11.12.1956
Neðri deild: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

32. mál, orlof

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur á fundi sínum í dag afgr. þetta mál frá sér, en tími hefur ekki gefizt til þess að skila eða láta prenta þetta álit, þannig að því hefur ekki verið útbýtt enn. En með því að málið hefur þrátt fyrir þetta verið sett á dagskrá, vil ég engu að síður lýsa hér munnlegu áliti n., sem væntanlega kemur fram mjög fljótlega á þskj. Heilbr.- og félmn. er óklofin um málið og mælir með því, að frv. verði samþykkt óbreytt. Þó hafa tveir nm., hv. þm. Ísaf. og hv. 8. þm. Reykv., áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða styðja tillögur, sem fram kunna að koma.

N. hefur sent þetta mál til umsagnar tveggja aðila, annars vegar Landssambands íslenzkra útvegsmanna og hins vegar Sjómannafélags Reykjavíkur. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur svarað og sent umsögn. Í stuttu máli sagt mælir Landssambandið eindregið gegn því, að þetta frv. verði samþykkt. Ég ætla ekki að lesa það álit allt saman, get að sjálfsögðu gert það, ef einhver æskir þess, en Landssambandið ber fyrst og fremst fyrir sig kostnaðarhlið málsins og bendir á, að það muni hafa í för með sér allmikinn aukinn rekstrarkostnað fyrir útgerðina.

Sjómannafélag Reykjavíkur hefur ekki svarað þessu máli skriflega, en ég hef leitað eftir því munnlega, hver afstaða þess sé, og fengið þau svör, að vegna anna í sambandi við kosningar, sem standa yfir í félaginu, hafi ekki unnizt tími til að taka það fyrir í stjórn þar, en stjórnarmeðlimir muni vera einhuga fylgjandi því, að þetta frv. nái fram að ganga. Ég get því tekið mér það bessaleyfi að lýsa því hér sem áliti þess félags, að það telji, að frv. eigi fram að ganga.

Þetta frv. mun hafa komið fram á tveim þingum áður, að því er mér er tjáð, og felur í sér stórkostlega mikilvæga kjarabót fyrir alla launþega í þessu landi. Kjarabótin, sem í þessu felst, er í raun og veru tvíþætt. Fyrst er sú beina aukning á orlofi, sem fram kemur í 2. gr. í þessu breytingarfrv. og 3. gr. þessa frv., sem sé hækkunin úr 4% í 6% á orlofsfé og samsvarandi lenging á orlofinu sjálfu.

Í sambandi við þetta er í raun og veru aðeins um það að ræða, að Alþingi staðfesti með lögum það, sem þegar er orðið og hefur náð fram að ganga með vinnudeilum. Eins og öllum er kunnugt, hefur breyting á orlofi verið mjög mikilvægur þáttur í lausn á tveimur mjög stórum og alvarlegum verkföllum, sem hér hafa verið háð undanfarin ár. Að því leyti er þessi breyting þegar orðin. Engu að síður er sjálfsagt, að Alþingi viðurkenni þessa breytingu og geri það með því að lögfesta nú orlofið, eins og það þegar er orðið í samningum, og orlofsféð sömuleiðis. Lögfestingin er viðurkenning löggjafans á þessu máli og mundi því verða mikill sigur fyrir vinnandi fólk i landinu í kjarabaráttu þess.

Seinna atriðið, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er ekki gengið í gildi og er því ný, mjög merk og mikilsverð kjarabót, ekki fyrir alla launþega, heldur einn flokk þeirra. Þetta er breytingin, sem gerð er á orlofi hlutarsjómanna.

Það hefur verið regla um orlof hlutarsjómanna í orlofslögunum, sem hér er lagt til að verði breytt, að litið er á hlutarsjómenn sem framleiðendur að nokkru leyti. Þeir fá því aðeins hálft orlof frá eigendum þeirra skipa, sem þeir vinna við, en eiga að leggja hinn helminginn til sjálfir. Má að sjálfsögðu deila um það, hvort líta ber þannig á þessi mál, að hlutarsjómaður sé að einhverju leyti framleiðandi, eða hvort líta ber á hlut hans hreinlega sem laun og hlutarsjómanninn að öllu leyti sem launþega.

Ég hygg, að í ýmsum öðrum lögum, t.d. almannatryggingalögunum, sé litið svo á, að hlutur sé laun, og þannig með hann farið. Þetta ákvæði hefur reynzt erfitt í framkvæmd. Hafa hlotizt af þessu ýmiss konar vandkvæði, jafnvel málaferli. Það er því bæði til að forðast slíkt í framtíðinni og veita hlutarsjómönnum þá réttarbót að líta á þá sem launþega, ef þeim er veitt fullt orlof. Þetta er nýtt og mjög mikilvægt kjaraatriði fyrir þá, sem það nær til, og ber að fagna því, að það skuli nú koma hér fram í stjórnarfrv. Ég vænti þess, að það muni, eins og frv. í heild, ná fram að ganga.