15.03.1957
Efri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

99. mál, sala og útflutningur sjávarafurða o. fl.

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir, að hann sýnir mér þá mildi að mega gera hér stutta aths.

Hæstv. ráðh. lauk máli sínu með því að endurtaka þá staðhæfingu sína, að hann væri ekki í stríði við framleiðendur með þessu frv.. heldur við Morgunblaðið og Sjálfstfl. En ég leyfi mér þá að spyrja enn einu sinni: Hvers vegna eru þá öll útflutningssamtök sjávarútvegsins að mótmæla, ef hæstv. ráðh. er ekki í neinu stríði við þau? Eru þau þá að gera það upp á sport að senda þessi mótmæli til Alþ., eða finna þau svona ríka hvöt hjá sér til þess að leggja Sjálfstfl. lið og Morgunblaðinu í stríðinu, sem hæstv. ráðh. segir að þessir aðilar séu í við sig? (Gripið fram í: Ætli það sé ekki svoleiðis?) Það er eitthvað bogið við málafærslu hæstv. ráðh.

Staðreyndirnar virðast hníga á þá lund, að það sé einmitt vegna þess, að samtökunum finnist höggvið nærri sér, að þau séu að mótmæla. Þetta er auðvitað kjarni málsins, og þetta veit hæstv. ráðh. að er satt og rétt.

Það er ekki ég, sem hef hafið almennar umræður um úrræði hæstv. ríkisstj. til lausnar vanda sjávarútvegsins í sambandi við þetta mál; það gerði hæstv. ráðh. í upphafi síðari ræðu sinnar í gær. En af því tilefni, að hæstv. ráðh. heldur því mjög fram, að hann af miklum vísdómi og landsföðurvizku hafi leyst öll vandamál sjávarútvegsins, þannig að hann baði nú í rásum, þá get ég ekki komizt hjá því að benda á, að það er ekki lengra síðan en 28. febr. s.l., að kvaddur var saman fulltrúafundur í Landssambandi ísl. útvegsmanna, og þar var m.a. gerð svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur í fulltrúaráði L.Í.Ú., sem baðaður hefur verið vegna greiðsluerfiðleika útvegsins, beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstj., að hún geri nú þegar ráðstafanir til þess að gera útflutningssjóði kleift að greiða allar gjaldfallnar skuldbindingar sínar vegna sjávarútvegsins, svo og að séð verði um, að sjóðurinn geti greitt skuldbindingar sínar jafnóðum og í þeirri röð, sem þær falla í gjalddaga samkvæmt því samkomulagi, sem L.Í.Ú. og önnur samtök framleiðenda hafa gert við ríkisstjórnina.“

Hvað sannar nú þessi yfirlýsing?

Hún sannar aðeins það og fyrst og fremst það, að ríkisstj. hefur ekki staðið við það, sem hún samdi um við Landssamband ísl. útvegsmanna og vélbátaútvegsmenn um síðustu áramót. Vélbátaútvegurinn er, þegar þetta gerist, kominn í fullkomin þrot og greiðsluvandræði. Útflutningssjóðurinn hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar, og allt er í eins miklu öngþveiti og hugsazt getur. Ég skal ekkert fullyrða um, hvernig þessi mál standa núna. Væntanlega hefur eitthvað tekizt að greiða úr þeim, en á þessu stigi málsins neyðist L.Í.Ú. til að kalla saman fulltrúafund til þess að knýja á hjá ríkisstj. um það, að hún standi við þær skuldbindingar, sem hún hefur gengizt undir um s.l. áramót við útveginn. Ég held, að hæstv. ráðh hafi ekki af neinum ósköpum að státa í þessum efnum.

Hæstv. ráðh talaði um það, að Sjálfstfl. hefði ekki viljað skýra frá till. sínum eða leiðum um það, hvernig leysa skyldi vanda útvegsins um síðustu áramót, en aðeins deilt á hæstv. ríkisstj. fyrir hennar tillögur. Ég vil í þessu sambandi upplýsa það, að ríkisstj. hafði meginhluta s.l. sumars og allt s.l. haust sérfræðinga, innlenda og erlenda, að störfum til þess að gera „úttekt“, eins og það hefur verið kallað, á þjóðarbúinu, til þess að framkvæma rannsókn á því, hvernig ástandið væri, og á grundvelli þessarar rannsóknar og þessarar úttektar átti að byggja nýjar till. um varanlegar leiðir í efnahagsvandamálunum.

Ekki einungis Sjálfstfl., heldur sjálfir þm. stjórnarflokkanna hafa verið leyndir niðurstöðu þessarar rannsóknar og þessarar „úttektar“. Ríkisstj. hafði ekki fyrir því að gera almenningi ljós svo mikið sem meginatriðin úr þessari rannsókn, þegar hún lagði fram till. sínar til stuðnings útveginum fyrir jólin. Það má hver lá sjálfstæðismönnum sem vill, þó að þeir hafi ekki lagt fram ákveðnar till. um það, hvernig snúast skyldi við vanda útvegsins, þegar þeir fá ekki einu sinni að vita frumdrættina í þeirri rannsókn og þeirri úttekt á efnahagsmálunum, sem farið hefur fram á vegum hæstv. ríkisstj.

Að öðru leyti get ég vísað til þess, sem sjálfstæðismenn hafa gert á undanförnum árum til stuðnings útveginum. En það er of langt mál — og ég vil ekki þreyta hæstv. forseta eða misnota hans mildi — til þess að fara að ræða um það.

En að lokum eru hér tvö atriði, sem ég þarf að minnast á, og það er í fyrsta lagi um útflutninginn á saltfiski árið 1956. Þær tölur, sem ég nefndi um þetta mál í fyrri ræðu minni í dag, voru um áætlaða framleiðslu ársins 1956, og þær voru, eins og ég sagði, 32 þús. af óverkuðum fiski, 7500 af verkuðum saltfiski, þ.e.a.s. samtals 39500. Frá þessu drógust svo 1500 tonn, sem er til innanlandsneyzlu, og 1000 tonna rýrnun, þannig að samtals var áætlað, að út mundi verða flutt um 37 þús. tonn. Endanlega niðurstaðan hefur svo orðið sú, að út hefur verið fluttur óverkaður saltfiskur 33028 tonn, verkaður 8620 tonn og tunnusaltaður um 149 tonn. Samtals gerir þessi útflutningur tæp 41800 tonn.

Hæstv. ráðh. staðhæfði hins vegar í gær, að útflutningurinn hefði verið 50 þús. tonn, og hélt fast við þá villu sína núna, m.a. með því að telja með þunnildi, sem alls ekki eru flutt út á vegum S.Í.F. Ég hef þessar tölur nákvæmlega frá Fiskifélaginu, ekki aðeins upp úr blaði, eins og hæstv. ráðh. sagði, heldur hreinlega beint frá skrifstofu Fiskifélagsins. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. kemst ekki fram hjá því, að hann hefur farið með algerlega villandi tölur í þessu efni.

Að lokum svo aðeins eitt atriði. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri hin mesta firra hjá mér, að Alþýðusamband Íslands hefði mótmælt nýjum álögum á þjóðina, stjórn Alþýðusambandsins hefði þvert á móti verið í samráði við hæstv. ríkisstj. og farið yfir skattafrv. grein fyrir grein.

Ég vil þó aðeins leyfa mér að lesa hér örstutta ályktun frá síðasta þingi Alþýðusambands Íslands, sem stendur í því ágæta blaði Þjóðviljanum, sem þó er nú orðinn svo „dumdristig“, að það er farið að deila á hæstv. sjútvmrh. En með leyfi hæstv. forseta, þá stendur þar í ályktunum þings Alþýðusambandsins, sem birtar eru í Þjóðviljanum 22. nóv. s.l., í ályktunum þingsins um efnahagsmál:

„Þingið lýsir því yfir, að við aðgerðir þær í efnahagsmálunum, er nú standa fyrir dyrum, er það algert lágmarksskilyrði verkalýðshreyfingarinnar, að ekkert verði gert, er hafi í för með sér skerðingu á kaupmætti vinnulaunanna, og að ekki komi til mála, að auknum kröfum útflutningsframleiðslunnar verði mætt með nýjum álögum á alþýðuna.“ — „Ekki komi til mála, að auknum kröfum útflutningsframleiðslunnar verði mætt með nýjum álögum á alþýðuna.“

Þetta var yfirlýsing A.S.Í.

Svo getur hæstv. ráðh. glímt við það hér á eftir að halda því fram, að Alþýðusamband Íslands hafi krafizt þess, að „nýjar álögur yrðu lagðar á alþýðuna“ til þess að mæta „auknum kröfum útflutningsframleiðslunnar“.