21.02.1957
Efri deild: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér var nú ekki alveg ljóst af ræðu hv. þm. Barð. (SE), hvað þetta kirkjuþing á að gera. Mér skildist helzt, að það ætti að vera til þess að binda söfnuðina eitthvað traustari böndum við prestana, það ætti að vera aðaltilgangur þess. Nú vil ég spyrja: Hugsar hann sér, að þetta kirkjuþing geti komið því til leiðar, að þau ca. 80% af prestum landsins, sem hættir eru að húsvitja, fari að gera það? (Gripið fram í.) Heldur hann það? Heldur hann, að það komi því til leiðar, að þeir ca. 14 prestar, sem hafa innan við 10 messur á ári, messi nú oftar, svo að söfnuðurinn geti hlustað á? Heldur hann það? Hvernig heldur hann að þetta kirkjuþing eigi að ná þessum tilgangi? Heldur hann, að kirkjuþingið eigi að hafa áhrif á það, að þær skoðanir renni eitthvað meira saman, sem ég hef nýlega orðið var við. Annars vegar var ég hjá presti og talaði við hann að morgni dags og talaði við hann út af því, að hann var að spyrja mig eftir vissu máli, sem hann hafði áhuga fyrir og snerti mann í prestsstöðu, sem voru deildar meiningar um á vissan hátt. Ég lét í ljós þá skoðun mína, að ég teldi — maður er nú hálfbrokkgengur og vissi ekki, hvort væri svo mikilsvert, að því lyktaði eins sérstaklega vel og hann vill vera láta. Þá sagði hann þetta: Það er enginn prestur til betri á landinu. Hann hefur syndgað svo oft og svo mikið og þekkir allra manna bezt, hve mikils virði það er að fá fyrirgefningu, og hann getur því betur en nokkur prestur, sem ég þekki, prédikað fyrir mönnum. Það var háttsettur maður hér í Reykjavík, sem sagði þessi orð. Eftir hálfan mánuð var ég staddur hjá prófasti úti í sýslu landsins og hlustaði á prédikun hjá honum. Hann sagði: Maður réttlætist aldrei af trúnni. Hann verður að vinna sín verk sómasamlega og breyta rétt. — Hann var alveg á gagnstæðri skoðun við hinn, sem hélt, að ef maður bara syndgaði og fengi fyrirgefningu, þá væri allt í lagi; bara að fá fyrirgefninguna, þá væri allt í lagi. Ætla þeir að vera á kirkjuþinginu til að bræða saman í eitt mismunandi skoðun um þetta? Á það að gerast þar? Á það að fá þann prest, sem liðlega sjötugur hefur sagt við mig og var talinn einn helzti prestur þjóðkirkjunnar alla sína ævi : Ég hef alla mína ævi verið að reyna að vona, að það væri til annað líf. Nú heyri ég þig, ungan mann, telja, að þú vitir, að það sé. Bara ég hefði nú getað sagt hið sama. Getur þú nú ekki sagt eitthvað við míg, sem gefur mér trúna og lætur þessa von verða að vissu hjá mér. — Þá var hann rétt um áttrætt og búinn að vera prestur þjóðkirkjunnar alla sína starfsævi. Það er tiltölulega stutt síðan einn prestur, sem er alveg nýbættur prestskap, sagði við mig, þegar það dæmdist á mig að lesa bænina af því að meðhjálparann vantaði, og ég sagðist ekki vilja gera það. Ég sagði, að ég gæti ekki lesið hana með nokkurri sannfæringu, og vildi því ekki gera það. Þá sagði hann: Guð almáttugur, heldurðu, að ég verði ekki á hverjum einasta sunnudegi að segja ótal hluti, sem ég ekki meina? — Á kirkjuþingið að styrkja hann í trúnni, svo að hann segi ekki svona hluti, segi ekki nema það, sem hann meinar, þegar hann kemur í stólinn næst? Yfirleitt, hvað á kirkjuþingið að gera?

Þjóðkirkjan er samansafn af svo gersamlega ólíkum skoðunum, að sumir, sem í henni eru, segja, að aðrir, sem líka eru í henni, fari beina leið til helvítis, þegar þeir deyja, þegar aðrir eru alveg á öfugri skoðun. Á kirkjuþingið að reyna að sameina þessar skoðanir og búa til einhverja allsherjar trúarjátningu, svo að þjóðkirkjan fari að verða svolítið einhuga í skoðunum? Á það að gera það? Eða á það að reyna að komast út úr öllum orthodoxa og reyna að finna andann í trúnni og reyna að hafa áhrif til þess að láta mennina alla breyta réttara og vera sjálfum sér samkvæmari og ekki snúa öllu út í fals, eins og er hjá prestunum oft, meira að segja af stólnum? Hvað á það yfirleitt að gera? Læknaþing hefur miklu meira að gera fyrir almenning. Ef við lítum á, hvað gert er á þessum stóru kirkjuþingum og læknaþingum úti um heiminn, hvað sést þá? Jú, það kemur einhver lærður maður þangað og hefur heyrt einhvern fyrirlestur á einhverju prestaþingi um, hvernig eigi að skilja einhverja ákveðna ritningu í Gamla testamentinu, sem 99.9% af allri þjóðinni er alveg sama um hvernig er skilin. En það kemur aftur einhver læknir og telur upp nýtt meðal, sem sé alveg reynt og geti orðið til þess að bjarga svo og svo mörgum mannslífum eða linað þjáningar svo og svo margra manna, sem þjást af einhverjum sjúkdómi. Hvort er meira virði? Hvort er meira virði fyrir okkur að fá saman kirkjuþing, þar sem einhver maður, doktor, kemur og heldur fyrirlestur um það, hvernig á að skilja einhverja ákveðna biblíugrein, eða læknaþing, þar sem læknarnir segja hver öðrum frá því, hvað þeim hefur reynzt bezt við þennan og þennan sjúkdóm í sínum praksís? Hvort hefur meiri þýðingu fyrir þjóðina að kosta, hvort þessara þinga, svo að ég nefni eitt dæmi? Og yfirleitt er alveg sama, hvaða stéttir ég tek aðrar. Allar saman geta þær lagt fram meira til hagsbóta fyrir almenning beint heldur en kirkjuþingið gæti gert, því þó að það kæmi einhver andans maður á kirkjuþingið, sem gæti sameinað þessa menn, sem þar væru, svo að þeir fyrir það yrðu svo vaknir af eldlegum áhuga, að þegar þeir kæmu heim hlypu þeir upp á kassa eins og Siggi og prédikuðu og allir það sama, þá er ég ekkert viss um, hvort þjóðin kærði sig um að fá það allt eins.

En þetta er það, sem á að gera: Það á ekki að samþykkja neitt kirkjuþing, heldur að taka þjóðkirkjuna frá ríkinu og lofa hverjum að hafa sína kirkju og þann prest, sem hann vill. Það er það, sem á að gera. Og að því rekur mjög bráðlega.