29.05.1957
Efri deild: 116. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

116. mál, félagsheimili

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. segir, að ég sé mikill áhugamaður fyrir félagsheimilum. Þetta er rétt, og ég skal segja hæstv. ráðh., hvers vegna það er svo. Ég þekki, hvernig ástandið er í sveitum landsins. Ég þekki það, að varla er mögulegt að halda uppi nokkru félagsstarfi vegna skorts á húsnæði. Ef það er meiningin, að sveitirnar eigi að tæmast, unga fólkið fara brott úr sveitunum í fjölbýlið, þá er hægt að flytja svona mál. En ef reyna á að halda fólkinu í sveitunum, verður að búa í haginn fyrir það, þannig að það geti stundað heilbrigt félagsstarf. Félagsheimilasjóður var upphaflega stofnaður með það fyrir augum fyrst og fremst að koma upp félagsheimilum í sveitunum.