04.02.1957
Sameinað þing: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (2586)

94. mál, þingrof og nýjar kosningar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í till. þeirri til þál., sem borin er fram af hendi Sjálfstfl., eru sakir bornar á ríkisstj., að hún hafi þverbrotið þau, fyrirheit, sem stuðningsflokkar hennar gáfu fyrir kosningar. Segist Sjálfstfl. því leggja til, að kosningar verði næsta vor. Nefnd eru þessu til rökstuðnings þau dæmi, að heitið hafi verið að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin, til þess að herinn færi héðan svo fljótt sem auðið væri, og enn fremur hafi verið heitið að tryggja varanlega lausn efnahagsmálanna eftir nýjum leiðum.

Þar sem þessi atriði í grg. eru eina tilraunin, sem gerð er til þess að rökstyðja till., skulu þau tekin til meðferðar.

Þáltill. sú, sem Alþ. samþ. 28. marz, var í tveim köflum. Fyrri kaflinn var um það, að Íslendingar vilji hafa góða sambúð við allar þjóðir — og svo orðrétt: „að Íslendingar eigi samstöðu í öryggismálum við nágrannaþjóðir sínar, m.a. með samstarfi í Atlantshafsbandalaginu“. Í seinni hluta ályktunarinnar segir einnig orðrétt: „Með hliðsjón af breyttum viðhorfum, síðan varnarsamningurinn frá 1951 var gerður, og með tilliti til yfirlýsingar um, að eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum, verði nú þegar hafin endurskoðun á þeirri skipan, sem tekin var upp með það fyrir augum, að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald varnarmannvirkja, þó ekki hernaðarstörf, og að varnarliðið hverfi úr landi. Fáist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málinu fylgt eftir með uppsögn samkv. 7. gr. samningsins.“

Ég vek athygli á því, að ályktunin er þegar í byrjun rökstudd með því, að viðhorfin séu breytt síðan 1951 og að fyrir liggi yfirlýsingar um, að eigi skuli vera erlendur her í landinu á friðartímum. Með þessari till. greiddu allir þm. Framsfl. og Alþfl. atkv., þm. Sósfl. og Þjóðvfl. einnig, en þó allir með þeim fyrirvara, að þeir væru andvígir fyrri hluta till., þ.e. samstöðu Íslands um öryggismál við nágrannaþjóðir sínar, m.a. með samstarfi í Atlantshafsbandalaginu. Sjálfstæðismenn greiddu, eins og menn muna, atkv. gegn till. í heild.

Af þessu er ljóst, að þrjár stefnur komu fram i varnarmálunum á Alþ. við atkvgr. 28. marz 1956. Ég lýsti þessum stefnum í útvarpsræðu, er ég flutti rétt fyrir kosningarnar, þannig, að stefna Þjóðvfl. og Sósfl. væri sú að hafa hér engar varnir og láta það ráðast, hver tæki landið fyrstur, ef til styrjaldar kæmi, annað, að stefna Sjálfstfl. væri sú að hafa hér varanlega hersetu án tillits til friðarhorfa, en af annarlegum ástæðum, og þriðja, að Framsfl. og Alþfl. vildu hins vegar standa við yfirlýsinguna, er við Íslendingar gáfum 1949, er við gengum í Atlantshafsbandalagið, að leyfa varnarher dvöl í landinu á styrjaldartímum eða ef styrjaldarhætta væri mikil, eins og við gerðum 1951, en ekki á friðartímum.

Fyrir kosningarnar gerði tímaritið Helgafell fyrirspurnir til formanna stjórnmálaflokkanna um stefnu þeirra f varnarmálum. Spurt var m.a., hvar draga ætti mörkin í skuldbindingum okkar Íslendinga í þeim málum við aðrar þjóðir. Svar mitt var: „Mörkin eru þessi: Við stöndum með nábúum okkar, og við munum leyfa þeim að hafa hér her í styrjöld eða vegna yfirvofandi árásar, en ekki á friðartímum.“ Þetta var í samræmi við þær yfirlýsingar, sem gefnar voru, er við gerðumst þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu. Stefnan var þannig skýrt mörkuð fyrir kosningarnar.

Hinn 28. marz s.l. voru friðarhorfur betri en verið höfðu um langt skeið og ástandið því gerbreytt frá því, sem var 1951. Gagnkvæmar vináttuheimsóknir voru hafnar milli austurs og vesturs. Forseti Bandaríkjanna háði kosningabaráttu sína undir kjörorðinu: Friður og farsæld. Forustumenn í stjórnmálum trúðu almennt á góðar friðarhorfur. Okkur Íslendingum var því bæði rétt og skylt samkv. þeirri stefnu í varnarmálunum, sem við höfðum lýst yfir, að gera ályktunina 28. marz og hefja samninga, til þess að herinn gæti farið eftir tilsettan 18 mánaða frest samkv. samningnum 1951. Atkvgr. Sjálfstfl. gegn till. er því auðsæ sönnun þess, að Sjálfstfl. ætlar sér ekki að standa við þá stefnu frá 1949, sem margoft hefur verið rakin á undanförnum árum, enda lýsti hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, yfir því í umr. á Alþ. fyrr í vetur, að yfirvofandi ófriðarhætta væri stöðugt til staðar í heiminum, meðan eldurinn logaði undir niðri, eins og hv. þm. G-K., Ólafur Thors, orðaði það líka í sinni ræðu, þ.e. meðan kommúnistar réðu einhvers staðar ríkjum, og afleiðing slíkrar ályktunar yrði auðvitað sú, að herseta þyrfti að vera á Íslandi um langa framtíð.

Atburði þá, sem gerðust í Ungverjalandi og við Súez, þarf ekki að rekja. Þá sá enginn fyrir 28. marz s.l., og þeir geta því ekki afsakað atkvgr. Sjálfstfl. á Alþ. þann dag. Hitt er svo annað mál, að eftir að þessir atburðir gerðust, lá fyrir sú staðreynd, að ófriðarhætta var sízt minni en 1951, er við gerðum varnarsamninginn og leyfðum bandarískum her að koma hingað, og því var í alla staði eðlilegt og í samræmi við ályktunina 28. marz að fresta samningum fyrst um sinn, er viðtöl hófust við Bandaríkin, enda töldu meira að segja sósíalistar, að tími væri óhentugur til þess að gera kröfu um brottför hersins, þótt þeir væru ekki samþykkir þeim rökum, sem borin voru fram fyrir frestuninni.

Það, sem hefur gerzt, er því ekki það, að stefna stjórnarflokkanna hafi breytzt eða þeir hafi frá henni hvikað í einu eða neinu, heldur hitt, að heimsástandið hefur með óvæntum hætti gerbreytzt, og til þeirra staðreynda varð ríkisstj. að taka tillit í samræmi við fyrri yfirlýsingar. Að stjórnarflokkarnir hafi brugðizt fyrirheiti sínu, er því hrein fjarstæða. En það hefur Sjálfstfl. gert með því að bregðast þeirri stefnu, sem mörkuð var 1949.

Nú á samkv. till. Sjálfstfl. að stofna til kosninga, vegna þess að stjórnarflokkarnir hafi á einhverjum mestu hættutímum síðan styrjöldinni lauk frestað samningum um brottför hersins. Af þessum ástæðum ætti þjóðin að fela Sjálfstfl. forustuna í þessum málum, — flokknum, sem vill hafa her í landinu varanlega, –flokknum, sem beitti sér gegn því, að radarstöðvunum úti um land væri lokað, — flokknum, sem stóð fyrir því, að erlendum verkamönnum og hermönnum á Keflavíkurflugvelli væri heimilað að dvelja utan flugvallarins, hvar sem þeir óskuðu, fram á nætur, — flokknum, sem leið það ófremdarástand án mótmæla, að herbílar söfnuðu unglingum saman á tilteknum stöðum, í bænum til þess að flytja þá á skemmtanir suður á Keflavíkurflugvöll, og annað eftir því, — flokknum, sem gaf út sérstakt saurblað á Keflavíkurflugvelli til þess að rægja fyrrv. utanrrh., dr. Kristin Guðmundsson, fyrir það, að hann kom á breytingum til bóta á þessu ástandi, sem var orðið okkur til stórkostlegrar vansæmdar.

Nú segir Sjálfstfl., að þjóðin þurfi endilega að kjósa í vor, til þess að hún geti sem allra fyrst falið þessum flokki forustu í framkvæmd varnarmálanna að nýju. Allir góðir Íslendingar vona, að núv. heimsástand breytist sem fyrst, þannig að við getum verið lausir við herinn, og það tækifæri, sem hlýtur að koma, verðum við að nota. Við höfum tryggt okkur fyllsta rétt til þess. En það hefur m.a. græðzt á þessum átökum í varnarmálunum, að Sjálfstfl. hefur sýnt sítt rétta andlit, svo að þjóðin þarf ekki um að villast, hvar hann stendur, og það er ekki sennilegt, að þeir séu margir, sem fýsir að fela honum forustu í þeim málum að nýju.

Þá eru það efnahagsmálin. Um þau segir í stjórnmálayfirlýsingu Framsfl. og Alþfl. fyrir kosningar: „Samstarfi verði komið á milli ríkisstj. og samtaka verkalýðs og launþega, bænda og annarra framleiðenda um meginatriði kaupgjalds- og verðlagsmála. Markmið þessa samstarfs skal vera að efla atvinnuvegi landsmanna, tryggja stöðuga atvinnu og heilbrigt fjármálakerfi.“ Þetta er sú stefna, sem flokkarnir lofuðu í kosningunum að beita sér fyrir eftir kosningarnar.

Eins og menn ef til vill muna, benti Sjálfstfl. ekki í kosningunum á neina ákveðna leið í dýrtíðarmálunum frekar en endranær. Framsfl. lýsti því hvað eftir annað yfir í samræmi við kosningastefnuskrána, sem ég hef nú vitnað til, að hann ætlaði að beita sér fyrir því, að samkomulag yrði við vinnustéttirnar í þessu máli, og velja aðferðina í samkomulagi við þær. Spurningin, sem nú liggur fyrir, er sú, hvort við þetta hafi verið staðið.

Eftir stjórnarmyndunina hófust stjórnarflokkarnir þegar handa um að ná samkomulagi til bráðabirgða við vinnustéttirnar um að falla frá þeirri vísitöluhækkun, sem launamenn áttu kröfu á, gegn því, að landbúnaðarvörur hækkuðu ekki heldur, og að ríkisstj. setti lög, sem bönnuðu verðhækkanir til áramóta, þannig að kaupgetan héldist óbreytt, meðan verið væri að leita úrræða í dýrtíðarmálunum, sem samkomulag næðist um milli þessara aðila. Undireins og þessum bráðabirgðaráðstöfunum hafði verið komið í kring, voru hafnir samningar að nýju við stéttasamtökin, jafnframt því sem sérfræðingar rannsökuðu, hvernig komið var og hvers væri þörf, til þess að framleiðslan, sem öll var að stöðvast við sjávarsíðuna, gæti haldið áfram.

Eins og landsmönnum er raunar kunnugt, er oft talað um þrenns konar úrræði, sem um er að velja í hinum margumtöluðu dýrtíðarmálum: Í fyrsta lagi niðurfærsluleiðina. Sérfræðingar í efnahagsmálum, sem rannsökuðu þessa leið, voru sammála um það, að verðbólgan hér á landi væri komin svo langt, að útilokað væri að fara þessa leið héðan af. Kauplækkun þyrfti að verða um 40–60%, og munu flestir geta séð, að þegar af þeirri ástæðu og raunar af mörgum öðrum, svo sem vegna dýrra framkvæmda, sem einstaklingar og opinberir aðilar hafa lagt í og skulda fyrir, er þetta úrræði nú orðið útilokað. Breyting á skráðu gengi krónunnar hefur mjög verið rædd sem þrautaúrræði í efnahagsmálunum. Margir telja, að þessi leið sé helzta úrræðið og hægt sé að fara þessa leið, án þess að hún valdi verulegri kjaraskerðingu fyrir vinnandi fólk, ef gengisbreytingin er gerð í samráði og samvinnu við það og margháttaðar ráðstafanir gerðar samhliða til þess að koma í veg fyrir eða draga úr kjaraskerðingunni. En ýmsir stjórnmálamenn hafa á ýmsum tímum, bæði hér og erlendis, beitt sér gegn þessu úrræði í ræðu og riti. Það hefði verið gert óvinsælt, hvað sem kostum þess og göllum líður. En reynsla er fyrir því, að þýðingarlaust eða þýðingarlítið er að framkvæma það, nema vinnustéttirnar vilji að því standa og framkvæmdar séu margháttaðar ráðstafanir jafnhliða. Sú leið, sem valin var, er landsmönnum kunn, og þarf ekki að fara um hana mörgum orðum. Breytingin, sem gerð var, var sú að afnema bátagjaldeyriskerfið og framleiðslusjóð, greiða uppbætur á útfluttar framleiðsluvörur og taka þá peninga, sem til þess þarf, aðallega með gjöldum, misjafnlega háum, sem lögð eru á innfluttar vörur, innlenda þjónustu og innlenda framleiðslu, sem er sérstaklega vernduð vegna hinna háu innflutningsgjalda.

Þetta var það úrræði, sem vinnustéttirnar töldu að margrannsökuðu máli vera í mesta samræmi við eigin hag, eins og þessum málum var komið. En jafnframt var lýst yfir af hálfu ríkisstj., að hún mundi til þess að draga úr óumflýjanlegum álögum leggja á háan stóreigna- eða eignamyndunarskatt, lækka álagningu í heildsölu, koma á ströngu verðlagseftirliti, breyta yfirráðum yfir bönkunum þannig, að fjármagnið nýttist sem bezt til nauðsynlegra framkvæmda og framleiðslu, setja húsaleigulög til þess að halda húsaleiguokrinu niðri og fleira, sem auðvitað verður allt gert í harðvítugri andstöðu við Sjálfstfl., bæði utan þings og innan.

Reynslan mun sýna, hvernig þessi tilraun tekst. En ég fullyrði, að það var nauðsynlegt að gera þessa tilraun í samstarfi við vinnustéttirnar í stað áframhaldandi stríðs milli þeirra og milliliðaflokkanna, og með því að gera hana hafa stjórnarflokkarnir staðið við yfirlýsingar sínar fyrir kosningar, eins og ég rakti í upphafi þessa máls.

En hver er stefna Sjálfstfl. í efnahagsmálum, — hvað vill hann gera? Honum er siðferðislega skylt sem stjórnarandstæðingi að gera fulla grein fyrir því. Niðurfærsluleiðina gat hann ekki farið samkvæmt því, sem áður er sagt. Breytingu á skráðu gengi krónunnar gat hann allra flokka sízt framkvæmt. Það er fróðlegt fyrir tilheyrendur að fá að heyra, hvaða leið það er, sem Sjálfstfl. vill velja. Í stað þess að gera grein fyrir þessu, sem honum er skylt, viðurkennir flokkurinn, að útflutningsframleiðslan hafi sízt fengið of mikið. Hann játar m.ö.o., að þær 500 millj., sem nú og áður hafa verið fluttar til framleiðslunnar, síðan gengisbreytingin var gerð, þ.e. eftir 1950, séu sízt of há upphæð, til þess að framleiðslan geti haldið áfram. En hins vegar heldur flokkurinn uppi látlausum rógi út af þessum tilfærslum, kallar þær drápsklyfjar á þjóðina og öðrum slíkum nöfnum, hrópar hátt um verðhækkanir í blöðum sínum. Þetta er ómengað lýðskrum í stað raunhæfra tillagna.

En mætti þá spyrja Sjálfstfl.: Hvar vildi hann láta taka þessar 500 millj.? Og fyrst Sjálfstfl. er að tala um verðhækkanir og álögur, hvers vegna beitir hann sér gegn því, að verzlunarálagning sé lækkuð? Ef kjósa á í vor, er þá ekki mál til komið, að Sjálfstfl. geri þjóðinni grein fyrir því nú í þessum umr., hvaða úrræði það eru, sem hann hefur upp á að bjóða til að kjósa um? Þegar litið er á fyrri ferli Sjálfstfl. í verðbólgumálunum, er alveg sérstök ástæða til þess að lýsa eftir skoðunum hans og till. í sambandi við þessar umr. Þessi fyrri ferill Sjálfstfl. skal nú rakinn í stórum dráttum.

Árið 1942 rauf Sjálfstfl. samvinnu við Framsfl. á eftirminnilegan hátt og myndaði flokksstjórn Sjálfstfl. Á hálfu ári tókst Sjálfstfl. að hækka vísitöluna um 89 stig. Menn ættu að geta gert sér grein fyrir því, hvað þetta þýddi fyrir fjármálaástandið þá, þegar þeir hugsa til þess, að við lítum nú á 10 stiga hækkun vísitölunnar sem lítt viðráðanlegt viðfangsefni. Þarna er dýrtíðardraugurinn raunverulega vakinn upp undir stjórnarforustu formanns Sjálfstfl. og hefur aldrei verið kveðinn niður síðan.

Utanþingsstjórnin, sem sat um tveggja ára bil, hélt verðbólgunni nokkurn veginn í skefjum. En þá vildi það slys til, að Sjálfstfl. komst til valda aftur. Bændur voru fengnir til þess að gefa eftir 9.4% verðhækkun, sem þeir áttu rétt á, gegn því loforði frá Sjálfstfl., að hann skyldi halda dýrtíðinni í skefjum. Það loforð var eins og önnur loforð Sjálfstfl. haldið með þeim hætti, að stjórnarstefnan kynti undir verðbólgunni að nýju með þeim afleiðingum, að í lok ársins 1946 var búið að eyða öllum innstæðum Íslendinga erlendis, með núverandi gengi á annan milljarð, og landið var gjaldeyrislaust og gengið þannig frá sjávarútveginum, að það varð að taka ríkisábyrgð á fiskverðinu, og þannig hefur orðið að reka útflutningsframleiðsluna síðan með ábyrgðum og opinberum framlögum. Skýlausar heimildir, þ. á m. frá hv. 9. landsk. þm., Ólafi Björnssyni hagfræðingi, liggja fyrir um það, að þegar Sjálfstfl. hrökklaðist aftur frá völdum 1946, var allt komið í þrot. Þetta eru tvö örlagaríkustu sporin í dýrtíðarmálunum.

Þá tók ný stjórn við. Fjárhagsráð var stofnað. Bann varð að setja um tíma við nýrri fjárfestingu, og það var gert með samþykki Sjálfstfl., því að engin önnur úrræði voru til staðar, meðan verið var að ljúka því, sem hálfgert var og fé skorti til.

Árið 1953 var búið að rétta nokkuð við. Þá byrjaði Sjálfstfl. að rægja eftirlitið með fjárfestingunni, sem þó hafði verið framkvæmt til þess að bjarga því, sem bjargað varð eftir eyðileggingarstarfsemi flokksins. „Heitur vindur frelsisins“ skyldi fara um landið, ef Sjálfstfl. tæki við völdum, eins og það var orðað í kosningunum. Hann jók þingmannatölu sína í kosningunum með þessum blekkingum, tók því við stjórnarforustu 1953 og gerði frelsi í fjárfestingu og algert eftirlitsleysi að skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi. Gefið var í skyn, að hinn nýi viðskmrh. flokksins mundi tryggja frelsi til frambúðar. Afleiðingin var hin sama og fyrr.

Það sýndi sig, sem vænta mátti, einu sinni enn, að Sjálfstfl. réð hvorki við fjárfestinguna né afleiðingar hennar, sérstaklega í höfuðstaðnum og nágrenni hans. Fjárfestingarkapphlaupið, sem þegar hófst á þessu svæði, sogaði til sín vinnuafl frá framleiðslunni um allt land. Dýrtíð og kauphækkanir fylgdu í kjölfarið. Framleiðslan stöðvaðist hvað eftir annað. Lántökur voru reyndar erlendis með litlum árangri. Fjármagn innanlands var ekki til nema mjög takmarkað, miðað við það, sem þurfti.

Sem dæmi um ástandið í þessum málum um það leyti, sem núverandi ríkisstj. tók við, má nefna, að eftir því sem næst verður komizt, vantar nú 300 millj. kr. til þess að fullgera þau íbúðarhús, sem byrjað hefur verið á í Reykjavík. Þar að auki vantar 70 millj. til annarra framkvæmda, sem byrjað hefur verið á í höfuðstaðnum. Er hér farið eftir bráðabirgðaáætlun innflutningsskrifstofunnar. Ég vek athygli á því, að hér er aðeins um Reykjavík að ræða og að ótaldar eru margs konar framkvæmdir annars staðar á landinu, misjafnlega langt á veg komnar, þ. á m. sementsverksmiðja, rafstöðvarnar, frystihús í nokkrum kaupstöðum o.fl. Alls staðar vantar fé til þessara framkvæmda. Og þegar núverandi ríkisstj. kallaði á bankastjórana á sinn fund, voru svörin þau, að bankarnir væru tæmdir og gætu ekki meira. Það er alltaf sami endir á valdatímabili Sjálfstæðisflokksins.

Núverandi ríkisstj. er að láta rannsaka fjárfestinguna í landinu með hliðsjón af því, hvað hægt sé að framkvæma, þannig að haldið sé uppi nægilegri atvinnu, en ekki gengið of nærri framleiðslunni með vinnuafli. Í þessu sambandi má nefna, að hér eru um 1000 Færeyingar í atvinnu. Verður þá að taka tillit til þess, að atvinnuleysi er sums staðar úti um land, á sama tíma og haldið hefur verið uppi hóflausri fjárfestingu á suðvesturhluta landsins, þar sem mest vinna er við framleiðsluna.

Framkoma Sjálfstfl. í stjórnarandstöðunni er eitt af því, sem er með endemum í fari hans. Flokkurinn hefur aðstöðu til þess að geta sent skeyti til stærstu fréttastöðva erlendis, vegna þess að hann ræður yfir umboðsmönnum þeirra. Þetta hefur flokkurinn notað sér, eins og margoft hefur verið rakið, til þess að senda alls konar ósannan áróður um ríkisstj. til útlanda og láta dreifa honum i erlendum blöðum. Er þetta furðulegt athæfi hjá stjórnmálaflokki. Þetta virðist helzt gert til þess að koma í veg fyrir, að ríkisstj. geti fengið lán erlendis. Hefur það, eins og menn muna, gloprazt upp úr einum þm. Sjálfstfl. hér á Alþingi. — Eru þessi rógskeyti margs konar tegundar. Eitt var um það, að nú væri búið að gera þriggja ára samning um sölu á fiski til Rússlands. Tilgangurinn er auðsær. En sannleikurinn er sá, að form. Sjálfstfl. hafði sem stjórnarformaður reynt að koma á þessum samningum, áður en hann fór frá völdum, en ekki tekizt. — Önnur fréttasending var sú, að nú væri ríkisstj. búin að gera sérstakan samning við Austur-Þýzkaland um fisksölu, send í sama tilgangi. Sannleikurinn var sá, að sjálfstæðismaður gerði þessa samninga, áður en fyrrv. stj. lét af völdum. — Um tíma var því haldið fram, að ríkisstj. ætlaði að taka stórlán fyrir austan járntjald, og þótti mikið ódæði. — Nú síðustu vikurnar er hins vegar haldið uppi rógi á hendur ríkisstjórninni fyrir það, að hún hafi tekið lán vestanhafs og sé að taka þar lán að nýju, lán til Sogsins, sem sjálfstæðismenn hafa reynt árangurslaust að fá s.l. tvö ár. Nú er því haldið fram, að þessi lántaka sé eins konar landssala í vesturátt.

Nú er byrjað á sérstökum rógi um Alþingi og það orðinn kafli út af fyrir sig. Því er haldið fram dag eftir dag í blöðum, að ekkert sé gert á Alþingi, hvorki á fundum né í nefndum. Þó er það staðreynd, að setning löggjafar um dýrtíðarmálin var lokið á Alþ. fyrir áramót, þannig að öll framleiðsla gat farið af stað óhindruð, gagnstætt því, sem verið hefur stundum undanfarið. Fjárlögum var, eins og á stóð, ekki hægt að ljúka, fyrr en dýrtíðarmálin höfðu verið afgreidd, og svo er um fleiri vandamál, sem standa í sambandi við dýrtíðarmálin og ég hef áður talið.

Til fróðleiks skal ég gefa yfirlit um það, hve lengi Alþ. hefur staðið s.l. 10 ár, og hefur Sjálfstfl. öll þau ár verið í ríkisstjórn: 1945 170 daga, 1946 227 daga, 1947 176 daga, 1948 189 daga, 1949 85 daga, 1950 149 daga, 1951 116 daga, 1952 129 daga, 1953 148 daga, 1954 168 daga og 1955–1956 155 daga. En Alþ. hefur ekki staðið nú nema 87 daga fram til þessa. Af þessu sést, að ummæli Sjálfstfl. um lengd þingtímans eru gripin úr lausu lofti og eru hin furðulegustu.

Að lokum vil ég leyfa mér að fara fáum orðum um efni till. þeirrar, sem hér liggur fyrir frá Sjálfstfl. Hún virðist sannast að segja borin fram að lítt athuguðu máli og á sér víst enga hliðstæðu í þingskjölum á seinni tíð. Þetta er ekki till. um að lýsa vantrausti á ríkisstj. almennt eða út af einhverju sérstöku ágreiningsmáli. Efni till. er að skora á ríkisstj. að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. En hvers vegna ætti ríkisstj., sem hefur stóran þingmeirihluta að baki sér, að ákveða það nú að efna til nýrra kosninga á fyrsta ári kjörtímabils, áður en fjárlög eru afgreidd og án þess að fyrir liggi frá stjórnarandstöðunni neinar ákveðnar tillögur um lausn þeirra mála, sem nú eru efst á baugi með þjóðinni? Sannleikurinn er sá, að hér eru á ferðinni einhvers konar duttlungar forustumanna Sjálfstfl., sem naumast er hægt að taka alvarlega, fremur en ýmislegt annað, sem frá þeim kemur um þessar mundir. En þessum hv. þingmönnum verður að skiljast það, að þjóðin hefur kjörið þá til þess að vera í stjórnarandstöðu nú um sinn, og þeim úrskurði verða þeir að hlíta.