08.05.1957
Sameinað þing: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2464)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Þessi samþykkt hefur legið fyrir fyrrv. félmrh. Framsóknarflokksins, en hann hefur af einhverjum ástæðum ekki talið rétt að svo komnu máli að leggja til, að þessi samþykkt nái fullgildingu Alþingis. Það verður heldur ekki sagt, að þeir aðilar hafi verið mjög sammála í þessu máli, sem um það fjölluðu í Genf 1951. Þar var lögð fram till., eins og segir í grg., í þá átt að fresta lokaafgreiðslu málsins, en sú till. var felld með 103 atkv. gegn 68. Og við lokaatkvæðagreiðslu var samþykktin samþykkt af 105 fulltrúum, en á móti henni voru 33 og 40 sátu hjá. Þetta sýnir m.a., að mikill hluti þeirra, sem sæti eiga í þessum samtökum, telur rétt að rasa ekki að því að fullgilda till. Og eins og hv. frsm. tók fram, hefur ekkert Norðurlandanna enn þá fullgilt till., og till. er til athugunar í samnorrænni nefnd.

Ástæðan til þess, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, var ekki út af fyrir sig sú, að ég væri á móti því, að konur fengju sama kaup fyrir jafnverðmæt störf. Það færist meira og meira í þá átt hér á landi. Það eru fjölmargar konur, sem fá sömu laun og karlar fyrir svipuð störf. En ég taldi, að það væri ekki rétt, meðan þetta mál er til athugunar í samnorrænni nefnd, sem öll Norðurlöndin eiga aðild að, að það sé tekið til fullgildingar á Alþingi fyrr en álit þeirrar nefndar liggur fyrir.