20.12.1956
Neðri deild: 36. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Reykv. er enn við sama heygarðshornið. Hann segir, að ég muni lítið vita um, hvað hafi gerzt á Alþ. í vetur, vegna þess að ég hafi verið sárasjaldan viðstaddur. Ég held, að ég viti mjög vei, hvað gerzt hefur á Alþ. í vetur, en á hinn bóginn held ég, að það sé engin ný bóla, þó að ráðherrum gangi illa að koma því við að sitja alla þingfundi til enda. Ætla ég ekki að fara lengra út í það, en mætti margt um það segja, (Gripið fram í.) Og þar kemur hljóð úr horni. Það hefðu t. d. þótt tíðindi að sjá þennan hv. þm. og fyrrv. ráðh., sem fram í greip, hér í þingsalnum í fyrra um þetta leyti, að maður ekki segi meira. Þetta er náttúrlega allt saman heldur broslegt, því að sannleikurinn er sá, að þm. stjórnarflokkanna hafa sannarlega ekki þurft að kvarta yfir atvinnuleysi í vetur. Þeir hafa verið önnum kafnir við að starfa að undirbúningi þeirra mála, sem nú eru fram komin, og annarra mála, sem ekki eru komin fram enn, og það er engin ný bóla. Á hinn bóginn er það alveg augljóst, að hv. 1. þm. Reykv. hefur leiðzt, eftir að hann fór úr stjórninni. En hann ætti bara ekki að láta bera svona mikið á því eins og hann gerir með því að vera að kvarta yfir því hér alltaf, hvað lítið hafi verið að gera síðan. Ég veit, að þetta er nokkuð sitt hvað, að vera í stjórnarliðinu að þessu leyti eða í stjórnarandstöðunni, því að það er svo ákaflega mikið af vinnunni, sem fer fram í flokkunum. En svo vil ég bara rétt í gamni benda hv. 1. þm. Reykv. á það líka, að þegar mest á reið í gærkvöld og stj. kom með sitt stóra mál, sem hann var að lýsa hér áðan, þá mátti hann ekki vera að því að mæta hér og var á öðrum stöðum og var svo úti á þekju áðan, þegar efni frv, bar á góma.