23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (2796)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Skúli Guðmundsson:

Mér hafði skilizt, að hér væri á dagskrá fsp., sem er á þskj. 76, til sjútvmrh. um innflutning á olíum og benzíni, þar sem m.a. er spurt um það, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja nægilega flutninga á olíum og benzíni til landsins og hvaða innkaupsverð og flutningsgjald sé nú á olíum. En mér virtist af ræðu hv. 1. þm. Rang., sem hann flutti hér áðan, að það væri nú ekki aðaláhugamál hans að fá svarað þessum fsp., heldur var hann hér með ýmsar bollaleggingar viðkomandi kaupum á skipinu Hamrafelli og útgerð þess og nefndi ýmsar tölur í sambandi við rekstur þess skips. Hann sagði t.d. í ræðu sinni, að það væri sannað, að það hefði verið nóg fyrir útgerð skipsins að fá 80 sh. fragt fyrir olíutonnið, það hefði verið nóg til þess að standa undir rekstri skipsins, og þar á meðal að greiða vexti og afborganir af kaupverði þess. Þetta segir hann að sé sannað. Hvar eru sannanir fyrir slíku? Ég verð að ætla, að hv. þm. viti ekkert, hvað hann er að segja. Íslendingar hafa enn litla reynslu af rekstri slíkra skipa, og þess vegna er þetta fullyrðing út í loftið, vil ég meina, en hefur ekki við neitt að styðjast. Og hann segir í framhaldi af þessu, að útgerð skipsins taki af þjóðinni 15 millj. kr. fram yfir það, sem eðlilegt hefði verið. Það er alveg sama um þessa tölu. Hún er tilbúin af honum eða einhverjum flokksbræðra hans, en hefur ekki við neitt raunverulegt að styðjast.

Það sanna í málinu er hins vegar það, sem öllum er kunnugt, að Hamrafell hefur sparað þjóðinni stórfé með því að flytja nú í vetur nokkra olíufarma til landsins fyrir miklu lægri fragt en þarf að greiða öðrum skipum á sama tíma.

Það hefði mátt ætla, að landsmenn fögnuðu því yfirleitt, að Íslendingar hafa eignazt stórt olíuflutningaskip, að það hefur seint á s.l. ári bætzt í kaupskipaflota okkar Íslendinga stórt og glæsilegt skip, miklu stærra en landsmenn hafa nokkurn tíma áður átt, sem veitir 40 íslenzkum sjómönnum góða atvinnu og flytur til landsins mikinn hluta af því olíumagni, sem landsmenn þurfa að nota. Eigendum þessa skips tókst að fá allt andvirði þess að láni erlendis, og þess vegna er skipið nú hingað komið. Lánveitendur báru það mikið traust til þeirra fyrirtækja, er hér eiga hlut að máli, að þeir lánuðu þeim mestan hluta af kaupverði skipsins, sem er mikið fé, án þess að nokkur ábyrgð frá ríkinu eða öðrum íslenzkum aðilum væri veitt fyrir láninu. En lánveitendur hafa vitanlega treyst því, að eigendur skipsins hefðu frelsi til að taka þátt í flutningum án nokkurrar þvingunar og til þess að haga rekstri skipsins þannig, að þeir gætu örugglega staðið við allar skuldbindingar sínar um endurgreiðslu á þessu stóra láni. Ef bankinn, sem veitti mestan hluta af láninu, hefði vitað það, að skipið fengi aðeins 1/4–1/3 af þeirri fragt, sem gildir á heimsmarkaðinum, fyrir sína flutninga, þá hefði lánið vitanlega alls ekki fengizt, þá væri þetta skip ekki komið til landsins, og Íslendingar mættu þá borga útlendingum nú 220 sh. fyrir flutninginn á smálest af þeirri olíu, sem Hamrafell flytur nú fyrir 160 sh.

Ég geri ráð fyrir því, að þessum útlendingum, sem veittu lánið, hefði þótt það einkennileg frétt, ef þeim hefði verið sagt það, að fyrrv. viðskmrh. í þeim stjórnmálaflokki íslenzkum, sem hefur talið sig sérstaklega fylgja frjálsum viðskiptum og vilja hlynna að þeim, risi upp á Alþingi og heimtaði, að þetta nýja skip væri þvingað til þess með valdboði að flytja olíu fyrir aðeins 1/4 eða 1/3 af þeirri fragt, sem reiknuð er á heimsmarkaði á sama tíma. Ég býst við, að þeim hefði þótt þetta dálítið einkennilegt. Og það er alveg vitað mál, að Íslendingar geta ekki byggt hér upp kaupskipaflota fyrir erlent lánsfé m.a. með það fyrir augum að annast flutninga fyrir aðrar þjóðir, ef Sjálfstfl. og stefna hans, eins og hún hefur verið mörkuð hér, fengi að ráða. Það sér hver maður, að það mundi ekki takast.