13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

126. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. (Páll Zóphóníasaon):

Herra forseti. Þegar við nú við 2. umr. hér í deildinni byrjum að ræða þetta mál, sem ég tel langmerkasta málið á þessu þingi, vildi ég gjarnan með nokkrum orðum gefa nokkurt yfirlit yfir, hvernig málið horfir við frá mínu sjónarmiði og hverja nauðsyn ég tel á að afgreiða það.

Ég hef skrifað greinaflokk, hvar af þrjár hafa birzt í Tímanum, en hinar hafa ekki haft pláss þar enn, en koma síðar, um það, hvernig ástandið er í hverrí einstakri sýslu. Af þeim geta menn séð þær sömu tölur, sem fram koma í áliti minni hlutans, eftir Pálma Einarssyni, sem úr þeim hefur unnið með mér, um, hvernig túnstærðir eru nú í heild á landinu. En það er nú svo, að það er ekki túnstærðin ein, sem þarna kemur til greina. Það þarf að taka tillit til fleira, þegar þið afgreiðið þetta mál og takið afstöðu til þess. Það er nú svo, að bændurnir geta yfirleitt ekki rekið bú á sínum jörðum, til þess að þau séu arðgæf, nema þeir hafi aðstöðu til þess að afla heyja á jörðinni, sem búféð aftur geti umsett í afurðir, sem séu það miklar, og hægt sé að selja þær fyrir það verð, að kostnaðurinn við heyöflunina ásamt með öðrum óhjákvæmilegum kostnaði við búreksturinn, eins og landskuldum og útsvari, sköttum o.s.frv., náist upp borinn. Meðan barið var á útberjum hér og þar um landið, gekk þetta, meðan fólkið kostaði lítið eða ekki neitt. En um leið og kaupgjaldið óx, varð þetta ómögulegt, þá varð eftirtekjan of lítil. Þá sneru bændurnir sér að því yfirleitt að reyna að stækka túnin, og það opinbera fór að koma þá á móti þeim með jarðræktarstyrk (1924).

Nú skal ég með nokkrum tölum sýna, hvernig þetta hefur gengið, því að það er meira komið undir uppskerunni á túnunum heldur en út af fyrir sig stærðinni. En uppskeran á túnunum er svo misjöfn, að sumarið 1955 fékk sá bóndi, sem fékk minnst af sínu túni, nm 11 hesta af ha., en sá, sem fékk mest, yfir 70, svo að allir sjá, að þetta skiptir líkamáli. Ég hef þess vegna flokkað jarðirnar, sem byggðar voru 1955, í hópa eftir því, hve mikið töðufall var á jörðunum. Þegar þið heyrið þær tölur og sjáið, hvernig þær hafa breytzt, þá skiljið þið nauðsynina á því, að þetta átak sé gert til þess að koma heyfengnum upp á þeim jörðunum, sem minnst töðufallið hafa hlutfallslega, ég nefni hlutfallstölur eingöngu, en ekki heildartölur, og ég bendi þá á, hvernig þetta hefur breytzt frá 1930 og til 1955. – 1930 voru 40.8% af öllum jörðum í landinu, þar sem menn höfðu innan við 100 hesta töðufall af túnum sínum. 1940 er talan komin niður í 32.1, 1950 niður í 12.4 og núna, 1955, niður í 7.4. Þetta eru jarðirnar, sem höfðu allra minnstu töðuna. Það hefur þá unnizt þetta á, að það er ekki nema 7.4% af jörðunum í landinu núna, sem byggðar eru, sem hafa innan við 100 hesta töðufall af túninu. Með á milli 100 og 200 hesta töðufall voru líka 40.8% jarðanna 1930, 38% 1940, 32% 1950 og 24% 1955. Milli 200 og 300 voru 11.4%, fjölga svo upp í 18% 1940, upp í 25.5% 1950 og upp í 33.2% 1955. Með milli 300 og 400 hesta töðufall voru bara 4% 1930, það var allt og sumt, fjölgar svo upp í 6.7%, upp í 15%, og nú er það komið upp í 17%. Með milli 400 og 500 hesta töðufall var 1.4%, svo 2.3%, svo 7.4% og svo 1955 8%. Og með milli 500 og 600 hesta töðufall voru það 0.6%, 1.4%, 3.7% og nú 4%. Og með milli 600 og 700 voru 0.3%, 0.6%, 1.6% og nú 2%. Og með yfir 800 hesta töðufall voru 0.4%, 0.5%, 1.5% og nú 2.9%. Þið sjáið af þessu, að á þessum 25 árum, sem þarna er um að ræða, fækkar blessanlega jörðunum með litlu túnin og fjölgar þeim, sem hafa stærri tún eða meira töðufall. Það miðar í áttina og miðar meira að segja vel í áttina, sérstaklega á síðustu fimm árunum.

Af þessu er alveg ljóst, hver höfuðnauðsyn það er að koma þessum jörðum upp, sem hafa minnst töðufall, til þess að myndist þar grundvöllur fyrir sæmilegum búskap. Núna er þetta svo, að bændurnir, sem á þeim búa, gera hvort tveggja, annars vegar hafa þeir ekki nóga vinnu á jörðinni, það koma ekki eftir þá þau afköst í þjóðarbúið, sem á að vera, og hins vegar fara þeir þó burt oft og einatt til þess að afla sér tekna utan búskaparins.

Ég hef verið þar í sveit staddur, vestur á Vestfjörðum að vori til á kúasýningu, að af 34 bændum í sveitinni voru aðeins tveir heima í sveitinni, hinir allir til sjós á vertíð til að afla sér tekna til viðbótar sínum litlu tekjum af búunum. Og þessi bú voru þá svo lítil, að þegar bóndinn er heima að stunda skepnurnar, t.d. að vetrinum, þá vinnur hann ekki nema litið brot af þeirri vinnu, sem menn vinna, þar sem búreksturinn er kominn í lag og þar sem bóndinn hefur nóg að starfa. Vinnuaflið nýtist þess vegna ekki. Það er fyrst og fremst vegna þessa, sem við þurfum að koma heyskapnum á þessum jörðum upp. Það er ekki af því, að þessi bóndi, sem á jörðinni býr, þurfi sérstaklega á því að halda að fá jörðinni breytt í þessu efni. Það er af því, að þjóðfélagið þarf þess. Þjóðfélagið þarf að fá nýtt vinnuafl hvers þjóðfélagsþegns og fá framleiðsluna sem allra ódýrasta, og þess vegna er það, sem á að leggja vinnu og peninga og allt, sem hægt er, í það að skapa þá aðstöðu á þessum jörðum, að mennirnir geti búið þar mannsæmandi lífi og haft þær tekjur, sem þeir þurfa fyrir sína fjölskyldu.

Við sjáum þetta líka, ef við lítum á stærð túnanna og heyfallið af þeim eftir sýslum, og þá sjáið þið, hve geysilega þetta er misjafnt. Stærsta meðaltún á jörð í sýslu núna er úr Rangárvallasýslu, það er 14,5 ha., og fæst af því 521 hestur, og er meðaljörðin þar sú fimmta í röðinni hvað töðufallið snertir, þó að það sé efst með stærðina. Næst kemur Kjósarsýsla með 14,2 ha. tún og 485 hesta og er sú sjötta í röðinni hvað töðufallið snertir. Þá Árnessýsla með 14 ha. tún og 547 hesta og er sú þriðja í röðinni hvað töðufallið snertir. Borgarfjarðarsýsla er næst með 13.7 ha. tún og 544 hesta og er sú fjórða í röðinni. Eyjafjarðarsýsla með 13.2 ha. tún og 559 töðuhesta og er önnur í röðinni hrað töðufallið snertir. Austur-Húnavatnssýsla með 11.9 ha. tún og 587 hesta af meðaltúninu og er nr. eitt hvað töðufallið snertir.

Þessar sýslur fimm — ekki Kjósarsýslan, en hinar fimm — eru með yfir 500 hesta af túninu. Það er allt og sumt. Svo kemur Skagafjarðarsýsla næst með 10.8 hektara tún og 429 hesta og er sú 8. í röðinni hvað töðufallið snertir. Mýrasýsla með 9.9 ha. tún og 447 hesta og er sú 7. í röðinni hvað töðufallið snertir. Vestur-Skaftafellssýsla með 9 ha. tún og 308 hesta töðu og er sú 15. í röðinni hvað töðufallið snertir. Suður-Þingeyjarsýsla með 8.8 ha. tún og 348 hesta töðu og er sú 12. í röðinni hvað töðufallið snertir. Dalasýsla með 8.6 ha. tún og 408 hesta töðu og er sú 9. í röðinni hvað töðufallið snertir. Og með Dalasýsluna er það einkennilegt, að þegar maður tekur túnstærðina eins og hún var 1920, þá er Dalasýslan nr. eitt með stærst tún og mest töðufall af öllum sýslum landsins. En nú er hún orðin sú 11. í röðinni hvað túnstærðina snertir og sú 9. hvað töðufallið snertir. Vestur-Húnavatnssýsla hefur 8 ha. tún á meðaljörð og 396 töðuhesta og er sú 10. í röðinni. Norður-Ísafjarðarsýsla með 7.9 ha. og 313 hesta og er sú 14. í röðinni. Norður-Þingeyjarsýsla með 7.9 ha. tún og 337 hesta og er sú 13. í röðinni. Austur-Skaftafellssýsla með 7 ha. tún og 266 hesta og er sú 18. í röðinni. Suður-Múlasýsla með 6.8 ha. tún og 299 hesta og er sú 16. í röðinni.

Norður-Múlasýsla með 6.8 ha. tún, 261 hest og er sú 19. í röðinni. Vestur-Ísafjarðarsýsla með 6.8 ha. tún og 348 hesta og er sú 11. í röðinni. Snæfellsnessýsla með 6.4 ha. tún og 289 hesta töðu og er sú 17. í röðinni. Barðastrandarsýsla með 6.1 ha. tún og 260 hesta töðu og er sú 20. í röðinni. Og Strandasýsla með 6,1 ha. tún og 257 hesta og er sú 21. í röðinni. Meðaltúnið á landinu er 10.2 hektara stórt og gefur af sér 414 hesta.

Þið sjáið af þessu, að þetta er ákaflega misjafnt í sýslunum. Og ef við förum að gá að jörðunum, sem byggðar eru og hafa minnst túnin, þá sjáum við, að það er í sumum þeirra allt niður í 52% af byggðinni í Barðastrandarsýslunni, sem hefur tún, sem eru minni en 5 ha. Það er meira en önnur hver jörð árið 1956.

Nú skal það viðurkennt mjög fúslega af mér, að það er ekki einhlítt að dæma eftir. heyskapnum einum, og það getur hugsazt og kemur oft fyrir, að menu, sem hafa minni töðu en maður telur æskilegt, hafi á annan hátt upp arð af sínu búi. Sérstaklega gildir þetta um Strandasýsluna, þar sem er mikið af hlunnindum, og koma tekjur í gegnum þau. En þetta kemur líka af því, að búféð er misarðsamt. Og án þess að fara nánar út í það, skal ég benda á, að í gegnum eftirlits- og fóðurbirgðafélögin, sem eru nokkur í landinu og halda skýrslur, fær maður annars vegar, hvað margt fé er á fóðri að vetrinum, hins vegar, hvað mörgum lömbum er slátrað og hvað þau hafi haft mikið kjöt alls, sem slátrað hefur verið, í þriðja lagi, hvað mörg lömb eru sett á og seld til lífs. Ef maður reiknar líflambið með sama kjötþunga og sláturlambið, þá sýnir það síg, að brúttóarðurinn, sem bóndinn fær af sínu fé, er svo misjafn, að í heilum hreppum getur þetta munað upp undir helming. Fyrir árið í fyrra er ég búinn að reikna þetta út fyrir 12 félög, sem hafa sent til mín skýrslur, þar af er það hæst í Kirkjubólshreppnum í Strandasýslunni. Þar eru 2679 fjár á fóðri, og þar kemur á fóðraða kind 21.3 kg af dilkakjöti. Sá hreppurinn, sem aftur er lægstur, hefur 2980 kindur á fóðri og fær 11.4 kg af kjöti eftir fóðraða kind. Þar á milli standa svo hinir. Sama gildir um nautgripina. Meðalkýrnyt er helmingi hærri í þeim hreppum, sem hún er mest í, en þar sem hún er lægst.

Það er þess vegna ekki allt komið undir því, hve heyöflunin er mikil, heldur líka undir því, hvernig búfénaðurinn er, sem þeir láta breyta heyi í afurðir, og hvernig með hann er farið. Ég tel þess vegna nauðsynlegt ákvæði að láta fé úr ríkissjóði til þess að koma upp töðufallinu á þessum jörðum, sem minnst bú hafa og þar sem bóndinn verður sumpart að vera atvinnulaus heima og sumpart að vera á snöpum eftir atvinnu annars staðar, svo sem þingið hefur nú margviðurkennt, t.d. þegar er verið að búta niður fé í vegina. Þá er ævinlega verið að taka tillit til þess, að bændurnir geti fengið vinnu við vegagerðina, sem aldrei ætti að gera og ekki að búta vegaféð eins mikið niður og gert er, en það er nú annað mál.

Þetta frv., sem fyrir liggur, á að vera búið að fá ákaflega rækilega meðferð. Það er undirbúið af mþn., sem í sat formaður Búnaðarfélags Íslands og Pétur Ottesen eftir ábendingu frá Búnaðarfélagsstjórninni, Jón Pálmason og Pálmi Einarsson landnámsstjóri frá nýbýlastjórn og svo skólastjórinn á Hólum stjórnskipaður. Þrátt fyrir það er frv., eins og það nú liggur hér fyrir þessari deild, í því formi, að ég hefði óskað eftir ákveðnum breytingum við það og þeim þó nokkrum. En þar sem tveir mennirnir, sem voru í mþn., sitja í Nd. og sýnilega hafa önnur sjónarmið á því en ég, a.m.k. hvað sumt af þeim brtt. snertir, þá mun ég ekki hér í deildinni flytja brtt. við frv., aðrar en þær, sem ég tel alveg nauðsynlegar lagfæringar á atriðum, sem hafa einhvern veginn dottið út hjá þeim. Hinar tillögurnar, sem ég vildi gera, en geri ekki, eru sumar þess eðlis, að það getur kannske eins vel gengið að hafa það eins og það er hjá þeim og eins og ég hefði viljað hafa það. En aðrar eru aftur þess eðlis, að strax á næsta eða þar næsta þingi hygg ég, að allir sjái, að þeim þarf að breyta og að þeim þá verði breytt þar. Ég beld, að það sé ástæða til að minnast á þessi atriði málsins vegna framtíðarinnar.

Ég skal fyrst minnast á það, sem ég tel miður farið, en ég býst ekki við að verði breytt, hvorki nú né í náinni framtíð, úr því sem komið er. Og það er það, að ég hefði talið eðlilegt, að það væri ekki nýbýlastjórn og landnámsstjóri, sem ættu að sjá um stækkun á þessum gömlu túnum og úthluta þeim 4 millj. í ár og 5 millj. næstu ár, sem verja á til þess, heldur Búnaðarfélag Íslands. Búnaðarfélag Íslands er samsafn af öllum búnaðarsamböndunum, ræktunarsamböndunum, og undir því starfa héraðsráðunautarnir. En það er vita ómögulegt að framkvæma þetta mál, hvernig sem það verður afgreitt, nema með aðstoð og samvinnu við þessa aðila, sem allir lúta yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands. Þess vegna var miklu eðlilegra, að Búnaðarfélag Íslands hefði þessa framkvæmd málsins með höndum í frv. heldur en landnámsstjóri. Hins vegar mun hér vera að ræða um sömu viðleitni og hefur smám saman verið hjá því opinbera. Málin hafa verið færð frá Búnaðarfélaginu og undir aðrar sérstakar stofnanir eða beint undir ríkisstjórnina, smám saman, þegar Búnaðarfélagið og þeir, sem að því standa, hafa verið búnir að vinna nógu mikið að málunum og koma þeim almennilega á stað. Þannig var það með jarðræktartilraunirnar. Þær fóru fram um áratugi alveg á vegum Búnaðarfélags Íslands. Nú eru þær allar komnar undir sérstaka stjórn og beint undir stjórnarráðið. Þannig fór um búfjárræktartilraunirnar. Það var alveg sama. Þar reið Búnaðarfélag Íslands á vaðið, hafði þær með höndum og sá um þær líka um áratugi. Nú eru þær allar komnar undir sérstaka stjórn og beint undir stjórnarráðið. Þannig var um fiskræktina. Það byrjaði á því að hafa fiskiráðunaut og leiðbeina um fiskiklak. Þannig var það með nýbýlamálið o.s.frv., o.s.frv. Nú er það komið undir sérstaka stjórn og burt frá Búnaðarfélagi Íslands. Svoleiðis var það með sandgræðsluna.

Meira að segja eftir lögum á Búnaðarfélag Íslands að hafa hana enn með höndum að öllu leyti, en í framkvæmd er hún komin undir sandgræðslustjóra, sem heyrir beint undir stjórnarráðið, og þau mál koma aldrei í Búnaðarfélagið. Ég skoða þetta sem áframhald á þessari þróun, og án þess að leggja dóm á það, hvort hún hafi verið heillavænleg alltaf og ævinlega, eins og hún hefur verið framkvæmd hingað til, þá fullyrði ég alveg, að það var miklu heppilegra í þessu tilfelli, þar sem átti að vinna með öllu því „apparati“, sem myndar Búnaðarfélagið, búnaðarsamböndunum og ræktunarsamböndunum og héraðsráðunautunum, að láta Búnaðarfélagið hafa framkvæmdina heldur en nýbýlastjórn. Og nýbýlastjórn verður vita ómögulegt að framkvæma það, hvernig sem það er framkvæmt, nema í samráði við héraðsráðunautana, búnaðarsamböndin og ræktunarsamböndin.

En sem sagt, þetta hefur n. orðið sammála um, menn úr stjórn Búnaðarfélagsins, meiri hlutinn úr henni, nefndarmenn og aðrir hafa orðið sammála um þetta, og ég ætla ekkert við því að segja, en bendi þó á þetta.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að mér finnst allt of losaralega á því tekið í frv., hvernig þessi framkvæmd á að fara fram. Hér á ríkið að koma með styrk, sem á að nema helmingi af kostnaðinum við að stækka túnin og koma þeim upp í 10 ha. stærð, þar sem á annað borð þykir rétt, að byggð haldist á jörðinni og tún séu gerð svo stór. Það eru margar leiðir til að framkvæma þetta. Það má hugsa sér að framkvæma það á þann veg að fela viðkomandi ræktunarsambandi að taka fyrir þennan eða hinn hrepp, til þess að það verði gert sem ódýrast, flutningur milli staða sem minnstur, að koma öllum túnunum í hreppnum upp í 10 ha. og hver greiði sinn helming. Það má hugsa sér að framkvæma það á þann hátt að borga bara aukastyrk á þau túnin, sem þetta er gert við, og láta laust og fast, hvaða tún það eru, eftir að búið er að ákveða, hvaða jarðir heyri þarna undir. Og enn mætti hafa það á fleiri vegu. En hvernig sem það verður framkvæmt, þá er ákaflega hætt við því, að það dragi að einhverju leyti úr framkvæmdum á binum jörðunum í hinum hreppunum, sem biða. Það eru takmörk, hvað margar jarðir er bægt að taka fyrir í sumar til þess að koma túnunum á þeim upp í 10 ha. Vinna þá hinir á litlu túnunum, eins og þeir mundu annars hafa gert, eða halda þeir að einhverju leyti að sér höndum, af því að þeir vita, að röðin kemur að þeim á næsta ári eða þar næsta ári, og þá fá þeir helminginn borgaðan, en ekki nema lítið brot núna? Það er ekkert farið inn á það í frv., hvernig þetta eigi að framkvæmast og sé hugsað að framkvæmast. Ég sakna þess, því að þetta getur oltið á töluvert miklu um, hvað gert verður að endurbótum á næstu árum, hvernig þessu er fyrir komið. Ég mun þá ekki heldur fara út í það og ekki gera neina till. um það, en ég sakna þess sem sagt. Það má líka segja, að það sé reglugerðarákvæði og komi þar fram og þurfi því ekki að takast í lögin sjálf.

Þá eru tvö atriði í lögunum, sem ég tel að þurfi að breyta, helzt bara strax á næsta þingi. en ég vil ekki leggja til breytingu á núna af þeirri ástæðu, að ég óttast, að frv. nái þá ekki fram að ganga. En ég tel nauðsyn bera til þess, að það nái fram að ganga á þessu þingi.

Þessi tvö ákvæði eru annars vegar það, að það er ákveðið í þessu frv., að nýbýlingurinn skuli hafa 25 ha. af ræktanlegu landi. Þar af á nýbýlastjórnin að rækta fyrir hann 10, eða styrkja hann til að koma þeim í fulla rækt, en hitt á hann svo sjálfur að rækta á næstu 10 árum. Ég tel, að það sé alveg eins ástatt hér og í öllum okkar nágrannalöndum, að það sé nauðsyn á því að koma sér niður á, að jarðirnar séu af hæfilegri stærð, til þess að það fáist fullur afrakstur eftir þá menn, sem á jörðinni vinna. Bæði t.d. í Noregi og Svíþjóð eru núna komin lög, sem heimila að taka jarðir eignarnámi og skipta þeim upp og byggja þær að nýju, bara til þess að fá þær í hæfilega stærð, svo að búskapurinn á þeim geti borið sig og maðurinn haft fullt að vinna á þeim. Þetta verða þeir að gera af því að þar er landið allt ræktað, en þar sem við höfum nóg af óræktuðu landi af að taka, þá þurfum við þessa ekki hér.

Nú hef ég litið svo til, eftir því sem ég bezt hef getað séð á afkomu bænda um landið, sem ég er töluvert mikið kunnugur, að það sé til tvenns konar stærð á jörðum hér á landi fyrir utan litlu jarðirnar, sem enginn getur lifað á. Annars vegar er stærð, sem er það stór, að hjónin geta nytjað jörðina að fullu og fengið af sinni vinnu sæmilegan afrakstur fyrir sig til að lifa á án aðkeyptrar vinnu. Ég held, að það megi ekki vera stærra en 20 ha. tún, sem þau þurfi að hafa til þessa. Ég gæti nefnt nokkra bændur, milli 10 og 20, sem hafa bú, sem svara til þess, að þeir hafi heyskap af 20 hö., og vinna að því hjónin ein, aðstoðarlaust, að heyja og hirða þær skepnur, sem á þessu heyi er hægt að hafa, og hafa ágæta afkomu, en eru bundin við heimilið. Ef kæmi til viðbótar 5 ha. ræktað land, gætu þau ekki annað því ein. 5 hektararnir, sem þarna væri bætt við túnstærðina, mundu gera það að verkum, að þau verða þá strax að byrja á því að kaupa aðstoðarvinnu, en afraksturinn, sem þau fá af þeim skepnum, sem þau gætu fóðrað á heyi af þessum 5 hö., borgar ekki aðstoðarmanninum. Það er þess vegna stutt að því að gera búin óarðbær eða verr arðbær með því að hafa stærðina þessa. Þess vegna vil ég ekki hafa túnastærðina meiri en 20 ha. og það tel ég að þurfi að breytast mjög fljótlega, þó að ekki sé ástæða til að taka það upp sem baráttumál nú á þessu þingi.

Hitt atriðið er það, að nýbýlingunum, sem taka nýbýlið og fá þessa 10 ha. ræktaða og eiga svo að bæta við sig 15 hö. af túni, er uppálagt að gera það á næstu 10 árum, 11/2 ha. á ári, og ef þeir ekki gera það, þá missa þeir ábúðarrétt á býlinu, og það væri hægt að segja þeim upp eða byggja þeim út. Ég tel þetta allt of mikið á lagt. Það er svo fjarlægt, að nýbýlingur, sem búinn er að taka við öllum þeim lánum, sem hann kemur til með að taka á nýbýlið, og þarf að koma upp bústofni, — er svo fjarlægt, að hann geti ræktað hálfan annan hektara á ári eða lagt í ræktun á ári upp í fimm til átta þúsund, — ja, ef hann er á sandjörð, þá má kannske segja, að það nemi svo sem 4–5 þús. — og það alveg upp í 12 þús. kr., ef hann hefur slæma mýri til að rækta. Þetta tel ég allt of mikið á hann lagt og ekkert vit í að ætla honum að rækta svo mikið á ári. Þessi tvö atriði eru það, sem ég tel að þurfi að breyta og muni verða breytt, kannske strax á næsta þingi. En sem sagt, þar sem bæði upprunalega milliþn., sem fjallaði um þetta, hefur talið rétt að hafa það svona og sömuleiðis Nd., þá vil ég ekki eiga á hættu, að farið sé að rifast nm þessi tvö atriði svona seint á þinginu, og þess vegna kem ég ekki með brtt. við þau, sem ég ella mundi hafa gert.

Þá eru það tvö atriði, sem við nm. erum allir sammála um að gera brtt. við, og það er hvort tveggja atriði, sem er nánast lagfæring. Það er ákveðið í 11. gr. frv., að byggja skuli nýbýli, — sem ég gef nú miklu minna fyrir en hitt, að koma byggðu jörðunum með litlu túnin í ábúðarhæft ástand, — byggja skuli nýbýli þannig, að þau séu byggð á erfðaleigu og að eftirgjaldið sé 5% af fasteignamatinu.

Ég hef ekki út af fyrir sig neitt á móti þessu. Ég viðurkenni það, sem sagt er í nál. frá mþn., að þetta sé eðlileg hækkun, samanborið við vaxtafót yfirleitt í landinu og allar aðstæður. En svo kemur aftur í 18. gr., og þar er sagt, að nýbýlið eigi að leigja eftir lögunum um erfðaábúð og óðalsrétt, en þau mæla svo fyrir, að þau eigi að leigjast fyrir 3%. Það er nefnilega sagt í annarri gr., að þau eigi að leigja fyrir 5%, og í hinni, að það eigi að leigja fyrir 3%.

Nefndin féllst á fimm prósentin og gerir brtt. við 18. gr., sem er eingöngu í því fólgin að bæta aftan við tilvitnunina nr. 116 30. des. 1943: sbr. þó 11. gr. — Þar með er sagt, að það eigi að fylgja lögunum að öðru leyti en því, sem 11. gr. ákveður um aðra prósentu af fasteignamatinu. Þetta hef ég minnzt á við suma nefndarmennina úr Nd., og þeir segja, að þeim hafi sézt yfir þetta og það sé sjálfsagt að leiðrétta þetta og þess vegna engin hætta á því, að þetta verði til þess á neinn hátt að tefja framgang málsins.

Hitt atriðið er það, að það er tekið fram í lögunum, þegar rætt er um byggingarsjóð, að þegar jörð sé leigð á erfðafestu, opinber jörð, þá þurfi ekki sérstakt leyfi ráðh. að koma til í hvert skipti, sem tekið er lán út á jörðina úr þeim sjóði. En maður, sem hefur jörð í erfðafestu, hefur að lögum rétt til þess að fá lán og veðsetja jörðina, en þarf að sýna þinglesinn erfðasamning, er gefur honum sama rétt til þess að veðsetja jörðina eins og veðbókarvottorð eða veðleyfi gefa öðrum mönnum. Þetta hefur verið tekið inn viðvíkjandi ákvæðum um byggingarsjóðinn, en þetta hefur gleymzt að taka fram viðvíkjandi ræktunarsjóðnum, sem alveg hlítir sömu reglum.

Og hin brtt. er engin önnur en sú, að við tökum inn, aftan við 65. gr., sem talar um þetta gagnvart ræktunarsjóðnum, — ég man ekki, hvort það er alveg orðrétt eins, en alveg sama meining og annars er í frv. viðvíkjandi byggingarsjóðnum. Það er líka gleymska hjá n. í Nd. að hafa ekki tekið þetta upp, svo að þetta er líka leiðrétting.

Báðar þessar tvær till. eiga þess vegna ekki á nokkurn hátt að geta orðið til þess að tefja framgang málsins, en til þess vildi ég sízt af öllu verða.

Tveir nm. flytja svo till., sem fluttar voru í Nd. og felldar þar. Ég held nú, að þeir flytji þær til að sýna þær, og ég held, að vilji þeirra sé nú sá eða von þeirra sé sú, að þær verði ekki deilumál á milli deilda, sem geti komið málinu fyrir kattarnef á þessu þingi, þó að þær séu fluttar. Þessar brtt. eru um að hækka framlagið úr 1.6 millj. upp í 2, þar sem er að ræða um óafturkræfan ankastyrk til nýbýlinganna viðvíkjandi húsabyggingum, 25 þús. kr. á býli. Ég geri ráð fyrir um þessa till. þeirra, svo að ég fari nú hér aftan að siðunum og tali um þær strax, áður en ég hef heyrt framsöguna, það er nú náttúrlega ekki venjulegt að gera það, en ég býst ekki við, að ég komi hér upp í ræðustólinn aftur, og þess vegna geri ég þetta núna móti allri venju, — ég býst við, að þeir líti þannig á, að að meðaltali hafi undanfarið verið reist 80 nýbýli og þá muni vanta til að geta látið hvert þeirra hafa 25 þúsund kr. hálfa milljón, þar sem fjárhæðin, sem ætluð er til þess, er 11/2 millj. Það getur vel verið, að þetta sjónarmið út af fyrir sig sé rétt. En tvennt er þó þar við að athuga frá mínu sjónarmiði. Það fyrra er það, að ég er nú ekki viss um, að nýbýlin verði svona mörg, þegar við athugum nánar, hvað nýbýlin hafa verið stofnuð mörg undanfarin ár. Það hafa verið stofnuð og styrkt nýbýli á jörðum, sem menn hafa sett í eyði til þess að koma þeim undir nýbýlastyrkinn. Það var ólifandi á þeim, eins og þær voru. Þeir gátu ekki fengið neina aðstoð til að koma jörðunum í það horf, að það væri búandi á þeim, og þeir hættu að búa á þeim 1–2 ár, og þær fóru í eyði. Svo komu þær aftur í byggð sem nýbýli. Þetta sjónarmið hverfur og nýbýlunum fækkar þess vegna, þegar þetta frv. verður að lögum. Í öðru lagi má líta svo á, þar sem hvort tveggja er ákveðið, 25 þús. kr. styrkur á nýbýlið og 11/2 millj. alls, að ef þessi 11/2 millj. ekki nægir til að láta hvern nýbýling fá 25 þús., að það sé skylda að koma með aukafjárveitingu fyrir því, sem á vantar. Nýbýlingurinn á rétt á 25 þús. kr., og hann á ekki að gjalda þess, þó að frv. geri ekki ráð fyrir meiru. Það er líkt og með jarðræktarlögin. Þetta er upphæð, sem er nánast áætlun og ómögulegt er að segja hver verður, því að það fer á hverjum tíma eftir því, hve nýbýlin eru mörg, sem byggð eru. Þess vegna held ég, að það sé alger óþarfi að koma með þessa till. og langt frá því, að það eigi að fara að láta hana verða til þess að stofna málinu í tvísýnu.

Hin till. mun vera sú að hækka í 43. gr. 21/2 millj. upp í 5 millj. Þetta er framlag til byggingarsjóðs. Ég held, að þetta sé alger óþarfi. Ég held meira að segja, að byggingarsjóði sé sæmilega vel séð fyrir fé. Hann á að fá vissa upphæð árlega úr almenna húsnæðissjóðnum, tekjunum, sem þar koma inn, og með henni og þeim tekjum, sem hann annars hefur og fær eftir frv., þó að ekki sé nema 21/2 millj., þá held ég, að hann sé alveg ugglaus með að geta veitt þeim, er óska, byggingarlán. Það eina, sem kynni að gera það að verkum, að hann gæti það ekki, væri það, að inn í þetta frv. er sett ákvæði um, að á nýbýlunum sé hægt að fá lán til byggingar útihúsa úr nýbyggingasjóði. Menn hafa fengið þau úr ræktunarsjóði. Hvað mikið þetta verkar, veit ég ekki. Ég veit ekki heldur, hver muni verða framkvæmdin, því að þessir menn geta núna fengið lán úr báðum stöðunum, bæði úr ræktunarsjóði eða annaðhvort úr ræktunarsjóði eða byggingarsjóði. En ég held ekki, þó að útihúsin á nýbýlunum færist yfir á byggingarsjóðinn, að það sé nein hætta á því, að hann verði fjárvana. Við verðum að gá að því, að það er ekki eftir að byggja upp íbúðarhús nema á milli 20 og 30% af sveitajörðum í landinu, á hinum eru komin hús núna á síðustu árunum, sem talin eru sæmileg, og því ekki líkur til, að það verði byggt eins ört og verið hefur. Ég held þess vegna, að þessi tillaga sé líka algerlega óþörf og eigi ekki að samþykkjast.

Það eru þess vegna ekki nema tvær brtt., sem ég mæli fyrir, brtt., sem nefndin stendur öll að, og brtt., sem við höfum nokkurn veginn vissu fyrir að ekki tefja framgang málsins, en málið þarf og á að ná fram að ganga á þessu þingi.