16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

123. mál, hlutafélög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal aðeins í örfáum orðum gera grein fyrir mínu atkvæði og minni afstöðu til málsins.

Það er þá fyrst og fremst, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er að efni til það eitt, að ekki skuli vera takmörkun á atkvæðisrétti í hlutafélögum, eins og nú er, þar sem enginn einn aðili má eftir lögum fara með meira en 1/5 af atkvæðum, nema það sé eftir öðrum lögum en almennu hlutafélagalögunum og þá tekið fram í sjálfum lögunum, eins og með áburðarverksmiðjuna, Útvegsbankann o.fl. Þetta ákvæði um takmörkun á atkvæðisrétti, sem hefur verið í lögum, hefur verið tekið orðrétt upp í stofnsamþykktir ákaflega margra hlutafélaga, þar sem eru hluthafar ýmsir einstaklingar og stundum félagasamtök og svo annars vegar einn stór aðill og þá oft bæjarfélag, sem í hlut á. Engu þessara ákvæða verður breytt með þessum lögum. Þó að þetta frv. verði samþykkt hér á þinginu, sem ég geri nú ráð fyrir að verði, þá breytir það ekki því, að þessum félögum, sem hafa sínar samþykktir áður gerðar, verður ekki breytt, nema samþykktum félaganna verði breytt. Þess vegna geta þau ekki verkað á félögin, sem núna eru til, yfirleitt. Það er númer eitt í mínum augum.

Annað er það, að ég óttast mjög mikið, að þegar á að stofna slíkt félag til framkvæmda, t.d. stofna eitthvert fyrirtæki í einhverjum bæ eða einhverju þorpi, þar sem þarf atvinnuaukningar við, og menn vilja fá hana í gegnum félagsskap, eins og t.d. bæjarútgerðin á Akureyri á sínum tíma eða eitthvað svipað, þá verði erfitt að ná inn fé frá einstaka fjáraflamönnum, peningamönnum í viðkomandi stað, ef þeir vita fyrir fram, að bæjarfélagið, sem hefur meiri hlutann, á öllu að ráða. Ég óttast, að slík félög verði yfirleitt ekki stofnuð, eftir að þessi breyting er gerð. En hins vegar er ekki vafi á því, að sums staðar á landinu er þörf á hlutafélögum í þessu skyni. Þetta er önnur ástæðan til þess, að ég get ekki verið með þessum lagabreytingum.

Og svo er sú þriðja sú, að hér var í hittiðfyrra lagt fram frv. að endurskoðun á hlutafélagalögunum, sem samkomulag var um að láta daga uppi í því trausti, að það yrði betur athugað og þar á meðal af stjórninni. Og núverandi forsrh. var í þeirri nefnd, sem að vísu gerði ekki till. um þetta, en var sammála um að láta gera þetta. Ég er þess vegna ekki í neinum vafa um það, að í framhaldi af hans skoðun þá, sem var alveg ákveðin þessi, muni þetta frv. mjög fljótlega koma, líklega strax á næsta ári, í þeirri mynd, sem hann þá telur rétt að hafa það, og nokkuð var rætt um í allshn. þá, hverju þyrfti að breyta. Þess vegna held ég, að það geti ekki liðið nema örstutt, þangað til aftur komi sá stóri bálkur, sem lá fyrir þingi, kannske í eitthvað svolítið breyttri mynd, og þá sé eðlilegt að taka þetta upp, ef meiri hlutinn við athugun á því telur það rétt.

Það er þetta þrennt, sem gerir það að verkum, að ég tel þetta frv. ekki tímabært, eins og nú standa sakir, og ekki koma að því gagni, sem flm. ætlast til, því að það getur ekki breytt lögum neins hlutafélags, sem til er, nema félagsfundir samþykki að breyta stofnskrám félaganna.