09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

150. mál, samþykkt á ríkisreikningum

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Það hefur verið minnzt hér á ríkisútvarpið og Skipaútgerð ríkisins, og er það í sambandi við það, að aths. viðkomandi rekstri þessara tveggja fyrirtækja hafa verið gerðar, og það ern þær tvær aths., sem yfirskoðunarmenn vísa til aðgerða Alþ., eins og það er kallað.

Ég hef nú hér fyrir framan mig reikning ríkisútvarpsins, og rétt er það, að gjöld þeirrar stofnunar hafa farið um það bil 20% fram úr áætlun fjárlaga. En á næstu síðu er reikningur viðgerðarstofu ríkisútvarpsins, og kemur þar fram, að því er virðist, að rekstur viðgerðarstofunnar hafi gengið saman, því að bæði gjöld og tekjur eru þar miklu lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Um ríkisútvarpið er það að segja, að um mörg undanfarin ár hafa yfirskoðunarmenn gert sérstakar aths. um þá stofnun og ég hygg venjulega vísað þeim til aðgerða Alþingis, sem þeir nefna svo.

Það hefur verið bent á það áður út af þessum aths., að það væri dálítið einkennilegt, að yfirskoðunarmenn hafa þá ekki gert aths. við reikninga annarra ríkisstofnana, sem hafa farið meira fram úr áætlun fjárlaga með sín gjöld en þessi stofnun, ríkisútvarpið. Ég hef rætt um þetta áður á þingi í sambandi við afgreiðslu ríkisreiknings og furðað mig á þessu, en ekki fengið á því neinar skýringar. Og sagan endurtekur sig enn, að hv. yfirskoðunarmenn gera athugasemdir um ríkisútvarpið, en ekki viðkomandi umframgreiðslum hjá öðrum ríkisstofnunum, sem eru þó tiltölulega meiri en hjá útvarpinu. Það eru hér á næstu blaðsíðum í ríkisreikningnum reikningar annarra stofnana, sem hafa farið meira fram úr áætlun hvað gjöldin snertir heldur en ríkisútvarpið. Og ég verð enn að láta í ljós dálitla undrun yfir þessum vinnubrögðum.

Það er svo um þessar stofnanir, bæði ríkisútvarpið og fleiri, að tekjurnar hafa líka farið verulega fram úr áætlun, þannig að ríkisútvarpið hefur meiri rekstrarhagnað en fjárlögin gerðu ráð fyrir, vegna þess að tekjurnar hafa farið enn meira fram úr áætlun en gjöldin, og er það svo um sumar aðrar ríkisstofnanir.

Viðkomandi skipaútgerðinni sagði hv. þm. A-Húnv., að það ráð væri tiltækilegast að greiða alls ekki meira en fjárlög ákveða, og mér skilst, að stofnunin ætti þá að hætta sinni starfsemi, ef fjárveitingin dygði ekki árið út. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. En ég vil benda á það, að þá væri eðlilegt, að þetta gilti einnig t.d. um vegina og vegaviðhaldið. Ég sé í þessum reikningi, að viðhald þjóðvega hefur farið nokkrar milljónir fram úr áætlun fjárlaga, og er það ekkert nýtt. Það hefur oft komið fyrir áður. Ég býst nú við, að það þætti ýmsum erfitt, ef ekki væri undir neinum kringumstæðum greitt meira fé til vegaviðhaldsins en áætlað er á fjárlögum að til þess þurfi, hvernig sem á stendur og þó að t.d. komi fyrir skemmdir á vegum vegna náttúruhamfara, eins og stundum kemur fyrir, og gæti þá orðið til þess, að heil héruð væru vegasambandslaus við önnur tíma úr árinu, ef stranglega væri eftir þessu farið. Á sama hátt sýnist mér, að það gæti orðið mjög óþægilegt fyrir ýmsa landsmenn, sem aðallega búa við samgöngur á sjó, ef siglingar með ströndum fram þyrftu alveg að leggjast niður af hálfu skipaútgerðarinnar einhvern tíma úr ári. Á þetta vil ég nú benda, en þetta er, eins og fram hefur verið tekið af öðrum, vitanlega vandamál, og þyrfti að finna á því viðunandi lausn, þannig að það væri hægt að halda útgjöldunum í sem mestu samræmi við það, sem fjárlögin mæla fyrir um.