28.01.1956
Neðri deild: 54. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

146. mál, framleiðslusjóður

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Þá hafa þau ráð hæstv. ríkisstj. séð dagsins ljós, sem alþýða þessa lands hefur fyrir fram gefið nafnið fjörráð við efnahagslíf landsins og alþýðustéttir. Ég ætla ekki að nota þetta tækifæri við 1. umr. málsins til að gera eldhúsdag að ríkisstj. Eldhúsdagsins er nú skammt að bíða, og það kann að fara svo, að þar verði talin ástæða til að víkja að þessum málum eins og vert er.

Hæstv. forsrh. hefur haft framsögu fyrir þessu máli. Er það að vonum, vegna þess að hann á sameiginlegra hagsmuna að gæta og ber samábyrgð með þeim mönnum, sem nú eru, eins og hæstv. dómsmrh. komst að orði á Heimdallarfundi nýlega, að beita kommúnistísku ofbeldi til að knýja fram sínar kröfur í þessu þjóðfélagi, allri alþýðu landsins til tjóns og miska.

Ég tel þó ástæðu til að lýsa nú þegar yfir andstöðu minni og okkar þjóðvarnarmanna almennt við þá leið, þá meginleið í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem þetta frv. boðar, eins og annað frv., sem nú er til umr. í Ed. og er í samhengi við þetta frv.

Þess gengur enginn maður dulinn, að þær gífurlegu álögur, sem nú á að fara að leggja á þjóðina til þess að borga sönnuð og ósönnuð töp einstakra manna og atvinnufyrirtækja þeirra og sönnuð og ósönnuð töp heillar atvinnustéttar í landinu, leysa engan vanda til frambúðar í þessu þjóðfélagi. Það hlýtur að vera augljóst öllum mönnum, sem um þessi mál hugsa, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, hlýtur að auka þann vanda, sem það er þessari þjóð að koma efnahagslífi sínu á heilbrigðan grundvöll og búa framleiðslu þessa lands starfhæfan grundvöll. Verði þetta frv. samþ. og þær ráðstafanir aðrar, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú á prjónunum, þá þýðir það, að það verður annaðhvort óvinnandi verk að leysa vandann í framtíðinni eða svo erfitt, að það mun ganga nær þessari þjóð en nokkurn mann nú grunar. Þetta frv. boðar að vísu ekki neina nýja stefnu. Við höfum kynnzt þessari stefnu á undanförnum árum. Hvert einasta mál, sem hæstv. ríkisstj., flokkar hennar og stuðningsmenn leggja fram hér á Alþ., miðar að einu marki, — allt að því að gera vanda þjóðarinnar, sérstaklega framleiðslugreinanna, erfiðari með hverjum degi sem líður. Þær hundruð milljóna króna, sem nú á að leggja á almenning í landinu til þess, eins og það er kallað, að koma í veg fyrir, að aðalatvinnuvegur landsmanna stöðvist, er aðeins gjald, sem lagt er á þjóðina til að fresta í bili og um mjög takmarkaðan tíma því allsherjarhruni, sem íhaldsöflin í landinu hafa rækilega undirbúið um mörg ár. Þetta er sú ólánsstefna, sem við þjóðvarnarmenn höfum barizt gegn. Við höfum, frá því að Þjóðvfl. var stofnaður og frá því að hann fékk menn á þing þjóðarinnar, borið fram og barizt fyrir þveröfugri leið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við höfum lagt hér fram frv. eftir frv., sem miðuðu að því að koma efnahagskerfinu í það horf, að til frambúðar mætti verða og að hér mætti reka styrkjalausa framleiðslu um langa framtíð.

Því miður er ástandið á Alþingi Íslendinga þannig í dag, að þessi viðleitni okkar og þessi frv. okkar hafa fengið tiltölulega lítið fylgi utan okkar eigin flokks, og höfðum við þó sannarlega vænzt annars.

Við höfum nú nýlega lagt hér fram í Nd. frv. um að taka eignarnámi eða leigunámi allar fiskvinnslustöðvar í landinu, sem máli skipta, fyrir nýtingu sjávarafla, og reka þær á kostnað ríkisins og ábyrgð, á meðan ekki hafa verið stofnuð framleiðslusamvinnufélög sjómanna og útvegsmanna, sem að sjálfsögðu ættu að okkar áliti að hafa þessa starfsemi í eigin höndum. Í þessu frv. er einnig lagt til að taka fiskflutningaskip eignar- eða leigunámi og reka þau í sama skyni og á sama hátt. Þá er og lagt til, að allur fiskútflutningur verði tekinn í hendur ríkisins og síðar afhentur samtökum sjómanna og annarra, sem lífsframfæri hafa af vinnu við og vinnslu sjávarafla, þegar það er tímabært.

Það, að við leggjum þetta til, byggist á því, að okkur er ljóst eins og öllum eða flestöllum Íslendingum, að það verð, sem fæst fyrir útflutning okkar á erlendum mörkuðum, kemur engan veginn allt til skila. Ef svo væri, þá mundi bátaflotinn ekki þurfa þeirra styrkja við, að minnsta kosti ekki allra, sem nú er sagt eða talið að hann þurfi.

Ég mun ekki fara langt í að rökstyðja þetta nú. Til þess mun gefast tækifæri og tími síðar. En ég kemst ekki hjá því að minna á það, að þegar jafnþýðingarmikið frv. og frv. okkar er, sem vitað er, að ef borið væri undir þjóðaratkvæði nú, mundi fá atkv. mikils meiri hluta þjóðarinnar, þegar það er borið fram, þá er það ekki tekið á dagskrá í þingi, ekki haldinn um það kvöldfundur eða laugardagsfundur né n. skipað að vinna að því á sunnudegi, eins og þeim frv., sem hæstv. ríkisstj. ber hér fram íslenzku atvinnulífi og almenningi til óþurftar.

Þannig er ástandið á Alþingi Íslendinga í dag. Við höfum borið fram í því skyni að lækka framleiðslukostnað og tryggja það, að sjómenn og þeir, sem vinna að fiskframleiðslu, fái allt það verð, sem vinna þeirra skapar, fleiri frv. en þetta, sem ég nú nefndi. Við höfum borið fram frv. um að taka eignar- eða leigunámi eignir olíufélaganna í landinu og að stofna olíuverzlun ríkisins, sem hefði það hlutverk að draga úr þeim ofsagróða, sem nú er á olíu, og því fjárbruðli, sem á sér stað í dreifingu og sölu olíunnar, og lækka á þann hátt olíuverðið og þar með framleiðslukostnað atvinnuveganna og einkum og sér í lagi sjávarútvegsins. Öllum er ljóst, að ef þetta væri gert, þá hlyti það bil, sem nú er talið vera á milli verðmætis framleiðslunnar og kostnaðarins við að framleiða hana, að minnka og þar með að vera minni þörf fyrir álögur á almenning til að halda framleiðslunni gangandi.

Við höfum einnig borið fram frv. um að lækka milliliðagróða almennt, fækka þeim milliliðum, sem nú lifa eins og sníkjudýr á framleiðslunni og mergsjúga hana, lækka álagningu og afhenda alþýðusamtökunum verðlagseftirlit í landinu til þess að tryggja það, að ekki væri lagt meira á framleiðsluna af kostnaði en nauðsynlegt væri. Við höfum einnig borið fram frv. um að lækka þann skatt, sem ranglátastur er í þessu þjóðfélagi, söluskattinn, og þó ekki nema þann hluta hans, sem verst gegnir að vera skuli í gildi, þ. e. a. s. söluskatt í smásölu, en það vita allir menn, að þessi skattur hefur mjög veruleg áhrif fyrir framleiðslukostnað í landinu, því að mikill hluti hans kemur inn í vísitöluna. Þar að auki bætist svo það við, að milliliðir eru látnir innheimta þennan skatt, með þeim afleiðingum, að hann kemur ekki nema að hluta til í ríkissjóð. Hann er innheimtur af almenningi í landinu, en rennur ekki þangað, sem honum er ætlað að renna, í ríkissjóðinn.

Ég minnist þess, að nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. hafa hér í ræðum á Alþ. ekki reynt að draga neina dul á það, að ekki mundu öll kurl koma til grafar við skattaframtöl manna og fyrirtækja og þá sérstaklega fyrirtækja, sem ekkert eftirlit er haft með að telji rétt fram. Ég efast ekki um, að þetta er rétt skoðun. En þá er það um leið augljóst, að þau fyrirtæki, sem ekki gefa allar tekjur sínar upp til skatts, geta ekki heldur gefið upp allan þann söluskatt, sem þau innheimta fyrir ríkið, vegna þess að ef þau gerðu það, gæfi það opna leið til að komast að skattsvikum þeirra að öðru leyti. Lækkun á söluskatti mundi því stórlega lækka framleiðslukostnað í landinu og búa atvinnutækjunum betri skilyrði til starfsemi, skilyrði, sem sennilega, ef allar okkar ráðstafanir yrðu samþykktar, mundu duga þeim án styrkja og án þess að grípa þyrfti til nokkurra sérstakra álaga á almenning í því skyni að halda þeim gangandi.

Við þjóðvarnarmenn teljum einnig sjálfsagt að lækka vexti lánsstofnana mjög verulega til þess að draga úr framleiðslukostnaði atvinnuveganna og þá einkum og sér í lagi sjávarútvegsins gegn því skilyrði, að sparifé landsmanna yrði þá vísitölutryggt, sem ekki hefur neinn ókost í för með sér fyrir framleiðsluna, miðað við það ástand, að verðhjöðnun sé í gangi í þjóðfélaginu. Þessi ráðstöfun mundi einnig, — við höfum að vísu ekki lagt það fram í frumvarpsformi enn þá, en erum reiðubúnir til þess, — þessi ráðstöfun mundi einnig létta framleiðslu landsins starf sitt.

Þetta ásamt ýmsum öðrum ráðstöfunum viljum við láta gera og vitum eins og allir aðrir að miðar að því að búa atvinnu landsmanna eðlileg starfsskilyrði, starfsskilyrði, sem hún verður að fá, ef þessi þjóð á ekki að tortímast og glata efnahagslegu sjálfstæði sínu. En hæstv. núverandi ríkisstj. hefur ekki verið og er ekki til viðtals um þetta, vegna þess að hún er handbendi örfárra ofbeldismanna, svo að ég noti orð hæstv. dómsmrh., sem hafa það eitt í huga að græða sem mest sjálfir, hvað sem líður tilveru þessarar þjóðar. Og það er ekki eðlilegt, að slík ríkisstj. sé reiðubúin til að fara inn á þær brautir, sem við þjóðvarnarmenn leggjum til, því að það mundi þýða það, að starfsemi ofbeldismannanna yrði útilokuð í þessu þjóðfélagi og gróðamöguleikar þeirra gerðir að engu.

Í sambandi við það frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur hér borið fram, þykir mér rétt á þessu stigi málsins að gera örfáar athugasemdir. Í fyrsta lagi er það augljóst mál, að þessar ráðstafanir, að leggja hér samtals um 200 eða rúmlega 200 millj. kr. nýjar álögur á þjóðina, eru ekki annað og gera ekki annað en að fresta miklu geigvænlegri og alvarlegri aðgerðum. Þær munu að sjálfsögðu, eins og allir sjá og skilja, ýta svo stórkostlega undir verðbólguþróun í þessu landi, að aldrei hefur nein ráðstöfun til þessa dags verið gerð jafnháskaleg í einu skrefi. Þessar ráðstafanir munu að sjálfsögðu auka vantraust almennings á verðgildi peninga, eyðileggja sparnaðarvilja og sparifjársöfnun og koma þessu þjóðfélagi þannig endanlega úr skorðum, enda minntist hæstv. forsrh. ekki á það í framsöguræðu sinni hér, að Sjálfstfl. væri nú eða ætlaði að slá skjaldborg um verðgildi peninganna, eins og hann hefur áður tjáð sig ætla að gera, né að þetta frv. ætti að miða að því að auka sparifjársöfnun og sparnaðarvilja landsmanna, og þó hafa þessir herrar oft brýnt fyrir þjóðinni, hvílík nauðsyn það væri, að fólk sparaði saman og legði fyrir fé, svo að það yrði handbært til nauðsynlegra framkvæmda í þjóðfélaginn. Hér er vísvitandi verið að eyðileggja sparifjársöfnun og sparnaðarviljann.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að greiða útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur, þ. á m. dilkakjöt. Ég verð að segja það eins og er, að mér kom þetta alleinkennilega fyrir sjónir, þegar ég sá það, og ég hef ekki heyrt enn né skilið þau rök, sem liggja til grundvallar þessari ráðstöfun. Og ég skal nú segja hvers vegna.

Það er ljóst, að á s. l. ári, þ. e. á árinu 1955, var kjötframleiðsla landsins um 2400 smál. meiri en á árinu 1954. Verðlag landbúnaðarafurða á síðasta hausti var þó miðað við framleiðsluna eins og hún hafði verið áður, þ. e. a. s. án þess að tekið væri tillit til þessarar framleiðsluaukningar. Almenningur í þessu landi borgar kjötverð, sem er ákveðið þannig, að ekkert er tekið tillit til þessarar auknu framleiðslu. Það, sem gerist, er því raunverulega það, að árið 1956 borga landsmenn niður í því kjöti, sem þeir kaupa, þær 2400 smál., sem framleiddar voru meira á árinu 1955 en 1954, að fullu, og skil ég þá ekki, hvernig á því getur staðið, að það á að fara til viðbótar að borga útflutningsgjald á þann hluta kjötframleiðslunnar, sem ekki selst í landinu sjálfu, þegar hvort sem er er búið að borga framleiðslukostnað hennar að fullu.

Ég vil mælast til þess, að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því, hvort hann hefur athugað þetta mál og sett sig inn í það svo sem skyldi, hvort honum er það ljóst, að verðlagið á kjöti er ekki miðað við það kjötmagn, sem framleitt var árið 1955, heldur við magnið eins og það hafði verið áður, þegar framleiðslan var 2400 smál. minni.

Í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. var hæstv. forsrh. hógværari og bljúgari en hann á vanda til hér á þingi, og það fór minna fyrir honum í ræðustólnum en oft áður. Málstaður hans og málflutningur var þó með nokkuð svipuðum hætti og venja er til, þ. e. í meginatriðum rangur og í öðrum atriðum villandi. Hann sagði m. a., að hækkun landbúnaðarvara á s. l. hausti stafaði af hækkun launanna s. l. vor. Það er að vísu rétt í þessari fullyrðingu, að auðvitað kom launahækkunin, sem varð s. l. vor, bændum til góða, af því að þeir taka laun eftir sömu reglum og verkamenn. En hækkun landbúnaðarvara stafar ekki nema að litlu leyti af þessari launahækkun. Til hennar lágu allt aðrar orsakir. Menn minnast þess, að á síðasta þingi bar hæstv. ríkisstj. fram frv. um að hækka vexti af lánum til landbúnaðarins, verkamannabústaða og annars þess háttar vegna meintra vaxtatapa þessara sjóða. Þessi vaxtatöp voru þó aldrei sönnuð, og þó að þau hefðu verið einhver, eins og hæstv. ríkisstj. taldi, þá hefðu þau samt ekki getað numið nema í hæsta lagi nokkur hundruð þúsund krónum.

Við þjóðvarnarmenn bentum á hættuna af því að fara inn á þá braut að hækka þessa vexti og lögðum til, að það vaxtatap, sem kynni að verða á þessum sjóðum, yrði bætt upp með því að leggja t. d. skatt á gróðafélagið Eimskip eða veita öðrum gróðafélögum í landinu ekki 20% eftirgjöf af skatti, eftir að hann hafði verið lagður á eftir gildandi lögum. Þetta ráð var að engu haft, og vaxtahækkunin var gerð. Afleiðingarnar urðu þær, að bændur gátu að sjálfsögðu ekki sætt sig við að taka þær á sínar herðar. Þeir höfðu með réttu haldið því fram, að vaxtakostnaður þeirra væri ekki tekinn inn í vísitöluna eins og skyldi, og nú notuðu þeir tækifærið til þess að hækka vextina, ekki aðeins sem svaraði þeirri hækkun, sem hér hafði verið gerð á Alþ., heldur mun meira. Vextir í landbúnaðarvísitölugrundvellinum voru hækkaðir úr 900 kr. í 5700 kr. á meðalbú, eða um 4800 kr. á hvert bú í landinu. Í öllum útreikningum um landbúnað er það föst venja að reikna með um 6200 búvöruframleiðendum í landinu. Hækkunin, sem þarna er lögð á almenning í landinu með þessari ráðstöfun einni, er því um 30 millj. kr. Af þessu stafaði hækkunin á landbúnaðarvörunum á s. l. hausti að langmestu leyti. Þessar voru afleiðingar gerða ríkisstj. hér á Alþ.

Ekki er mér ljóst, hvort hæstv. ríkisstj. hefur séð þessar afleiðingar fyrir eða ekki. Ég býst við, að hennar ráðstafanir og hennar tillögur séu flestar með þeim endemum, að hún geri sér enga grein fyrir því, hvaða afleiðingar þær hafa í þjóðfélaginu. En þessi ráðstöfun, sem leit meinleysislega út, þegar var verið að gera hana hér á Alþ., varð þannig ein af helztu sprautunum, sem verðbólgan hefur fengið frá hæstv. ríkisstj. á undanförnu ári og árum. Þetta vildi ég aðeins benda á til að hrekja þær fullyrðingar hæstv. forsrh., að hækkunin á landbúnaðarvörunum og þar með vísitölunni stafaði eingöngu af þeim launahækkunum, sem verkamenn fengu á s. l. vori. Hækkunin, sem af launahækkununum stafaði, var miklum mun minni en þessi hækkun af vaxtahækkuninni.

Þá sagði hæstv. forsrh. einnig í ræðu sinni, að ekki væru nú þessar álögur eins miklar og þær litu út fyrir í frv., því að nú ætti að fella bilaskattinn, sem var í gildi á s. l. ári, niður. Nú veit maður það um hæstv. forsrh., að hann kynnir sér illa mál hér á þingi og málefni þjóðarinnar almennt. En svo algerlega fáfróður hélt ég að hann væri nú ekki um þessi mál, að hann vissi ekki, hvað í þessu frv. stendur, sem hann er að bera hér fram og mæla fyrir. Þar stendur það skýrum stöfum, að það eigi að halda þessum skatti áfram, það eigi að leggja áfram 100% skatt á tollverð þeirra bíla, sem fluttir verða inn á næsta ári, þ. e. a. s. sömu bílategunda og gert var á s. l. ári, alveg sama skattinn. Það er því síður en svo, að þennan skatt sé verið að fella niður.

Loks sagði hæstv. forsrh. í framsöguræðu sinni, að það væri ekki á okkar valdi að ákveða verðið á fiskinum, það væri ákveðið á erlendum mörkuðum, og við réðum harla lítið við það, hvað þar fengist. Þetta vitum við að sjálfsögðu. Við ráðum lítið við það og þó nokkuð í sumum tilfellum. En við hitt getum við ráðið, að það verð, sem fæst fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum, komi hingað heim og því sé skilað þeim, sem það eiga. Við það getum við ráðið, en með því er nú ekkert eftirlit. Og það er vitað, það veit hæstv. forsrh., og það vita allir landsmenn, að þessu verði er ekki skilað, það kemur ekki hingað heim, og á því byggjast hörmungar bátanna, sem einokunarhringarnir hér notfæra sér til þess að beygja þessa ríkisstjórnarnefnu, sem við höfum, með ofbeldi, með kommúnistískum ofbeldisaðferðum, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það, til að afhenda sér hundruð millj. króna styrki eftirlitslaust líka, sem eru reyttir úr vasa skattborgaranna.

Ég ætla að láta þetta nægja að þessu sinni um þetta mál. (Forsrh.: Vill ekki þm. standa við þetta utan þings, sem hann var að segja áðan?) Ég skal standa við þetta, hvenær sem er, og ég hef nú þegar vitni að því öllu. (Forsrh.: Það væri gott, að það væri endurtekið utan þings.) Nú vildi ég mælast til þess, að hæstv. forsrh. héldi sér í skefjum, meðan ég er að tala. Ég veit, að honum líður illa undir þessum orðum, en hann ætti að reyna að sjá sóma sinn í því að halda sér í skefjum, á meðan ég tala, og vera ekki að trufla mál mitt.

Ég vildi mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. gæfi þingheimi upplýsingar um það, hvaða áhrif þessar hækkanir, sem hún ber hér fram, hafa á vísitöluna. Ég vildi enn fremur mælast til þess, að hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstj. gæfi upplýsingar, sem hún á og hlýtur að hafa, um það, að hve miklu leyti þessar álögur skella nú þegar beint á framleiðslunni og auka framleiðslukostnað hennar og erfiðleika í stað þess að minnka þá. Og loks vildi ég mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. gæfi upplýsingar um það, hve mikið álagning á þær vörur hækkar, sem þessar álögur skella á, hve mikið hún hækkar og hvað samtök verzlunarmanna hafa sagt um það efni, hve mikið þau teldu sig þurfa að hækka álagningu, vegna þess að þessar álögur hefðu í för með sér aukin vaxtagjöld og ýmsan annan kostnað fyrir verzlanirnar. Ég býst við því, að ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir þessu, og vildi mælast til þess, að hún veitti mér og öðrum þm. upplýsingar um þessi mál.