26.11.1956
Efri deild: 18. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

62. mál, embættisbústaður héraðsdýralækna

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta litla frv. kom til landbn. frá ríkisstj. Það er samið af form. Dýralæknafélags Íslands, Jóni Pálssyni á Selfossi, og yfirdýralækni Páli Pálssyni á Keldum.

Til þess að átta sig á þessu frv. eða réttara sagt þörf þessa frv. er nauðsynlegt að athuga ofur lítið, hvernig dýralæknismálin standa í landi hér, og það vildi ég gjarnan gera í þessari grg., þegar frv. nú er lagt fyrir deildina. Ég skal ekkert fara að rekja það aftur í tímann, hvernig hér var fyrst einn dýralæknir, og er ekki nema hálf öld síðan, — sem átti að sinna öllu landinu, hvernig þeir síðan urðu tveir, síðan 4 og síðan 7 og síðan 12. Nú sem stendur eru til 12 dýralæknisumdæmi í landinu, og mörg af þeim eru dýralæknislaus.

Þessi þróun þarf ekki mikilla útskýringa við. Hún stafar bæði af því, að þegar menn fóru að gera meiri kröfur, bæði til sjálfs sín og til búfjárins, var óumflýjanlegt að fjölga dýralæknunum, því að með auknu álagi á starfsgetu búfjárins jukust sjúkdómar. Hún stafaði líka af því, að það var dembt á dýralæknana hluta af eftirliti með matvælum, þegar kaupstöðunum fjölgaði og menn fóru að gera meiri kröfur en áður til eins og annars, bæði mjólkur, kets o.s.frv., sem þeir inna af höndum. Nú sem stendur eiga dýralæknisembættin að vera tólf. Embættin eru tólf, en nokkur af þeim eru ekki með dýralæknum í, og sem stendur er þetta svona:

Gullbringu- og Kjósarsýsla, sem á að vera eitt dýralæknisumdæmi ásamt Reykjavík, Hafnarfirði og Keflavík. Þar er dýralæknir, og þetta frv., sem nú liggur fyrir þinginu um byggingu dýralæknabústaða, snertir þann dýralækni ekki í augnablikinu. Hann er í húsnæði, sem hann og hans samerfingjar eiga og hann þess vegna á hlut í. Þar að auki hef ég nú alltaf litið svo á og lít svo á enn, að þó að það sé nauðsynlegt að hafa embættisbústaði, sem ríkið á, í dreifbýlinu og þar, sem ekki er hægt að fá og kaupa og selja húseignir svona nærri því hvenær sem er, þá sé engin þörf á því í kaupstöðunum, þar sem embættismaður getur alltaf fengið sér húsnæði, þegar hann þarf, hvort sem það er keypt eða leigt, og selt aftur, og ég álít meira að segja, að það sé heldur til bölvunar. Við sjáum það gagnvart mönnunum, sem í þessu húsnæði búa, að af því að þeir hafa húsnæði frá ríkinu, þá hugsa þeir ekki um að afla sér húsnæðis, svo að þeirra aðstandendur standa uppi húsnæðislausir og verða sumir að koma á ríkið með húsnæði að öllu leyti, eins og dæmi eru til fleiri hér í Rvík, einmitt þegar þeir eru í þéttbýlinu. Þess vegna er gert ráð fyrir því í þessum lögum, sem ekki er í öðrum um íbúðir embættismanna, að ráðh. úrskurðar, hvað sé byggt á hverjum tíma og hver stærð sé á því. Það er skylda alls staðar annars staðar að byggja yfir þá alla. Það er búið að byggja yfir prestana hér í Reykjavík, þó að húsnæðið sé legíó. Það er búið að byggja o.s.frv. hér og þar annars staðar. En það er ekki beint ætlazt til þess hér, því að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ráðh. byggi þar, sem þörfin er mest, og það sé ekki byggt, nema eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum.

Annað umdæmið er í Borgarnesi, það er Mýra- og Borgarfjarðarsýsla og Snæfellsnessýslan og Hnappadalssýslan að Skógarstrandahreppnum, hann tilheyrir Dölunum. Í þessu umdæmi er núna dýralæknir, sem situr í Borgarnesi, og hann átti húsið, sem hann bjó í, en fyrir nokkrum árum keypti ríkið það. Þar á þess vegna ríkið dýralæknisbústað. Ég skal ekkert segja um, hvernig það hefir borið að, að ríkið keypti það, mér er það ekki kunnugt, en það er fakta. Hins vegar er það lítið hús, mjög lítið hús, svo lítið hús, að hann hefur ekki haft aðstöðu til að hafa þar neitt verulegt apótek og enga biðstofu fyrir menn, sem eru að sækja hann, heldur verða þeir bara að koma beint inn til hans, og enga aðstöðu til að geta sótthreinsað þar neitt verulega, svo að það er eiginlega algerlega ófullnægjandi. En engu að síður er það nú keypt og er dýralæknisbústaður, sem ríkið á.

Í Dalaumdæminu á þriðji dýralæknirinn að vera. Þar er ekkert húsnæði. Og þegar svo stendur á, fellur það undir úrskurð ráðherrans að úrskurða, hvar dýralæknirinn skuli búa og þá húsið vera. Eftir því sem ég veit bezt, er hvergi í Dölunum um það að ræða, að hús gangi nú kaupum og sölum, og litlar líkur fyrir því, að dýralæknir, sem kæmi þangað, gæti yfirleitt fengið inni, nema þá á einhverju bændaheimill einhvers staðar í sýslunni, svo að það er alveg aðkallandi, ef dýralæknir kemur þangað, að fá þar dýralæknisbústað.

Ísafjarðarumdæmið nær yfir Vestur-Barðastrandarsýslu, Ísafjarðarsýslur og Ísafjarðarkaupstað og að Árneshreppnum í Strandasýslunni. Þar var einu sinni dýralæknir. Hann virtist hafa þar óskaplega lítið að gera, eins og þá stóð. Tímarnir hafa nú breytzt síðan. Vafalaust er hægt að fá þarna inni fyrir dýralækni, sem þangað kæmi, en þetta hérað er dýralæknislaust núna, alveg eins og Dalasýsluhéraðið.

Í Húnavatnssýslu er nýkominn dýralæknir, kom í sumar. Það er 5. umdæmið. Hann hefur fengið leigt núna í bili hjá Blönduóshrepp, sem hefur fengið mann á Blönduósi til að rýma úr tveimur stofum, og hann hefur þar tvær stofur til umráða, sem vitanlega er gersamlega ófullnægjandi, þó að hann væri einhleypur maður, með sitt skrifstofuhald og sitt apótek o.s.frv. En hann er þar núna sem sagt í tveimur herbergjum.

Í Skagafjarðarumdæminu er enginn dýralæknir, en þar væri vafalaust hægt að fá inni fyrir dýralækni, og það skyldi maður reyndar ætla að ætti að vera hægt á Blönduósi líka.

Í Eyjafjarðarsýsluumdæminu er dýralæknir, sem er norskur og hefur ekki íslenzkan ríkisborgararétt og vildi fara í fyrra, en fyrir atbeina landbrh., sem þá var, gerði hann það ekki. Þangað vantar þess vegna í raun og veru dýralækni, en náttúrlega er þar alltaf hægt að fá dýralæknisbústað.

Þingeyjarsýsluumdæmið er 8. umdæmið. Þar er heldur enginn dýralæknir og enginn bústaður þar af leiðandi. Þar er vafalaust líka hægt að fá bústað á Húsavík, sem vafalaust verður sá staðurinn, sem hann verður látinn sitja á. Annars ákveður ráðherrann það í hverju einstöku tilfelli, um leið og dýralæknir kemur í umdæmið. hvar hann sezt að.

Á Austurlandi er einn dýralæknir fyrir báðar Múlasýslurnar, Seyðisfjörð, Neskaupstað og Austur-Skaftafellssýslu. Hann situr á Egilsstöðum, sá dýralæknir, og til þess húss var veitt sérstök fjárveiting á Alþingi, rétt eftir að hann kom í héraðið. Þá var deila um það, hvort hann ætti heldur að sitja inni á fjörðum eða uppi á Héraði, og endaði með því, að ráðherrann, sem þá var, úrskurðaði, að hann skyldi sitja á Héraði, og fór fram á það við Alþingi að veita fé til þess, sem var gert. Þar á þess vegna ríkið annan dýralæknisbústað. Það á þess vegna nú sem stendur tvo dýralæknisbústaði.

Rangárvallasýsludýralæknirinn, sem situr á Hellu, mun sjálfur eiga það hús, sem hann situr í, hafi hann fengið það einhvern veginn með aðstoð Kaupfélagsins Þórs. Það kann að vera, að Þór eigi húsið, en ég held, að hann hafi fengið það keypt, samt sem áður. Þar er þess vegna ekki bein vöntun sem stendur á dýralæknisbústað, enda er þar líka dýralæknir.

Á Selfossi situr form. Dýralæknafélagsins, Jón Pálsson, og hefur neðri hlutann af Árnessýslunni, og hann á húsið, sem hann býr í, en í efri hlutanum, Laugarásumdæminu, er enginn dýralæknir og enginn dýralæknisbústaður.

Svona er ástandið núna sem stendur, að það vantar dýralækna í réttan helminginn af þessum tólf umdæmum, sem ætlazt er til að dýralæknir sé í. Hins vegar eru menn við dýralæknisnám nokkuð margir. Þeim hefur gengið það misjafnlega, en eru nú þannig á vegi staddir, að ef ekkert kemur fyrir þá, eiga fimm af þeim að útskrifast á næsta ári, og þá náttúrlega lenda þeir um leið út í þessi héruð, og þá hafa þeir hvergi höfði sinu að halla í fimm héruðunum, þar sem ekki er hægt að fá leigt húsnæði í kaupstöðum eða keypt hús, þar sem þeir setjast að. Þess vegna er málið aðkallandi.

Í frv., eins og það var sent til ríkisstj., var ákvæði um, að það skyldu byggðir einn til tveir á ári, eftir því sem fé væri veitt til í fjárlögum. Þetta hefur ríkisstj. fellt úr frv., eins og það var sent okkur. Það hyggist náttúrlega á því, að hún hefur ekki viljað hafa það ákveðið, enda er náttúrlega ekki þörf á því að gera slíkt nema rétt fyrst, meðan er verið að koma húsunum upp yfir þá og koma þeim í umdæmin. Að öðru leyti held ég, að frv. sé alveg eins og það var samið af form. Dýralæknafélagsins og yfirdýralækninum og sent ríkisstj. Í grg fyrir frv., sem fylgir og fylgdi því til ríkisstj., er þetta tekið fram, ástæðurnar fyrir því, að þeir flytja það.

Landbn. í Ed. hélt einn fund og leit yfir frv. Það voru ekki allir á þeim fundi, svo að ég held, að ég verði að gera ráð fyrir því, herra forseti, að landbn. haldi aftur fund um það og að það fari ekki til 2. umr. fyrr en ég tilkynni, að n. hafi um það fjallað. Annars höfum við nm. við lauslega athugun á frv. ekkert við það að athuga í því formi, sem það er, og ég tel frá sjálfum mér séð, að það sé alveg nauðsynlegt að samþ. það, — og meira, það sé nauðsynlegt líka á þessu þingi að veita eitthvert fé í einn eða tvo dýralæknisbústaði handa mönnunum, sem koma á næsta ári, því að á næsta ári koma menn í flest héruðin, ef ekkert kemur fyrir þá, sem eiga eftir tímalengd og aðstöðu að öðru leyti að taka próf núna í vor sem kemur og vetur. Einn átti reyndar að gera það nú um áramótin, en ég heyri nú sagt, að hann ætli að fresta því fram á vorið, svo að það getur alltaf komið fyrir, að einhverjir heltist úr lestinni. En alltaf koma einhverjir af þeim, svo að það koma menn í einhver af þessum nýju héruðum, hvar sem þeir þá kunna að setjast að.

Ég legg þess vegna til, að frv. þessu sé vísað til 2. umr., og þar sem það er flutt af nefnd, þarf ekki að vísa því til nefndar. N. mun athuga það og láta forseta vita, þegar hún er búin að athuga það öllsömun, því að nm. voru ekki allir á fundi, þegar tekin var ákvörðun um að flytja það.