Alþ. vilji reyna að hindra upplýsingar um þess háttar. Ég mun þess vegna halda fast við það, að þessari fsp. verði svarað. Það er krafa, sem ég geri í samræmi við þau lög, sem um Framkvæmdabankann voru sett, og þær upplýsingar, sem gefnar voru, þegar hann var stofnaður. Svo verður þingið sjálft að skera úr, hvort það leyfir það eða ekki.