24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

177. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég gerði aðeins það, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) skoraði á okkur að gera, — ég nefndi fyrir hann eitt dæmi. Mér virðist hann hafa tekið því verr en efni standa til, því að hann notaði orðin „tilbúnar ástæður“ um rök okkar engu að siður og vildi alls ekki hlusta á þetta eina dæmi, jafntalandi og það er.

Dæmið er ákaflega augljóst. Við vitum það öll, sem hér erum, að það eru engir menn í þessu landi, sem verða að koma eins oft utan af landinu til Reykjavíkur til þess að reyna að útvega lánsfé til ýmislegra nauðsynlegra framkvæmda sveitarfélaganna eins og einmitt þeir, sem standa í forsvari fyrir sveitarfélögin og þá sérstaklega bæjarstjórar og bæjarstjórnir kaupstaðanna. Við höfum séð þessa menn, þeir koma hingað nálega á hverjum degi einhverjir; þeir eru alltaf hér, þeir ganga banka úr banka, þeir eru alltaf að leita að lausnum á vandamálum, sem steðja að þessum bæjarfélögum.

Þrátt fyrir þetta er það staðreynd, töluleg staðreynd,að þrír höfuðbankar þjóðarinnar hafa látið sveitarfélögin fá 112.6 milljónir króna, en þriðja stærsta sveitarfélagið í landinu hefur ekki fengið nema 0.3 millj. af þessu. Það er því ekki hægt að taka það sem neina mótbáru, að Hafnfirðingar hafi ekki reynt að fá lán til sinna framkvæmda.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um þetta mál eins og Útvegsbankinn væri einn viðskiptabanki Hafnarfjarðarbæjar. Mér er ekki kunnugt um, hvort svo er. En mér er tjáð, að þó nokkur hluti af þessum litlu lánum, sem bærinn hefur, sé í öðrum banka, sem sagt í Búnaðarbankanum. Þetta mál snýr því ekki eingöngu að Útvegsbankanum. Hitt vita sjálfstæðismenn ákaflega vel, að mál eru ekki afgreidd þannig í bönkum, að bankastjórarnir rifist um þau og svo komi þeir inn á bankastjórafund eða bankaráðsfundi og rífist þar áfram og síðan sé atkvæðagreiðsla. Afgreiðsla mála gengur allt öðruvísi fyrir sig, og fjöldinn allur af lánbeiðnum, sem koma til bankanna, nær aldrei það langt, og þeir bankastjórar, sem eru í minni hl. og e.t.v. vildu greiða fyrir einhverjum svona aðilum, eru ekki að stofna til rifrildis eða atkvæðagreiðslna tilgangslaust á þeim fundum, þar sem endanleg ákvörðun er tekin. Þess vegna er það heldur engin mótbára að segja, að sjálfstæðismenn hafi ekki með afli atkvæða fellt lánbeiðnir frá Hafnfirðingum.

Ég spurði: Hvað hefur Reykjavíkurbær, höfuðvirki Sjálfstfl. í landinu, mikinn hluta af þessum 112.6 millj.? Mig langar til að fá að vita það. Hv. þm., sem stendur hér í andsvari og ég bað um að upplýsa þetta, er hvorki meira né minna en bæjarráðsmaður í höfuðstaðnum, situr einu sinni eða tvisvar í viku. (Gripið fram í.) Er það ekki rétt? Þá hefur hann verið þar til mjög skamms tíma; hann er þó í bæjarstjórn og hefur verið mjög nákominn allri bæjarstjórninni. Það getur vel verið, að hann viti ekki nákvæma tölu, en mig grunar samt, að hann mundi geta gert nokkra grein fyrir, hvar á tugum milljóna lán Reykjavíkurbæjar standa, en hann kærir sig ekki um að hætta sér út á þá braut að upplýsa það til samanburðar við þau bæjarfélög, sem sjálfstæðismenn stjórna ekki.

Ég ætla ekki að fara út í frekari umr. um þetta mál. Ég vil taka það fram, að mér fannst hv. þm. taka þetta nokkuð persónulega. Við erum ekki að halda þessari gagnrýni okkar á rekstri bankanna fram sem neinum persónulegum ofsóknum gegn einum eða neinum þeirra einstaklinga, sem hlut eiga að máll. Þetta er gagnrýni á því kerfi, sem þarna er. Við hörmum það eins og allir aðrir, að íslenzku þjóðinni hefur ekki auðnazt að halda stjórn bankanna utan við pólitík. En úr því að við einu sinni bárumst inn á þessa braut og höfum ekki getað komizt út af henni og haldið bönkunum fyrir ofan og utan pólitík, þá er það mjög mikið ógæfuspor, að ekki sé nokkurn veginn pólitískt jafnvægi í stjórn bankanna. Það var um árabil, en sjálfstæðismenn notuðu vaxandi völd sín ár eftir ár til þess að gera þessi met ójafnari. Með því hafa þeir stofnað til þess, sem nú er verið að gera. Það er þeirra eigin sök með því að skilja það ekki, að úr því að pólitísk áhrif eru eins mikil í bönkunum og þau hafa verið um langt árabil, þá er það heillavænlegast, að þar séu þessi áhrif í einhverju hlutfalli nálægt því, sem er í landinu öllu. Þannig hafa þeir sjálfir með því að sölsa til sín fleiri og fleiri stöður í stjórn bankanna stofnað til þess, sem verið er að gera. Þetta er augljóst mál, sem hver maður getur séð, og þetta eina dæmi, sem ég skv. beiðni 5. þm. Reykv. hef nefnt hér, er eins augljóst og nokkuð getur verið. Það sýnir, hvað hefur gerzt, og það er afleiðingin af því, sem sjálfstæðismenn hafa stofnað til sjálfir með því að grípa til sín yfirstjórn a.m.k. tveggja stærstu bankanna. Afleiðingin gat ekki orðið önnur en sú, sem hér blasir við.