03.05.1957
Neðri deild: 91. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Dal. sagði hér áðan, að ræktunin er undirstaðan undir framfarir og velgengni landbúnaðarins. En það er vitanlega ekki nóg að segja, að það skuli verða. Svo er keppt að því að hafa svo og svo mikið tún á hverju býli, því að það kostar mikið að rækta. Enda þótt bóndinn fáí þá styrki, sem lagt er til í þessu frv., í ræktunina, þá verður hann eigi að síður að leggja mikla fjárhæð fram frá sjálfum sér, ákaflega mikla, því að ræktunin nú á þessu stígi er mjög dýr. Grasfræ, áburður, plæging og landþurrkun, þar sem þess þarf með, þetta er orðið svo kostnaðarsamt, að styrkurinn, þótt hann fáist, eins og gert er ráð fyrir, er ekki nema hluti af kostnaðinum og bóndinn verður að leggja fram geysiháar fjárhæðir í þessu skyni. Og enda þótt ætlazt sé til, að þeir, sem skemmst eru á veg komnir, fái dálítinn aukastyrk, þá er það nú ekki til þess, að þeir, sem versta hafa aðstöðu, geti hafið ræktun í stórum stíl. Mig minnir, að það séu á fjárlögum nú ætlaðar 4 millj. kr. til þeirra, sem skemmst eru á veg komnir og versta hafa aðstöðu.

Ég get ekki nefnt tölur um það, um hve marga bændur er að ræða, sem kæmu undir þetta ákvæði, en ég veit, að þeir eru undra margir, og þegar á að skipta þessum 4 millj. upp á milli þess fjölda, ekki hundraða bænda, heldur miklu frekar þúsunda, þá verður hlutur hvers af þessum 4 millj. ekki stór, og fátæktinni og erfiðleikunum hjá þeim, sem verst eru settir, verður ekki útrýmt með þessu móti einu, enda þótt ég vilji ekki gera lítið úr þeirri viðleitni, sem í þessu felst. Ég vil hins vegar, að menn geri sér grein fyrir því, að málið er ekki leyst að fullu með þessu og að við stöndum fjarri því að hafa náð því marki, sem við viljum ná í ræktun og afkomumöguleikum fjölda bænda.

Mér finnst ástæða til að benda á þetta, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Dal. og hv. 5. landsk., vegna þess að mér fannst þeir vera um of ánægðir með það, sem áunnizt hefur, og um of ánægðir með það, sem í þessu frv. felst. Við getum að vissu marki glaðzt yfir þeim áföngum, sem hafa náðst. Við getum líka viðurkennt, að í þessu frv. sé nokkuð, sem sé þess virði að vera viðurkennt og vera til bóta. En við megum ekki vera um of ánægðir, og við megum ekki reyna að blekkja sjálfa okkur eða aðra með því að halda því fram, að lengra verði ekki komizt, þetta sé það, sem við þurfum að gera, þetta sé það fullkomna.

Ég ætla ekki að orðlengja meira um ræktunina og vænti þess, að menn geri sér grein fyrir því, að ræktunin verði kostnaðarsöm og á ýmsan hátt erfiðleikum bundin fyrir margan bóndann, þótt þetta verði lögfest.

Ég vil svo minnast á nýbýlingana og aukna styrki til þeirra.

Ég hef hér fyrir framan mig tillögu á þskj. 462. Það er brtt., flutt af hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf. Mér dettur nú ekki í hug, að þessi till. verði felld. Hvaða ástæða er fyrir hv. þm. Dal. eða hv. 5. þm. landsk. að fella þessa till., þegar það er athugað, að það framlag, sem ætlazt er til að verði í frv., nægir ekki á neinn hátt til þess að uppfylla þær kröfur, sem þessir hv. þm. báðir vilja að verði uppfylltar? 25 þús. kr., ef það er aðeins um 11/2 milljón að ræða, nægja aðeins til 60 manna, og ég veit, að hv. þm. Dal. er það kunnugur þessum málum, að hann gerir sér fyllilega ljóst, að það er allt of lág tala í ár og næsta ár, 60 menn. Og ef hann sjálfur hefur þá sannfæringu, að það séu a.m.k. 80–100 menn, sem eigi kröfu á þessum 25 þús. kr. styrk, þá er ég viss um, að hv. þm. Dal. er maður til að skipta um skoðun og fylgja því, sem honum finnst réttara og nauðsynlegt, til þess að lagabókstafnum verði fullnægt. Ég efast ekkert um það, að hv. þm. eftir umhugsun í þessu máli og eftir að þeir hafa gert sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að uppfylla lögin, nema tili. verði samþykkt, greiða þessu atkvæði.

Ég vil ekki gera lítið úr því og segja, að það sé lítils virði fyrir nýbýlinga að fá nú 25 þús. kr. í styrk fram yfir það, sem þeir hafa áður fengið. En ég fullyrði, að þeir þurfa þess með, því að nýbýlingar eiga í miklum erfiðleikum. Það, sem þeir hafa að undanförnu fengið fram yfir aðra, er aðeins 20 þús. kr. aukastyrkur til ræktunar, og það er þess vegna, sem nýbýlingar eru margir hverjir mjög illa staddir fjárhagslega. Mér dettur ekki í hug að viðurkenna það, að þótt þeir fái 25 þús. kr. að auki, þá sé það nægilegt til þess að hvetja menn til að stofna nýbýll, það sé nægilegt til þess að skapa þeim sterka fjárhagslega aðstöðu. En það er vissulega í áttina og bót að því, ef unnt er að láta þá fá nú 25 þús. kr. fram yfir það, sem þeir hafa áður fengið. En við skulum ekki taka þátt í því að semja lög, sem ákveða það, að þeir fái 25 þús. kr., án þess þá um leið að gera ráðstafanir til þess, að það sé hægt að standa við það. Annars erum við að blekkja okkur. Annars erum við að vekja tálvonir hjá þeim mönnum, sem eru að stofna nýbýli og hafa nýlega gert það.

Ég trúi því ekki fyrr en á reynir, að hv. þingmenn, sem ekki standa að flutningi þessarar till., vilji ekki að athuguðu máli hafa það, sem hollast og réttast er að þessu leyti. Það má náttúrlega alltaf segja, að það sé nóg hlaðið á ríkissjóðinn. Það er út af fyrir sig röksemd. En ef hv. Alþ. treystir sér ekki til að hækka þetta framlag úr 11/2 millj. upp í 2 millj., og ef þessar 500 þús. vega svo mikið í fjármálalífi þjóðarinnar og fjárlögum, sem eru upp á 800 millj., að menn halda, að það komi fjárhagskerfinu í koll, þá skulum við ekki segja í lögunum, að nýbýlingarnir eigi að fá 25 þús. kr., heldur skulum við lækka það niður í 18 þús. kr., því að þá er líklegt, að það sé hægt að fullnægja lagabókstafnum. Og um leið og þessi till. er felld, ef það yrði, verður að flytja till. um að lækka framlagið úr 25 þús. niður í 18–19 þús. Ég vænti, að hv. frsm. landbn. geri sér fulla grein fyrir því.

Þá er það önnur brtt. á þessu þskj., nr. 462, um að hækka úr 21/2 millj. upp í 5 millj. kr. framlag til byggingarsjóðsins, til þess að unnt sé að hækka lánin til íbúðarhúsabygginga í sveitum. Í lögunum, eins og þau eru nú, er heimilt að lána allt að 75% af kostnaðarverði húsa. En það hefur ekki verið hægt, vegna þess að ekki hefur verið lagt meira fram í þessu skyni, að hafa lánin hærri en sem nemur 75 þús. kr. á hvert hús, og það mun vera nálægt 30% af byggingarkostnaði. Nú þarf bóndi að byggja hús, sem kostar 250 þús. kr., og þá á hann rétt á því að fá 75 þús. kr. að láni. Margir bændur, sem hafa orðið að byggja upp, eru með þunga víxla á sér vegna þess, hversu byggingarsjóðslánið náði skammt. Og nú, þegar byggingarkostnaður fer hækkandi, er vissulega þörf á því að hækka lánin til íbúðahúsabygginga í sveitum úr 75 þús. upp í 100 þús., eins og gert er ráð fyrir að mögulegt verði að gera með því að samþykkja þessa tillögu.

Það, sem hv. þm. Dal. sagði hér áðan, hefur ekki við rök að styðjast, að það sé hægt að hækka lánin til íbúðarhúsanna, án þess að framlagið sé hækkað, vegna þess að lögin heimili það. Það hefur ekki verið hægt að uppfylla lögin, allt að 75% kostnaði, vegna þess að framlag ríkisins hefur náð svo skammt sem raun ber vitni. Og það verður ekki gert, nema framlagið verði hækkað. Ég veit, að hv. þm. Dal. skilur þetta, og ég veit, að hann gerir sér grein fyrir því, að það verður ekki unnt að hækka þessi lán. Það verður ekki unnt að ganga til móts við bændur, sem þurfa að byggja upp, nema framlagið sé hækkað.

Það er farið fram á það, að framlagið verði hækkað úr 21/2 millj. í 5 millj., þ. e. um 21/2 millj. Það er farið fram á að hækka framlagið skv. fyrri brtt. úr 11/2 í 2 millj. Tillögurnar báðar fara þess vegna fram á 3 millj. kr. hækkun, til þess að hægt sé að veita nýbýlingum 25 þús. kr. og til þess að unnt sé að hækka byggingarsjóðslánin úr 75 þús. kr. upp í 100 þús. kr.

Er nú til of mikils mælzt, þótt þetta verði gert? Taka bændur ekki sinn þátt í dýrtíðinni? Og eru ekki þeirra erfiðleikar nógu miklir, þótt gengið væri til móts við þá í þessu skyni? Bændur þurfa að kaupa byggingarefni til annars einnig en að byggja íbúðarhús yfir sig. Þeir verða að kaupa byggingarefni til þess að byggja yfir búpeninginn. Þeir þurfa að kaupa timbur í girðingar og vír. Þeir þurfa að kaupa vélar, benzín og aðrar rekstrarvörur, sem allar hafa hækkað nú á þessu ári. Þetta verða þeir að gera, án þess að tekjur þeirra vaxi í nokkru hlutfalli við þennan aukna tilkostnað. Og ég segi: Það eru kaldrifjaðir menn og þeir hafa lítinn skilning á hagsmunum bændastéttarinnar, sem ekki vilja á raunhæfan hátt ganga það langt á móts við bændur að samþykkja þessar till. Það er alveg tilgangslaust að vera að samþykkja lög, sem ekki er hægt að framfylgja. Og menn láta ekki til lengdar blekkja sig á þann hátt. Menn spyrja, þegar lögin hafa verið samþykkt: Hafa um leið verið gerðar ráðstafanir til þess, að þau verði raunhæf, eða er þetta aðeins pappírsplagg til þess að flagga með á fundum og til þess að sýnast? — Ég vona, að í þessu frv., sem nú er til umræðu, verði þannig búið um hnútana, að það verði ekki aðeins pappírsgagn, heldur verði hægt að fullnægja lagabókstafnum með auknum lánum til bændastéttarinnar.