02.04.1957
Neðri deild: 79. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (3251)

144. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 381 og flutt er af mér og hv. 2. þm. Skagf. sem minni hluta landbn. þessarar hv. deildar, er, eins og kunnugt er og tekið er fram í grg., samið af þeirri mþn„ sem hæstv. fyrrv. landbrh. skipaði 5. júlí s.l. til þess að gera tillögur um bætta aðstoð frumbýlinga í landinu, bæði nýbýlamanna og annarra, og að öðru leyti gera tillögur um nýjar framkvæmdir eða nýja og bætta aðstöðu fyrir þá, sem skemmst eru komnir áleiðis í framförum sveitanna.

Þetta mál á nokkuð langan aðdraganda og sína sögu. Það er nokkurn veginn kunnugt mál, að síðan verðhækkun og dýrtíðarskrúfa hélt innreið sína í þetta land í stríðinu síðasta, hafa verið sívaxandi örðugleikar fyrir þá, sem vilja stofna til búskapar í sveitum landsins, að gera það, vegna þess, hve það er orðið gífurlega dýrt og því dýrara sem lengra hefur liðið og meira hefur færzt í það horf, að menn hafa ekki getað treyst á mannaflið, heldur orðið að treysta á vélaaflið og þá um leið kaupa dýrar vélar.

Á Alþingi 1951 flutti ég frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins til þess að bæta nokkuð úr á þessu sviði. Það náði ekki fram að ganga og fékk sína mótstöðu. Það var af mér og hv. 2. þm. Skagf. endurflutt á þingi 1952, og fór á sömu leið. Með þessu frv. var tilgangurinn sá að bæta nokkuð aðstöðu þeirra manna, sem leggja í það að stofna til búskapar. Í þriðja lagi má svo geta þess, að hv. þm. Borgf. flutti á þingi 1952 frv. um framlag til veðdeildar Búnaðarbankans, er nema skyldi 5 millj. kr. á ári, og í fjórða lagi var flutt frv. á því sama þingi af hv. fyrrv. 1. þm. Árn., Jörundi Brynjólfssyni, og fleiri mönnum um að gera átak til endurbóta í þessum efnum. Ekkert af þessum frv. náði samþykki hér á Alþingi, þó að undarlegt megi telja.

Síðan skeður það, og það fyrsta, sem gerist til nokkurra endurbóta á þessu sviði, er það, að hæstv. fyrrverandi ríkisstj. lagði til á þingi 1954 að leggja fram af tekjuafgangi 4 millj. kr. til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og á sama hátt árið 1955 að bæta þar við 2 millj. kr. Sú upphæð er að kalla má það eina fé, sem síðustu árin hefur verið til ráðstöfunar í þessu skyni frá hálfu Búnaðarbankans, og svo að öðru leyti það, sem sparisjóðsdeild hans hefur lánað. Nú er það, eins og gefur að skilja, að þessir peningar eru fyrir löngu eyddir, og það má telja góðra gjalda vert það atriði úr frv. okkar í mþn., sem ég nefndi, að gefa eftir þessar skuldir við ríkissjóðinn. Hins vegar er það sjáanlegt öllum mönnum, að það skapar ekki neina fjármuni til þess að halda starfsemi þessarar stofnunar áfram. Skuld sú, sem hér er farið fram á að gefin verði eftir af hálfu sparisjóðsdeildar Búnaðarbankans, mun vera nú um 5 millj. kr., og sýnir það ástandið í þessari stofnun, auk þess sem það er kunnugt, að þar liggja fyrir svo að skiptir hundruðum af óafgreiddum umsóknum frá frumbýlingum og ungum bændum víðs vegar um land. Það er þess vegna mjög aðkallandi, að þessu máli sé sinnt á annan hátt en gert hefur verið og víðtækari, því að það er ekki álitleg stefna, sem virðist hafa vakað fyrir sumum mönnum, að það sé meira upp úr því leggjandi að byggja yfir fólkið, sem flýr úr sveitunum, byggja yfir það dýrar byggingar hér í Rvík, heldur en að gera viðeigandi og nokkurn veginn fullnægjandi ráðstafanir til þess, að það sé hægt að stofna til atvinnurekstrar í sveitum landsins, þar sem fólkið elzt upp og vill þá vera þar áfram.

Þegar við í mþn. vorum fyrri hluta vetrar að athuga það, hvað mestu varðaði í þessum málum, komum við ekki auga á annað fremur af þeim till., sem við lögðum fram, en það, að veðdeild Búnaðarbankans yrði gert mögulegt að lána frumbýlingum til jarðakaupa, vélakaupa og bústofnskaupa, því að það eru þau atriði, sem ekkert lánsfé er nú fáanlegt til.

Ég veit, að margir hv. þm. hafa það mikinn skilning á því, hvernig aðstaða sveitamannanna er, eins og nú er komið, að þeir sjá og skilja, að það verður einhverjar ráðstafanir að gera í þessu efni. En því undarlegra er það, að hvorki hæstv. ríkisstj. né þeir fulltrúar, sem hún hefur í þessum málum hér á Alþingi, eða stjórnarflokkarnir hafa, virðast hafa þann skilning á þessu þýðingarmikla atriði, sem æskilegt væri og nauðsynlegt, til þess að þessum málum sé að fullu sinnt. Því hefur að vísu verið slegið fram, að þetta mundi verða athugað og eitthvað í því gert, en þar sem ekki er enn þá komið í ljós, að úr því verði neitt á þessu þingi, töldum við flm. þessa frv. ekki fært að geyma það lengur að leggja það fram, enda þótt það sé hér lagt fram af okkur sem minni hluta í hv. landbn.

Ég vil þess vegna mega vænta þess, þrátt fyrir það, sem á undan er gengið, að þessu frv. verði vel tekið. Og enda þótt það hafi komið í ljós, að landbn. sé klofin í málinu, þá tel ég þó eðlilegt, af því að það er minni hluti hennar, sem flytur málið, að því sé til hennar vísað, svo að hún öll í heild fái þá tækifæri til þess að taka það nánar til athugunar en verið hefur.

Að öðru leyti skal ég svo ekki um málið fjölyrða, nema sérstakt tilefni gefist til.