28.02.1956
Efri deild: 77. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

134. mál, skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. Voru gerðar tvær fremur lítils háttar breyt. á því þar frá því, sem það var fyrst lagt fyrir, og þannig breytt samþ. samhljóða í þeirri d., með öllu ágreiningslaust.

Mér skilst, að ástæðan til þess, að þetta frv. er fram borið, sé fyrst og fremst óánægja færeyskra sjómanna, sem hafa unnið á íslenzkum skipum undanfarin ár og gera það enn. Þeir hafa talið sig verða fyrir misrétti í skattaálagningu hér á landi samanborið við Íslendinga sjálfa. Er nokkuð til í því, eins og ég vík síðar að. Frv. er því fram borið til þess að rétta hlut þessara manna og annarra útlendinga, sem vinna hér, og er það a. m. k. að því er tekur til Norðurlandabúa í samræmi við þá stefnu, sem nú ríkir á Norðurlöndum nm það, að komið sé í veg fyrir tvísköttun þegna þessara landa, þannig að þeir gjaldi ekki skatt af því sama í heimalandi og dvalarlandi.

Frv. gerir ekki mikla breyt. á þeim lögum, sem gilt hafa, þ. e. lögum nr. 96 frá 28. des. 1946, og mörg ákvæði þessa frv. eru samhljóða þeim lögum. En þó eru nokkrar breytingar, sem að mestu leyti verða að teljast réttarbætur gagnvart þeim útlendu mönnum, sem vinna hér t. d. á skipum. Er þá fyrst að nefna það, að svo er ákveðið í frv., að þeir hafi sama rétt til persónufrádráttar og Íslendingar, þ. á m. sé tekið tillit til fjölskyldu þeirra í heimalandinu, enda sanni þeir, að þeir hafi fjölskyldu á framfæri sínu. Um listamenn, sem hér vinna, gilda þó sérákvæði, svo sem verið hefur í þessu efni. Í öðru lagi er útlendum mönnum heimilað að draga frá kostnað, sem þeir hafa af öflun tekna hér á landi. Að því er sjómenn snertir, gilda sömu reglur að þessu leyti um þá samkv. frv. og um Íslendinga, þannig að þeir geta talið sem kostnað föt, sem sérstaklega eru nauðsynleg vegna starfsins. Þá er það þriðja, sem einnig verður að teljast til hlunninda, að tekið er tillit til þess, að útlendingar þurfa að eyða tíma til að komast hingað og til þess að komast heim aftur, og út af því er svo ákveðið í frv., að bætt skuli 20% við dvalartíma þeirra hér á landi, og verður það einnig að teljast til hlunninda. Fjórða nýmælið í þessu frv. má telja það, að vinnutími útlendinga hér er reiknaður í vikum samkv. frv., en hefur áður verið í mánuðum, en þetta eru e. t. v. ekki sérstök hlunnindi fyrir útlendinga. Þetta er þó að því leyti réttara, að sú regla, sem frv. setur í þessu efni, er nákvæmari en hin.

Við 1. umr. þessa máls hér í d. ræddi hv. 1. þm. N-M. um það, að í sambandi við þetta frv. þyrfti að athuga samninga, sem Ísland hefði gert við hin Norðurlöndin um skattgreiðslu þegna landanna. Nefndin athugaði þetta. Samningar um þetta efni hafa verið gerðir við Svía og Dani, en ekki Norðmenn og ekki Finna, svo að n. sé um það kunnugt. N. athugaði, hvort frv. mundi á nokkurn hátt koma í bága við þessa samninga, og það er tvímælalaust, að að því er samninginn við Svía snertir rekst frv. ekki á nokkurn hátt á þann samning, því að þar er það eitt ákveðið, að þegar um tvísköttun sé að ræða, reyni æðstu skattayfirvöld landanna að semja um málið. Aftur á móti er dálítið vafasamt, hvort eitt atriðið í samningnum við Dani er alveg í samræmi við frv„ þar sem í þeim samningi er gert ráð fyrir sérstakri tilhögun um skatt sjómanna, en þó svo ákveðið, eins og í samningnum við Svía, að það skuli vera samningamál skattayfirvaldanna, hvernig með skuli fara.

Út af þessu ræddi ég við hæstv. utanrrh. nm þetta mál, og hann lét athuga það sérstaklega. Allt hans er, að óhætt sé að samþykkja frv. óbreytt, hvað sem liður þessum samningi, vegna þess að ef árekstur kynni að verða vegna þess, að samningurinn virtist ákveða annað en frv. gerir ráð fyrir, þá hlyti samningurinn að ráða. Auk þess eru ákaflega litlar líkur til þess, að árekstur verði út af þessu, þó að það kynni að vera, að það væri ekki með öllu útilokað, og það er beinlínis af því, að yfirleitt eykur þetta frv. rétt útlendinga, sem vinna hér á landi eða hér við land, en dregur hvergi úr honum. Og þar sem þessi samningur er búinn að vera í gildi um nokkurn tíma og á þeim tíma hafa lögin frá 28. des. 1946 gilt, þá er auðvitað mál, að þetta frv., þótt að lögum verði, getur gilt ekki síður en þau lög, sem nú gilda, hvað sem samningnum líður. N. telur því alveg óhætt að samþykkja frv. óbreytt þrátt fyrir þá samninga, sem um þessi mál eru, einkum þá með tilliti til þess réttar, sem fjmrn. hefur til þess, ef sérstaklega stendur á, að gefa eftir skatta.

Eins og nál. fjhn. á þskj. 404 ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 4. þm. Reykv., var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið, og er því þessi afstaða ekki bindandi fyrir hann á nokkurn hátt.