08.03.1957
Efri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

116. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það voru fyrst og fremst orð hæstv. fjmrh., sem gáfu mér tilefni til þess að segja nokkur orð. Ég sé nú, að hæstv. ráðh. er genginn af fundi. Mér væri þökk á því, ef hæstv. forseti vildi hlutast til um það, að hann yrði viðstaddur.

Ég vil á meðan leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hæstv. forseta, að ég ætlaðist til þess af honum, að hann færi að senda málið til umsagnar stjórnar félagsheimilasjóðs. Ég beindi þeim tilmælum til hans, að hann hlutaðist til um það við þá hv. n., sem um málið hefur fjallað, að málið yrði samkv. venju sent til umsagnar þess aðila, sem það snertir svo mjög sem raun ber vitni. Ef hv. formaður menntmn. er því samþykkur, að málínu verði vísað aftur til n. nú við þessa 3. umr., þá mundi ég telja það mjög vel farið, að það yrði gert, og að hv. n. mundi þá senda stjórn félagsheimilasjóðs frv. og leita álits hennar um það.

Hv. þm. Barð. (SE) gerði sig sekan hér um mikinn misskilning. Hann fullyrðir, að það sé engin stjórn í félagsheimilasjóði, í lögunum standi, að ráðh. stjórni sjóðnum og ráðstafl. Ég veit, að hv. þm. Barð. hlýtur bókstaflega að vita það, að framkvæmdin á lögunum hefur frá upphafi verið sú, að það hefur verið sérstök stjórn, sem hefur haft með ráðstöfun sjóðsins að gera. Ég held jafnvel, að ráðh. hafi varla komið nálægt úthlutun á fé úr sjóðnum. Ég held, að stjórn íþróttasjóðsins ásamt fræðslumálastjóra hafi verið þar algerlega einráð. Það er e.t.v. ekki ótrúlegt, að ráðh. hafi endanlega lagt blessun sína yfir úthlutunina úr sjóðnum, en að hann hafi unnið að henni að formi til eða í reynd, það er hinn mesti misskilningur. Það er ekkert auðveldara en að finna þessa stjórn félagsheimilasjóðs. Hún er til húsa á skrifstofu fræðslumálastjóra. Þangað eru henni sendar umsóknir og önnur erindi, og þarf ekki um það að hafa fleiri orð, enda kom það líka í ljós hjá hv. þm., að hann vitnaði í umsögn frá þessari sömu stjórn. Hann vitnaði í umsögn um svipað frv. Það er rétt, að það hefur legið fyrir frv. um að gera verkalýðsfélög aðila að þessum sjóði. En það hefur aldrei legið fyrir frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, um að tveimur aðilum skuli bætt þar við, sem sagt bæði búnaðarfélögum og verkalýðsfélögum. Þess vegna er fyllsta ástæða til þess að leita nýrrar umsagnar stjórnar félagsheimilasjóðs, og ég vil vænta þess, að þetta mál fari ekki út úr hv. þd., án þess að þess álits verði leitað.

Ég sé nú, að ég er búinn að missa af hæstv. fjmrh. að nýju, en það, sem ég vildi segja af tilefni hans orða, er þetta: Það er misskilningur, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að með brtt. okkar sé lagt til, að ráðstafað skuli einstökum tekjuliðum fjárlaga. Ég benti á það í frumræðu minni hér, að það væri ekki gert ráð fyrir því, að hreyft skuli við þeirri áætlunarupphæð um hagnað af rekstri Áfengisverzlunar ríkisins, sem stendur í fjárlögum. Þvert á móti er lagt til, að það, sem fram yfir verður áætlunarupphæðina, þó ekki yfir 1.5 millj. kr., verði látið renna i félagsheimilasjóð til þess að mæta þeim auknu byrðum, sem á hann eru lagðar með þessu frv., og til þess að efla starfsemi hans að öðru leyti.

Þegar hæstv. fjmrh. er með skæting til okkar sjálfstæðismanna í þessu sambandi, vegna þess að við viljum efla þennan sjóð með þessum hætti, sem hér er lagt til, þá mætti nú beina því til hæstv. ráðh., að hann ætti að halda sér sjálfur betur við áætlun fjárlaga en raun ber vitni á undanförnum árum, áður en hann fer að ásaka núverandi stjórnarandstöðu fyrir gálauslegan tillöguflutning og uppástungur um fjárveitingar og ráðstöfun á fé og tekjum ríkissjóðsins. Ég held, að það sé nokkuð augljós staðreynd, að á undanförnum árum, þegar þessi hæstv. ráðh. hefur stýrt fjármálum ríkissjóðs, hafa orðið stórkostlegar umframgreiðslur frá því, sem gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum. Ég veit, að í mörgum tilfellum hafa slíkar umframgreiðslur verið nauðsynlegar. Í öðrum tilfellum hafa þær alls ekki verið nauðsynlegar, og fjármálaráðherra hefur hagað greiðslum úr ríkissjóði rétt eins og honum sýnist án tillits til þess, hvað fjárlög hafa sagt. Þetta vita allir hv. þm. Þess vegna situr það ákaflega illa á hæstv. fjmrh. að vera að setja skæting í okkur sjálfstæðismenn fyrir það að flytja till. um stuðning við eitt mesta nauðsynjamál strjálbýlisins með þeim hætti, sem till. okkar ber með sér, að ekki er lagt til, að hreyft verði við neinum tekjulið fjárlaga, aðeins gert ráð fyrir því, að hluta hagnaðar af einni ríkisstofnun umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum, verði varið í þessu skyni.

Í öðru lagi má svo benda á það, að reynslan sýnir og sannar, að á undanförnum árum hafa tekjur ríkisins af áfengisverzluninni alltaf farið stórkostlega fram úr áætlun fjárlaga. Því fer þess vegna víðs fjarri, að hér sé um nokkurt ábyrgðarleysi eða yfirboð að ræða af hálfu flm. þessarar brtt.

Ég verð svo að segja það, að ég hafði ekki búizt við því af hv. framsóknarmönnum, að ég mundi þurfa að standa í stórkostlegri baráttu við þá um félagsheimilasjóð. Þeir voru á sínum tíma eindregnir stuðningsmenn þessarar stofnunar og menn úr þeirra hópi meðal forustumanna fyrir því, að félagsheimilasjóður var stofnaður. Það virðist nú síga á ógæfuhliðina fyrir þessum ágæta flokki. Ég veit ekki, hvað veldur. Kannske sá félagsskapur, sem hann er í um þessar mundir?

Ég vil svo að lokum endurtaka áskorun mína til hv. þdm. um að samþ. þessa brtt. Ég veit, að hún á raunverulegt meirihlutafylgi hér í hv. þd. Það kom greinilega í ljós af ummælum hv. þm. S-Þ. í gær, þegar hann lýsti því yfir, að hann væri mótfallinn þessu máli, en hann greiddi atkvæði með því einungis af „hollustu við þá ríkisstjórn, sem situr“ og flokkur hans styður. Ég segi: það er ekki ánægjulegt fyrir hæstv. menntmrh. að knýja þetta mál fram í gegnum þingið með slíkar yfirlýsingar á bakinu.