30.10.1956
Neðri deild: 8. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það er nú fremur kátbroslegt að sjá hv. 1. þm. Reykv. (BBen) gerast hér á Alþingi talsmann fyrir verkalýðssamtökin í landinu og kvarta undan því sáran, hve núv. ríkisstj. leiki verkalýðssamtökin og verkalýð landsins grátt. Og lítið gerist þetta betra, þó að í hóp með hv. 1. þm. Reykv. sláist 2. þm. Reykv. (BÓ) og kvarti fyrir hönd verkamanna undan illri meðferð í sambandi við þessa lagasetningu.

Það verður að segjast eins og er, að það er alveg furðulegt, að fulltrúar þess flokks, sem staðið hefur í fararbroddi fyrir þeim aðgerðum varðandi hagsmunamál verkamanna á undanförnum árum, sem Sjálfstfl. hefur gert, skuli leyfa sér að tala um þessi mál eins og þeir hafa gert í þessum umr.

Ég vildi gjarnan víkja hér að nokkrum atriðum, sem varða efnishlið málsins, þó að ég hljóti að leiða hjá mér mikið af því langa karpi, sem fram hefur komið hjá þm. Sjálfstfl. varðandi málið almennt.

Uppistöðuatriði í ræðu Bjarna Benediktssonar, hv. 1. þm. Reykv., var að hamra á því, að með setningu brbl. hefðu kommúnistar, eins og hann orðaði það, gengið inn á það meginsjónarmið sjálfstæðismanna, að kaupgjald verkamanna væri orsökin að erfiðleikunum í efnahagsmálum landsins og að það þyrfti því að grípa til kaupbindingar, og síðan bollalagði hann nokkuð um það, hvað hefði komið til, að kommúnistar hefðu nú í verkalýðssamtökunum gengið inn á þetta sjónarmið, sem þeir fram til þessa hefðu alltaf neitað. Að vísu hvarf hv. 1. þm. Reykv. frá þessari kenningu að mestu síðar í ræðunni, eins og ég skal koma að síðar, því að þá hafði hann raunverulega snúið þessu öllu við. Hann hefur ekki áttað sig á því sýnilega, eftir því sem hann hagar máli sínu, hvað það var, sem raunverulega var að gerast frá hálfu verkamanna í sambandi við þessa lagasetningu.

Þegar forustumenn verkalýðssamtakanna samþykktu það á sínum tíma að falla frá kauphækkun, sem nam 6 vísitölustigum og átti að taka gildi 1. sept., voru þeir þá að samþ. kauplækkun, sem 6 vísitölustigum nam? Ja, það virðist Bjarni Benediktsson halda, og það er vitanlega út frá þessari meginforsendu, að það hefur verið kenning sjálfstæðismanna og er kenning þeirra enn í dag, að það þurfi að lækka kaup verkamanna, t. d. um sex stig, það þurfi að lækka kaup verkamanna um eitthvað ákveðið, og þá muni allt taka að lagast í efnahagsmálum landsins. En í augum verkamanna horfa þessi mál þannig við, að þeir hafa tryggt sér með samningum á hinum ýmsu tímum að fá hækkað kaup á móti hækkandi verðlagi. Þeir hafa reynt með samningum sínum að tryggja sér það eftir ýmsum leiðum, að kaupmáttur þeirra launa héldist sem jafnastur. Og hvað var það, sem verkalýðssamtökin samþykktu í þessu tilfelli? Þau voru ekki að fórna neinum sex stigum í raunverulegu kaupi. Þau voru ekki að samþykkja neina kauplækkun, það er rangt. Þau stóðu frammi fyrir því, að þau gátu samkv. rétti sínum tekið nokkra kauphækkun 1. sept. þ. á., en þau stóðu líka frammi fyrir því, að þessi litla kauphækkun, sem fólst í þessum sex stigum, átti að hverfa að fullu og öllu strax eftir 15 daga. Það lá jafnumsamið eins og þessi sex vísitölustig á borðinu, að nýtt afurðaverð átti að taka gildi á hinum nýju landbúnaðarafurðum, sem áttu að koma á markaðinn eftir 15 daga, og kaupgjaldið hefði ekki hækkað vegna hins nýja afurðaverðs, sem átti að koma um 15.–20. sept. Kaupgjaldið hélzt óbreytt til 1. des., en þá átti að reikna aftur út nýja vísitölu. Það lá líka fyrir jafnumsamið og víst, að ýmsar verðhækkanir lágu á borðinu, eins og hækkun á rafmagnsverði hér í Rvík og stórkostleg hækkun á olíuverði, sem hefði a. m. k. verið komin fram, ef Sjálfstfl. hefði þar ráðið nokkru um.

Þessar umsömdu verðhækkanir, sem lágu á borðinu, voru reiknaðar út af forsvarsmönnum verkalýðssamtakanna, og þegar þeir sáu, að sex stiga kauphækkunin, sem hægt var að taka l. sept., var öll upp étin, upp á eyri, eftir 15 daga, þá gerðu þeir samkomulag um að afsala sér þessari kauphækkun með þeim skilyrðum, að þær verðhækkanir, sem voru jafnumsamdar fyrir, skyldu ekki heldur ná fram að ganga, þær verðhækkanir, sem hefðu annars étið kauphækkunina alla upp.

Hér var því um gagnkvæma samninga að ræða, sem verkalýðssamtökin í landinu skildu og þau töldu sér hag af, en ekki eins og hinir nýju málsvarar verkalýðssamtakanna í landinu, Bjarni Benediktsson og Björn Ólafsson, telja, að verkalýðurinn hafi á þennan hátt vegna svika kommúnistaforingjanna verið svikinn um kaupgjald.

Það var sem sagt ekki í þessu tilfelli hin margrómaða stefna Sjálfstfl. að reyna að lækka kaup verkamanna, að reyna að draga úr kaupmætti þeirra launa, sem hér var verið að framkvæma, heldur hafði tekizt hér að fá samkomulag á milli vinnustéttanna um gagnkvæmar aðgerðir, sem báðum gat orðið að verulegu gagni.

Þetta er vitanlega nauðsynlegt fyrir hinn nýja leiðtoga verkamanna, hv. 1. þm. Reykv., að gera sér fyllilega ljóst, ef hann á von á því, að nokkur verkamaður í landinu vilji taka hann sem gildan forustumann, hlýða á hann, þegar hann talar um þessi mál, því að það hefur verið siður forustumanna í verkalýðssamtökunum að meta það alveg raunhæft, miðað við það, sem út úr dæminu kemur hverju sinni, hvað þeirra kaupmætti er fyrir beztu. Þeir hafa t. d. skilið það mætavel, að till. eins og sú, sem Sjálfstfl. stóð að í fyrrv. ríkisstj., till., sem miðaðist við það að samþykkja fyrst hér á Alþingi stórkostlegar álögur, álögur, sem talið er að muni hafa hækkað verðlag í landinu um 230–250 millj. kr. á ári, álögur, sem hlutu að koma út í verðlaginu í landinu, hlutu að hækka verð á svo að segja öllum hlutum, — þeir hafa skilið það, að slík samþykkt, sem kom þessari verðhækkun í gegn, og ráðstöfun, sem svo átti að koma í veg fyrir alla kauphækkun á móti öllum þessum álögum með því að greiða niður tiltekna liði vísitölunnar um 20–30 millj., hlaut vitanlega að þýða skertan kaupmátt launa, þegar allt var tekið til.

Það var af þessari ástæðu, sem verkalýðssamtökin sögðu: Ef hin gífurlega verðhækkun á öllum hlutum, sem hlýtur að verða afleiðing af tollahækkununum s. l. vetur, á að framkvæmast þannig að halda vísitölunni fastri með niðurgreiðslu, sem kostar 20–30 millj. kr., af því að niðurgreiðslunni er beint að tilteknum fáum vöruflokkum, þá er þetta hin herfilegasta vísitölufölsun og skerðing á raunverulegum kaupmætti. Af því getum við ekki samþykkt þetta. — En það vakti vitanlega fyrir Sjálfstfl. samkv. hans höfuðkenningu, að galdurinn lægi í því að lækka kaupmáttinn, minnka hið raunverulega kaup verkamanna, þá mundi þetta allt saman lagast.

Svo er í sambandi við þessa löggjöf reynt að snúa við staðreyndum með því að segja: Ja, í fyrra tilfellinu neituðu forustumenn verkalýðssamtakanna niðurgreiðslum, en nú geta þeir samþykkt niðurgreiðslu, af því að nú er hún framkvæmd í sambandi við verðlækkunina á landbúnaðarafurðunum.

Eins og ég sagði, féllu forustumenn verkalýðssamtakanna frá sex stiga vísitöluhækkuninni gegn því, að tilteknar hækkanir, sem á borðinu lágu, m. a. í sambandi við landbúnaðarafurðir, næðu ekki fram að ganga. Þetta var það, sem sneri að launþegunum sem slíkum. En aftur var svo hitt, að bændur landsins höfðu beðið í langan tíma eftir að fá nokkra kauphækkun sér til handa vegna hins gífurlega hækkandi verðlags, sem verið hafði á öllu árinu, m. a. sem afleiðing af nýju tollunum og nýju sköttunum, sem samþykktir voru upp úr síðustu áramótum. Vitanlega vildu verkalýðssamtökin í landinu ekki standa gegn því, að bændum yrðu greiddar nokkrar uppbætur fyrir allan þann langa tíma, sem þeir hafa þurft að bíða eftir sinni kauphækkun, og það var gengið til samkomulags um það, að sú verðhækkun á landbúnaðarafurðum, sem sanngjarnt væri að gengi í gegn til handa bændum, skyldi verða greidd úr ríkissjóði þennan stutta tíma, og sú greiðsla átti líka að koma þannig fram, að allar landbúnaðarafurðir jafnt skyldu greiddar niður að sama hlutfalli, og þar af leiðandi gat ekki orðið um neina röskun á vísitölugrundvellinum þess vegna að ræða, alveg öfugt við það, sem sjálfstæðismenn höfðu yfirleitt lagt til í sínum tillögum.

Þetta var vitanlega ástæðan, að verkalýðssamtökin í landinu sáu, að án þess að skerða kjör launþega gátu þau átt sinn þátt í því að stöðva verðlagið í nokkra mánuði og gefa þannig ríkisstj. kost á því að nota þennan frest til þess að koma að till., sem gætu staðið lengri tíma og þá jafnframt yrðu miðaðar við það, að kaupmáttur launa yrði ekki skertur. En það var ekki aðeins þetta, sem ég hef minnzt á nú, sem lá fyrir hjá verkamönnum, þegar þeir samþykktu þessa lagasetningu. Auk þessa var svo það algera nýmæli, sem Sjálfstfl. hefur aldrei fengizt til viðtals um og er greinilegast nú í þessum umr. að kemur honum verst, en það voru ákvæði um að stöðva allar verðhækkanir á öllum sköpuðum hlutum í landinu þennan sama tíma, að ákveða að halda öllu verðlagi gersamlega föstu.

Sjálfstfl. hefur aldrei verið til viðtals um slíka ráðstöfun sem þessa — og af hverju? Vegna þess að aðalumboðsmenn hans og aðalstuðningsmenn hafa átt þarna hlut að máli. Þeir vildu hafa allt laust hjá sér, þeir vildu geta hækkað verðlagið, eftir því sem hagsmunir þeirra buðu þeim hverju sinni. Svo eru þessar gömlu skýringar, sem ganga hér aftur í þessum umræðum, en eru þó orðnar hlægilegar í augum allra landsmanna, að ekki saki að hafa verðlagið í landinu alveg óbundið, vegna þess að verðlagið jafni sig alltaf sjálft, það sé hin frjálsa samkeppni, eins og stundum er sagt, sem haldi verðlaginu öllu í skefjum, enginn þurfi neitt að líta eftir því, því að hin frjálsa samkeppni muni sjá um það, — þó að í rauninni allir landsmenn séu margsinnis búnir að þreifa á því, að meira en í öðru hverju tilfelli verður samkomulag á milli þeirra, sem selja, eða gagnkvæmur samningur um það að halda verðlaginu uppi, en ekki bjóða niður hver fyrir öðrum.

Ein ný kenning kom hér fram enn, og hún var vitanlega frá hagfræðingi Sjálfstfl. hér á hv. Alþingi, og það var kenningin um það, að ekki þyrfti neitt að hugsa um verðlagið, það kæmi af sjálfu sér, því að ef maður t. d. bannar allar kauphækkanir, bindur kaupið, þá dettur engum manni í hug að hreyfa verðlagið, vegna þess að það er ekki til nein vaxandi kaupgeta til að taka við hækkandi verðlagi.

Það er engu líkara en að menn, sem svona tala, hafi verið fyrir utan hið gangandi líf í kringum þá, að þeir hafi ekki orðið varir við það, hvernig á því tímabili, sem kaupgjald hefur staðið algerlega fast og kyrrt, hafa stórsveiflur getað orðið í verðlaginu þrátt fyrir allt og vitanlega vissum aðilum, vissum mönnum og vissum fyrirtækjum, til stórgróða.

Það var líka eins og hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) sagði hér, að það, sem vitanlega er verst við þessi lög og er í rauninni óframkvæmanlegt, sagði hann, er sá þáttur löggjafarinnar, sem snýr að því að ákveða, að verðlag allt í landinu skuli standa óbreytt þessa fáu mánuði. Það er auðvitað alveg vitað mál, að í einstaka tilfellum getur það farið svo, að þeir, sem vörur og þjónustu selja, verði að selja með tiltölulega litlum hagnaði af þessum ástæðum þessa fáu mánuði. En þó að það kunni að vera erfitt fyrir þá, er það athyglisvert í þessu, að þeir sömu menn, sem kvarta undan því, að það geti verið erfitt fyrir þá, sem selja vöruna, að geta ekki alltaf fengið allar þær sveiflur borgaðar einhvers staðar frá, sem kunna að verða á markaðsverðinu, telja hið fasta kaupgjald, óbreytt kaupgjald, geta staðið, þó að verðhækkanir verði. Þó að það verði verðhækkun á eftir verðhækkun á vörum, hví skyldi kaupið ekki geta verið bundið? En hvernig á sá, sem selur vöruna, að geta mætt einhverjum áföllum. Hann getur ekki mætt neinu. Þessi hugsanagangur er að vísu ekki nýr. Hann hefur þekkzt áður. En það er ekki líklegt, að þeir menn geti orðið hátt skrifaðir hjá verkalýðssamtökum landsins, sem svona hugsa og svona mæla.

Svo koma allar áhyggjurnar af því hjá þessum nýju talsmönnum verkalýðssamtakanna, að ekki hafi verið á eðlilegan hátt leitað eftir samkomulagi og samþykki verkalýðssamtakanna í landinu.

Ja, hugsa sér annan eins yfirdrepsskap eins og þann, þegar hv. 1. þm. Reykv. (BBen) og 2. þm. Reykv. (BÓ) koma fram og þykjast vera að kvarta fyrir hönd verkalýðssamtakanna, að það hafi ekki í þessu tilfelli verið leitað nægilega samþykkis þeirra, hér hafi ekki verið lýðræðislega að farið gagnvart þeim. Hvað hafa þeir gert í þessum efnum, þegar þeir hafa verið í stjórn landsins? Hvað gerðu þeir, þegar þeir voru að samþykkja gengislögin? Spurðu þeir verkalýðssamtökin í landinu? Hvað hafa þeir gert, þegar þeir hafa bundið kaupgjaldið fast áður? Hafa þeir spurt verkalýðssamtökin? Og hvernig hafa þeir yfirleitt farið að, þegar þeir hafa verið að greiða niður vísitölu eða hagræða hlutunum fyrir sig launþegum í óhag? Hafa þeir þá leitað samþykkis og ráða verkalýðssamtakanna? En nú, þegar þannig var að farið, að það var ekki aðeins miðstjórn Alþýðusambands Íslands, hin sameiginlegu samtök um allt land, sem voru látin fjalla um málið, áður en löggjöfin var sett, heldur einnig fjórðungssambandið á Vestfjörðum, fjórðungssambandið á Norðurlandi, fjórðungssambandið á Austurlandi eða öll fjórðungssambönd Alþýðusambands Íslands voru spurð og svöruðu öll á einn veg, þá er það ekki að hafa samráð við verkalýðssamtökin í landinu. Þó að boðað væri hér til fundar í Rvík með tveggja sólarhringa fyrirvara, auglýst í blöðum bæjarins og auglýst í útvarpi þjóðarinnar, að haldinn yrði fundur með öllum stjórnarnefndarmönnum verkalýðsfélaganna í Rvík og málið rætt þar, þá var það ekki að hafa samráð við verkalýðssamtökin í landinu.

Maður skyldi halda, að þeir menn, sem hafa efni á því að kvarta í þessum efnum, væru menn, sem í þessum efnum hefðu haft hreint mél í pokanum, — en svo vita allir, hvað hið raunverulega er.

Nei, það er rétt, sem sagt hefur verið, að það var fullt samkomulag við verkalýðssamtökin í landinu, og þeir aðilar, sem þar gátu helzt talað sem forsvarsmenn, lögðu beint samþykki sitt á þessar ráðstafanir, af því að þeir höfðu sannfært sig um, að þetta væri verkalýðssamtökunum í landinu til gagns.

Til þess að sýna, hvernig samræmið er í málflutningi fulltrúa sjálfstæðismanna nú og í athöfnum þeirra áður, er svo það, að hv. 1. þm. Reykv. (BBen) segir í þessum umr., að frumorsökin til vaxandi verðbólgu hafi alltaf verið og sé enn í dag hið háa kaupgjald og sé, eins og hv. 2. þm. Reykv. orðaði það, sú stjórn kommúnista á verkalýðshreyfingunni á undanförnum árum, sem hefur jafnt og þétt miðað að því að spana upp kaupgjald verkamanna. Þetta átti að vera frumorsök þess, að verðbólgan hafi farið vaxandi. En hvað er svo sagt nú í þessum umr., um það leyti sem Bjarni Benediktsson er að verða aðaltalsmaður verkalýðssamtakanna í landinu, til þess að ákæra núv. ríkisstj. fyrir það að standa ekki nægilega vel þar í ístaðinu? Ja, þá segir hann, að það sé vitanlega ekki kaupið eitt, sem ráði hér úrslitum, og það sagði reyndar 2. þm. Reykv. líka, vitanlega sé hér einnig um að ræða og þá kannske miklu meir ofþenslu á vinnumarkaðinum. Það er það, segir Bjarni Benediktsson nú, að fyrrv. utanrrh. sveikst um skyldu sína að láta ekki vinnuna á Keflavíkurflugvelli hafa of mikil áhrif í efnahagskerfi þjóðarinnar. Hann hafði alveg valdið. Hann gat haft þar færri menn. Hann gat dælt minna fjármagni inn í íslenzkt efnahagskerfi í gegnum Keflavíkurflugvöllinn en gert var. Ofþenslan hefði ekki þurft að vera svona mikil.

Mig minnir, að ég hafi einhvern tíma haldið þessu fram áður hér á Alþ. og m. a. í umr. við þá fulltrúa Sjálfstfl., að þetta væri ekki minnsta orsökin til þeirra erfiðleika, sem væru hér í efnahagslífi Íslands, hvernig hefði verið haldið á málunum í sambandi við vinnuna á Keflavíkurflugvelli. En nú er það auðvitað Sjálfstfl., sem kemur hér fram og segir, að þetta sé einn gildasti þátturinn í sambandi við þessa erfiðleika. Flokkurinn, sem allt fram að þessu og undanfarna daga hefur hrópað hástöfum út af því, að hin kommúnistíska stefna ríkisstjórnarinnar sé að setja hér allt á vonarvöl, vegna þess að það dragist svo saman vinnan á Keflavíkurflugvelli, nú sé verið að gera þar þúsundir manna atvinnulausar og nú sé verið að stefna afkomu íslenzku þjóðarinnar í hættu, — þetta eru sömu mennirnir sem senda nú sinn málsvara hér inn í Alþingi og benda á það, að það hafi á undanförnum árum verið gert of mikið að því að halda Íslendingum til vinnu á Keflavíkurflugvelli og það hafi verið þaðan dælt óeðlilega miklu fjármagni inn í efnahagslíf okkar og truflaðar þannig aðrar greinar atvinnulífsins. En það er eins og í öðru: Hvað munar Bjarna Benediktsson og Sjálfstfl. um það nú að vera jöfnum höndum með því, að menn haldi áfram að vinna á Keflavíkurflugvelli, að þeim verði ekki sagt þar upp, og svo aftur í hinu orðinu að ásaka aðra fyrir það að hafa ekki sagt nægilega mikið upp á Keflavíkurflugvelli? Þetta er alveg eins og að vera jöfnum höndum að krefjast þess, að kaup verkamanna verði bundið og lækkað, og ásaka aðra fyrir það, að slíkt hefur verið gert með samkomulagi við verkalýðssamtökin um stuttan tíma.

Það er vitanlega með öllu rangt, að of hátt kaup verkamanna í landinu hafi verið orsökin til þess, að við höfum átt við ýmsa örðugleika að stríða í okkar efnahagsmálum. Það var heldur ekki verkfallið vorið 1955, sem tryggði verkamönnum 11–13% kauphækkun, sem rak á stað allar þær verðhækkanir, sem hér urðu á því ári og hafa orðið á þessu ári fram undir það, að stöðvunarlögin voru sett. 11% kauphækkun til verkamanna náði því ekki að hækka kaupmátt launa þeirra til jafns við það, sem kaupmáttur launanna hafði verið áður. Verkamenn höfðu dregizt það langt aftur úr öðrum og þeir voru þarna aðeins að reyna að jafna nokkuð bilið. Hins vegar var það, að þessi litla kauphækkun til handa þeim, sem voru lægst launaðir í þjóðfélaginu, var síðan notuð, m. a. af Bjarna Benediktssyni og fyrrv. ríkisstj., á skefjalausan hátt til þess að reyna að framkalla allar þær verðhækkanir á yfirleitt öllum sviðum, sem þeir gátu. Það er sannleikur málsins, að hér voru knúðar fram verðhækkanir, sem engin rök voru fyrir að leyfa, og þetta kom fram á öllum sviðum, m. a. kom þetta fram á þann hátt, að þeir menn, sem harðast höfðu barizt gegn 11% kauphækkun verkamanna, stóðu hér að því á Alþ. nokkrum mánuðum síðar að hækka laun þeirra starfsmanna ríkisins, sem hæst eru launaðir, um 30–44%. Og þegar ég flutti hér till. á Alþ. um það, að laun þeirra fastlaunaðra starfsmanna, sem hæst hafa launin, yrðu ekki hækkuð alveg eins mikið og hér voru gerðar till. um af ríkisstj. þáverandi, þá var slík till. frá mér kolfelld hér á Alþ., og þá var það Bjarni Benediktsson og fulltrúar Sjálfstfl. og aðrir þeir, sem ósköpuðust yfir 11% kauphækkun til verkamanna, sem stóðu að því að fella slíka till., því að hinum hæstlaunuðu í þjóðfélaginu dugði ekki að fá samsvarandi kauphækkun og verkamenn höfðu haft, þeir þurftu að fá tvöfalda og þrefalda kauphækkun á við þá. Ástæðan var einfaldlega sú, sem nú kemur greinilega fram, að vegna þess að verkamennirnir höfðu fengið 11% kauphækkun, þurfti að framkalla hin rökin að segja: Allar verðhækkanir, verðhækkun upp á 40–50%, þetta er verkföllunum að kenna. Launahækkanir hinna hæstlaunuðu í þjóðfélaginu, sem urðu upp á 30–40%, voru vitanlega verkfalli verkamannanna að kenna. Það þurfti að kenna því um allt, sem gert var. Það er mikill misskilningur að halda því fram, að núverandi kaup verkamanna sé aðalorsökin til þess, að ýmislegt gengur erfiðlega í okkar atvinnu- og efnahagslífi.

Af þessu, sem ég hef nú sagt, sést það, að við fulltrúar Alþýðusambandsins og forustumenn okkar í verkalýðssamtökunum höfum ekki breytt um afstöðu eða stefnu í þessum málum á nokkurn hátt. Okkar afstaða er sú sama og áður, að leggja til grundvallar að ganga gjarnan til samkomulags við þá, sem við verkalýðssamtökin vilja semja, á þeim megingrundvelli, að kaupmáttur launa sé ekki skertur. Sjálfstfl. getur einn átt þá afstöðu áfram að berjast fyrir því, að laun verkamanna verði lækkuð, því að þau séu aðalorsökin til erfiðleikanna.

Það er með öllu þarflaust fyrir stjórnarandstöðuna nú að óskapast yfir þessari lagasetningu í nafni verkalýðssamtakanna í landinu. Verkalýðssamtökin yfirleitt og launþegasamtökin almennt eru fullkomlega ásátt með þessa lagasetningu. Þau telja, að þessi lög hafi fremur verið til hagsmunalegra bóta fyrir launþega almennt í landinu heldur en hið gagnstæða. Og þau telja, að það, sem liggur á bak við þessi lög, sé af algerlega öðrum toga spunnið en það, sem lá á bak við till. sjálfstæðismanna áður í þessum efnum, þrátt fyrir það að í öðru orðinu komi alltaf nú lof um verkamenn og mikil umhyggja fyrir þeirra hagsmunum og þó að reynt sé nú að renna ýmsu því niður, sem áður hefur verið haldið fram í þessum efnum, eins og t. d. því, þegar 1. þm. Reykv. (BBen) lýsir því nú yfir til áherzlu í þessu máli, að hann viðurkenni alveg, að gengislækkunin hafi verið misráðin, ég ætla, að ég hafi heyrt það rétt, að hann lýsti því hér yfir og þurfti þar að herða mjög á, að það væri nauðsynlegt nú að lýsa því yfir, að gengislækkunin hefði verið misráðin. Það villir ekki um fyrir verkalýðssamtökunum í landinu, þó að þeir menn, sem á undanförnum árum og jafnvel enn í dag hafa barizt fyrir því, að raunveruleg laun verkamanna verði lækkuð og þannig verði ráðizt gegn erfiðleikum dýrtíðarmálanna, komi nú fram og deili jafnvel á gengislækkun, þó að þeir jafnvel deili á Keflavíkurvinnuna og þó að þeir þykist nú vera á móti allri kaupbindingu. Forustumenn verkalýðssamtakanna eru færir um að meta það nú eins og áður, hvort lagasetning, sem meðal annars felur í sér kaupbindingu til stutts tíma, er þeim til gagns eða ekki. Hitt mun svo lengi í minnum haft, hvernig afstaða Sjálfstfl. hefur verið til þessa máls frá því fyrsta, að snúast á þann hátt, sem ég hef nú lýst. En ég ætla, að vegur forustumanna Sjálfstfl. vaxi lítið af slíkum málflutningi eins og þessum.