20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

159. mál, skattur á stóreignir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun ekki taka mikinn þátt í þeim umr., sem hér hefur verið efnt til nm stjórnmálaviðhorfið almennt, en kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að ræða um nokkur atriði þessa máls, sem hér liggur fyrir. En þó mun ég með aðeins örfáum orðum minnast á nokkuð af því, sem hv. 1. þm. Reykv. lét hér falla almennt.

Þessi hv. þm. fjargviðraðist nokkuð um fjarvistir ráðh., sagði, að þeir væru ekki nægilega oft á deildarfundum, og hafði hv. þm. um þetta nokkuð mörg orð. Ég hygg, að það sé engin ný bóla, að ráðh., sem gegna annasömum störfum, þurfi eða neyðist til þess að vera oft nokkuð lausir við á þingfundum, og hafi því verið óþarft fyrir hv. þm. að vera með þessi látalæti út af því. En út af þessu væri ástæða til þess að spyrja þennan hv. þm. að því, hvar formaður stjórnarandstöðunnar hafi verið í vetur, því að á þingi hefur hann ekki verið. Á þingi hefur hann ekki unnið í vetur, og á þingi hefur hann ekki verið, en hvað hefur tafið hann, hvar hefur hann verið í vetur? Hvernig hefur hann rækt sínar þingmannsskyldur á þessum vetri? Það væri fróðlegt að heyra skýrslu frá hv. 1. þm. Reykv., sem hefur svo ríkan áhuga fyrir því, að þm. geri skyldu sína, heyra skýrslu frá honum um það mál, fyrst hann er að gera sig að eins konar siðameistara í þinginu. Og þetta er raunar ekki fyrsta sinn,sem hefur bryddað á þessu hjá honum.

Þá spurði hv. þm., hvort stjórnin ætlaði að lækka gengið, og heimtaði að fá að vita það. Sannleikurinn er sá, að allar ráðstafanir ríkisstj. hafa verið miðaðar við það að komast hjá gengislækkun. En á hinn bóginn hefur öll vinna þessa hv. þm. og flokks hans gengið í þá átt að grafa undan verðgildi peninganna. Í það fer allt erfiði þessa hv. þm. og hefur farið, síðan hann komst í stjórnarandstöðu. Og þó að hv. þm. hafi nokkra tilhneigingu til þess að koma hér fram í þessum umr. eins og óknyttastrákur, sem hefur fleygt í glugga í myrkri og hleypur síðan frá, og vilji þannig koma á aðra ýmsu af því, sem hefur stafað af moldvörpustarfsemi hans og stjórnarandstæðinga í þessa átt, þá kemur það honum að engu haldi, því að það sást til hans, eins og þar stóð. Og þessi hv. þm. mun eiga eftír að standa í því að gera alþjóð miklu ýtarlegri grein fyrir þessu starfi öllu en hann sjálfur óskar, um það er lýkur.

Þessi hv. þm. var að segja það hér áðan, og það er einn þáttur í þessari starfsemi, sem hann stendur fyrir um þessar mundir, að Eysteinn Jónsson eða hæstv. fjmrh., eins og hann segir, hafi haft geð og heilindi, sagði hann, — geð og heilindi til þess að labba upp í Samband og hækka kaupið þar um 8%, á meðan kaupstöðvunarlögin giltu. Og svo bætti hann við: og tekið þar með forustuna um nýja kauphækkun. — En hverjar eru staðreyndir þessa máls, staðreyndir, sem hv. 1. þm. Reykv. eru mjög vel kunnar? Þær eru þessar: 1955 hækkaði kaupgjald hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur um allt að 15%, síðast á árinu 1955 voru sett lög á Alþingi um laun embættismanna, sem hækkuðu laun þeirra a.m.k. um 9–10%, sumarið 1956 hækkaði bæjarstjórn Reykjavíkur laun sinna starfsmanna að minnsta kosti um 8%, og Landsbankinn og aðrar hliðstæðar stofnanir hækkuðu launagreiðslur sínar sumarið 1956, og það var ekki fyrr en um haustið 1956, sem Sambandið breytti sínum launum til samræmis við það, sem aðrir voru búnir að gera. En hv. 1. þm. Reykv. hentar að snúa sannleikanum algerlega við og segja, að með þessu hafi Eysteinn Jónsson og Samband ísl. samvinnufélaga tekið forustuna um nýja kauphækkun, þó að honum sé fullkomlega ljóst, að það, sem hér var verið að gera, var aðeins að gera það, sem aðrir voru búnir að gera löngu á undan Sambandi ísl. samvinnufélaga. Enda þótt hv. 1. þm. Reykv. sé þetta ljóst og honum hafi verið gerð grein fyrir þessu, þá lætur hann blað sitt endurtaka þessa blekkingu svo að segja daglega í því trausti, að séu blekkingarnar endurteknar nógu oft, þá trúi menn þeim að lokum.

En hvers vegna er hv. 1. þm. Reykv. að halda þessu svo mjög á lofti? Jú, það er auðvitað augljóst mál. Það er þáttur í þessu, sem hann er að aðhafast, að grafa undan verðgildi peninganna, koma af stað nýrri kauphækkunar- og verðhækkunaröldu. Hann er sem sagt að segja mönnum þetta: Takið eftir, þeir hækkuðu kaupið í Sambandinu, þið eigið að hækka það líka. Alveg sjálfsagt, þið eigið að hækka það líka. Það er ekki bara Sambandið, sem á að hækka kaup. Þið eigið líka að hækka kaup.

Af sama toga er það spunnið, þegar þessi hv. þm. í blaði sínu storkar þeim verkalýðsleiðtogum, sem vinna að því að hafa óbreytt kaup fyrst um sinn og sjá, hvort tekst að stöðva verðlagið. Þessum verkalýðsleiðtogum storkar þessi hv. þm. í blaði sínu og manar þá, eggjar þá lögeggjan að láta ekki við svo búið standa. Svo kemur þessi hv. þm. hér á Alþingi og segir, að það séu aðrir menn, sem séu að grafa undan verðgildi peninganna í þessu landi, talar um nauðsyn þess að byggja hér upp fjársöfnun og annað eftir þessu, og hann var meira að segja eitthvað að tala um hræsni fyrir tveimur eða þremur dögum. Meira að segja þessi hv. þm. var að tala um hræsni. En þá hló einhver, og það var von.

Þessi hv. þm. var að segja hér ýmsar sögur, alla vega sögur, sem allar gengu þó í sömu átt og strákurinn við gluggann mundi hafa sagt, ef hann hefði verið hérna eða hefði verið í piltahóp og verið að afsaka sig og koma sök sinni á aðra. Hann var að segja t.d., að Eimskipafélaginu hefði verið álasað fyrir það að ganga ekki nógu fljótt að einhverju atriði í sambandi við verkfall, og annað þar fram eftir götunum. Sannleikurinn er sá, að þessi leikur er þannig leikinn, að ef vel á að fara frá sjónarmiði þessa hv. þm., sem hefur nú raunar eytt 10–20 árum af ævi sinni til þess að reyna að sannfæra menn um, að allar kauphækkanir væru til bölvunar, — þessi leikur er þannig leikinn, að það verður að fara saman hvort tveggja, löng verkföll til þess að styrkja þjóðarbúið og efla verðgildi peninganna og styðja framleiðsluna og svo miklar kauphækkanir. Og þegar hv. þm. af og til setur út fótinn til þess að framlengja verkfall og til þess að koma í veg fyrir t.d., að Eimskipafélagið fallist á atriði, sem allir vissu í byrjun deilunnar að hlaut að verða gengið að, ef hún átti nokkurn tíma að leysast, þá lætur hann jafnframt húskarla sína eggja sjómenn lögeggjan að gera engar sættir, nema það verði stórkostleg grunnkaupshækkun. Já, það er ekki lítið, sem þessi maður leggur á sig til þess að halda uppi verðgildi peninganna, og það er ekki furða, þó að þessi maður haldi svo hjartnæmar ræður hér á Alþingi um það, hvílikur voði af því stafaði, ef ríkisstj. kynni nú að hafa átt hlut að því að leysa einhverja deilu til þess að koma í veg fyrir það, að hún yrði endalaus, t.d. með skattfríðindum eða einhverju slíku, sem gat átt þátt í því að leysa málið.

Ein af þeim sögum, sem þessi hv. þm. var að segja hér, var um 7 aura. Hún var um það, að það ætti að greiða úr ríkissjóði 7 aura uppbætur á mjólk og þessir peningar hefðu verið látnir með því fororði, að það mætti ekki segja frá því, sagði hv. þm. Hvaðan hefur þessi hv. þm. þetta slúður, að það mætti ekki segja frá því ? Það sanna í þessu máli er, að það lá fyrir, að mjólkurverðið varð að hækka um 7 aura til þess að auka verðjöfnunina á mjólkinni. Þá vildi ríkisstj. koma í veg fyrir, að mjólkurverð til neytenda hækkaði, og ákvað að borga þessa 7 aura niður til viðbótar því, sem áður hafði verið greitt niður á mjólk. Þessi hv. þm. sagði, að þetta hefði verið gert þvert ofan í heimildir.. Þetta er alger misskilningur, ef ekki eitthvað verra, því að það eru heimildir í lögum til þess að greiða niður verðlag á vörum, og samkvæmt þeirri heimild er þessi greiðsla af hendi innt.

Eitthvað svipað þessu var um aðrar sögur þessa hv. þm., sem ég hirði ekki að rekja nánar.

Þá er það ofur lítið um málið sjálft, sem fyrir liggur, en þessi inngangur er nú raunar orðinn lengri hjá mér en ég ætlaðist til.

Þeir segja núna, sjálfstæðismenn, að þessi stóreignaskattur sé ákaflega hættulegur og ákaflega þungbær, með meiru. En 1950 var svona skattur góður, enda var sá munur á, að þá voru sjálfstæðismenn í stjórn. Ef þeir eru í stjórn, þá er svona skattur góður og sjálfsagður, en ef aðrir eru í stjórn, þá er hann þjóðhættulegur, leggur atvinnulífið í rústir, veldur jafnvel atvinnuleysi og vesöld, sagði hv. 1. þm. Reykv. Og þeir segja, að þetta komi sérlega hart niður á atvinnurekstrinum.

Íhugum nú þennan skatt annars vegar, að því er varðar atvinnureksturinn, t.d. fiskveiðar, siglingar og samgöngur, sem þeir hafa nú mest talað um í þessu sambandi, og svo hins vegar tillögur sjálfstæðismanna sjálfra 1950, áður en framsóknarmenn skemmdu þær á þann hátt, sem hv. 1. þm. Reykv. var að segja frá áðan og ég kem nú að síðar. Þeir ætluðust til þess þá, að fiskiskip og önnur skip væru metin með fullu vátryggingarverði, en nú er ætlazt til þess, að skip verði metin með vátryggingarverði að frádregnum 40%. Svo koma þessir menn, sem þá lögðu til, að skip væru metin með fullu verði, og eru að burðast við að deila á okkur fyrir að ætla að meta skip með vátryggingarverði að frádregnum 40%.

Ef við íhugum um flugvélar og samgöngutæki, sem þeir héldu hér um hjartnæmar ræður, þá verður sama upp á teningnum, þó að munurinn sé ekki alveg eins mikill. Þeir ætluðust til, að þessi tæki væru metin með fullu vátryggingarverði. Við ætlumst til, að þau séu metin með vátryggingarverði að frádregnum 25%.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að ég hefði verið að tala um það hér á dögunum, bæði í útvarp og við móttöku flugvéla, að það þyrfti að efla fjármagnsmyndun í landinu og sparnaðinn. Það er alveg rétt. Ég lagði áherzlu á þetta og hef gert það oftar, og það er mín skoðun, að þetta þurfi að gera. Þess vegna hef ég einnig ævinlega reynt að vinna að því, að í landinu gæti verið sem stöðugast verðlag og þar með skapazt grundvöllur að sparnaði. Og ég hef aldrei fallið fyrir þeirri freistingu enn þá, hvað sem á eftir að verða, þó að ég hafi verið í stjórnarandstöðu, að vinna eftir fyrir fram gerðri áætlun að því að rýra gildi peninganna, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerir nú. Ég þykist því alveg hafa ráð á því að tala um þessi mál eins og ég gerði við þessi tvö tækifæri.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þetta frv. væri alveg sér í lagi í ósamræmi við þetta, því að það mundi alveg sérstaklega spilla fyrir eðlilegum sparnaði. En ég vil benda hv. þm. á, að þetta frv. gerir ráð fyrir því, að innstæður í bönkum og sparisjóðum séu undanþegnar skattinum, en eins og við vitum, hefur einmitt á undanförnum árum alveg sérstaklega hallazt á hlut þeirra, sem slíkar eignir hafa átt, en hinir, sem hafa haft undir höndum fasteignir og aðrar slíkar eignir, hafa hagnazt stórkostlega á verðbólgunni, á sama tíma sem þeir, sem innstæðurnar áttu, hafa skaðazt.

Þetta frv. jafnar þess vegna metin í þessu efni í rétta átt. Og ef menn nú sjá, ef þetta frv. verður að lögum, að spariféð er einmitt undanþegið í þessu sambandi, þá verður það heldur hvöt en hið gagnstæða til þess, að menn beini sparnaði sínum í þá átt að eiga innstæður. Þetta ætla ég að hverjum ætti að geta verið ljóst, sem íhugar þetta málefnalega.

Þá er það annað atriði, sem hv. 1. þm. Reykv. gerði mikið úr, og það var, að það ætti ekki að leggja skattinn á félögin sjálf, heldur ætti að leggja skattinn á einstaklingana. Þetta taldi hv. 1. þm. Reykv. óhæfu og hafði um það sterk orð. Þetta kallaði hann pólitíska hlutdrægni og sagði, að þetta væri gert til þess eins, að Samband ísl. samvinnufélaga þyrfti ekki að borga stórfé í stóreignaskatt. Þetta gefur mér kærkomið tilefni til þess að rifja upp, hvernig þetta mál er vaxið, og það er alveg satt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að við framsóknarmenn urðum að standa fyrir því 1950, að einmitt þessi háttur var á hafður um álagningu stóreignaskattsins, að hann var ekki lagður á félögin sjálf, heldur einstaklingana.

En það er dálitið meira í málinu en það, sem hv. 1. þm. Reykv. dró hér fram. Því er nefnilega þannig varið, að á undanförnum áratugum hefur sá leikur verið leikinn af auðmönnum og gróðamönnum þessa lands „að skipta sér“, svo að segja, „niður í mörg félög“ — eiga í mörgum félögum og skipta atvinnurekstri sínum niður í félög til þess að komast þannig léttara frá því að greiða skatta. Og ef þessi stóreignaskattur væri núna lagður á eins og hv. 1. þm. Reykv. vill og eins og Sjálfstfl. vildi 1950, þá yrðu þessir menn, sem dreifa þannig eignum sínum í óteljandi sæg smárra hlutafélaga til þess að hlífa sér við skatti, — þá yrðu margir af þeim og þ. á m. margir af auðugustu mönnum landsins skattlausir. Það var þetta, sem Sjálfstfl. vildi 1950, og það er þetta, sem hv. 1. þm. Reykv. meinar, þegar hann er að hafa hér uppi baráttu fyrir því, að leggja eigi skattinn á allt öðruvísi en hér er gert ráð fyrir. En þessi skattur, eins og skatturinn 1950, er ekki lagður þannig á, að auðugustu menn landsins geti komið sér undan honum með því að eiga í nógu mörgum og smáum félögum, heldur er hann lagður þannig á, að allar eignir hvers einstaks manns, þó að þær séu í mörgum félögum, eru samandregnar í einn stað á hans nafn, og hann verður að greiða af því, sem hann raunverulega á. En það er þetta, sem hv. 1. þm. Reykv. þolir ekki. Það er þetta, sem hann kallar pólitíska hlutdrægni og öðrum álíka nöfnum. Og hann segir, að það hljóti allir sanngjarnir menn að sjá, að það sé engin hæfa að leggja skattinn á eins og hér sé gert ráð fyrir. Ef það væri farið að eins og hann vill og þessu komið þannig fyrir, að sumir af auðugustu mönnum landsins þyrftu ekkert að greiða, þeir ættu bara sínar 900 þúsund krónurnar í hverju félagi fyrir sig — skattfrjálsir, þá væri aftur á móti allt í lagi. Þannig er það, sem hv. 1. þm. Reykv. vill fara að.

Að lokum svo aðeins þetta: — Þeir hafa verið að tala um það hér, hv. sjálfstæðismenn og hv. 1. þm. Reykv., að það yrðu ferleg áhrifin af þessum skatti á efnahagslífið í heild. Hv. 1. þm. Reykv. talaði í því sambandi um samdrátt atvinnulífsins, atvinnuleysi og vesöld, eins og ég sagði áðan. Hér er gert ráð fyrir því, að skattur þessi gefi 80 millj. kr. tekjur og verði greiddur á 10 árum, og þá er þetta 8 millj. kr. skattlagning á hverju ári í 10 ár. Ég hef séð þá forráðamenn Sjálfstfl. standa frammi fyrir öðru eins og þessu án þess að blikna. Ég hef séð þá vera með í því að leggja á hundruð milljóna án þess að depla auga. En það var bara sá munur, að þær álögur voru ekki, a.m.k. ekki fyrst og fremst á þá auðmenn, sem greiða hæst í kosningasjóð sjálfstæðismanna. En það gæti verið, að það væri öðruvísi ástatt um þennan skatt.