18.11.1957
Efri deild: 23. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

18. mál, umferðarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. hv. d. flytur aðeins tvær brtt. við frv. til umferðarlaga. Á síðasta Alþ. athugaði n. frv. vandlega og flutti þá allmargar brtt., sem allar voru samþykktar. Af þeim sökum eru brtt. n. ekki fleiri nú.

Fyrri brtt. er við 23. gr., um að fella niður setningarhluta, sem þar greinir, eins og segir á þskj. 74. Í setningarhluta þessum er aðeins endurtekning á því, sem áður er sagt, svo sem sjá má, ef gr. er lesin, og þarf ekki að fara fleiri orðum þar um.

Síðari brtt. er við 50. gr., og hún gengur út á það að breyta síðustu mgr. greinarinnar. Í frv. hljóðar mgr. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um ökuhraða, þ. á m. ákveðið lægri hámarkshraða, en að framan greinir. Í kaupstöðum og kauptúnum má setja slíkar reglur í lögreglusamþykktum.“

En samkv. till. nefndarinnar yrði greinin á þessa leið:

„Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um ökuhraða, þ. á m. ákveðið lægri hámarkshraða almennt en að framan greinir eða á einstökum vegum. Í kaupstöðum og kauptúnum má setja slíkar reglur í lögreglusamþykktum.“

Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða, því að enda þótt greinin yrði samþ. óbreytt, mundi ráðherra geta ákveðið lægri hámarkshraða almennt en 70 km og einnig á einstökum vegum. Sömuleiðis mundi eftir sem áður heimilt að setja í lögreglusamþykktum sams konar ákvæði um lægri ökuhraða en 45 km almennt eða á einstökum götum í þéttbýli. Hins vegar hefur n. talið rétt að taka þetta fram með ljósara og nákvæmara orðalagi, en í frv. er gert til þess að fyrirbyggja, að menn geti verið í nokkrum vafa hér um.

Þá hef ég leyft mér að bera fram einn saman brtt. á þskj. 75 um, að niður verði felld síðasta mgr. 20. gr. frv. um afskráningu bifreiða. Ég tel rétt að geta þess, að brtt. þessa hef ég flutt eftir ábendingu tollstjórans í Reykjavik og fulltrúa hans.

Hér á landi eru nú um 16 þúsund bifreiðar. Af þeim fjölda verða árlega ónýtar nokkur hundruð bifreiðar, svo sem vænta má. Erfiðlega gengur að fá bifreiðar þessar afskráðar sumar hverjar, sökum þess að enginn veit hvar þær eru niður komnar, og ekki næst til eigenda og jafn vel ekki vitað oft og tíðum, hver eigandi er. Afleiðing af þessu er m.a. sú, að bifreiðaskrárnar eru rangar og ekki til nothæfar bifreiðar jafnmargar og opinberar skýrslur segja. Af skráðum bifreiðum ber að greiða bifreiðaskatt, skoðunargjald og ökumannstryggingu, eins og kunnugt er, meðan þær eru notaðar og skráningarmerktar. Séu skráningarmerki af þeim tekin og lögð inn til geymslu hjá lögreglustjóra eða bíl eftirliti, svo sem algengt er, ber þó einungis að greiða skoðunargjaldið, sem er 80 kr. á ári. Því miður er stundum misbrestur á því, að menn greiði gjöld þessi, enda er í fjölmörgum tilfellum um að ræða gerónýtar bifreiðar. Hins vegar eiga innheimtumenn ríkissjóðs að innheimta gjöldin og greiða í ríkissjóð. Hjá tollstjóranum í Reykjavík þarf tvo menn í tvo mánuði á hverju ári til þess að leita uppi nokkur hundruð bifreiðaræfla og eigendur þeirra og innheimta skoðunargjald og önnur gjöld af þeim. Algengt er þó, að gjöldin innheimtist ekki.

Ákvæði þetta, sem lagt er til að fellt verði niður úr frv., er nýmæli. Samsvarandi ákvæði er ekki í núgildandi bifreiðalögum. Verði það lögtekið, er ætlazt til þess, að við fyrirhöfn þá, sem ég lýsti áðan, bætist það að útvega á ári hverju nokkur hundruð vottorð bifreið eftirlitsmanna um, að bifreiðar séu ónýtar. Til þess að láta slík vottorð í té verða bifreiðaeftirlitsmenn óhjákvæmilega að skoða hverja og eina bifreið, sem þeir gefa vottorð um. En hætt er við, að í framkvæmdinni verði þetta þann veg, að slík vottorð verði látin í té án skoðunar að meira eða minna leyti eða eftir umsögn annarra, og er þá þýðing vottorðanna engin. Yrði hins vegar að framkvæma þetta eftir orðanna hljóðan, hljóta mjög að aukast ferðalög bifreið eftirlitsmanna, ef þeir þurfa að skoða hvern bifreiðarræfil, til þess að leyfilegt sé að afskrá hann, hvar sem hann kann nú að vera niður kominn á landinu. Mundi ég álíta réttara að fela þessum mönnum einhver gagnlegri störf, en þetta. Annars sýnist mér, að í þessu efni eigi að gilda hin almennu, óskráðu lög, að hver maður ráði því sjálfur, hvenær hann telur hlut ónýtan, sem hann er eigandi að. Hann á að fá að ráða því, hvort hann kostar til viðgerðar á hlutnum eða ekur honum á sorphaug.

Skv. frv. er ljóst, að árekstrar geta orðið út af þessu milli eftirlitsmanna og eigenda bifreiða. Ef svo færi, sem ég hef raunar ekki mikla trú á, að reynslan leiddi í ljós, að óheppilegt væri einhverra hluta vegna að afskrá bifreiðar án vottorðs bifreið eftirlitsmanns, er hægt að bæta úr því án lagabreytinga með reglugerðarákvæði, því að í 21. gr. frv. segir, að dómsmrh, setji nánari reglur um ökutækjaskrá, skráningu og afskráningu ökutækja. Þessu væri því hægt að koma í kring alveg án þess, að lögunum yrði breytt, ef ástæða þætti til.

Ég vil að lokum geta þess í sambandi við ræðu hv. 8. landsk. við 1. umr. frv. um hugsanlegt ökuleyfi til handa heyrnarlausum eða heyrnarsljóum mönnum, að í 29. gr. frv. segir, að dómsmrh, geti leyft, að sérstök ökuskírteini séu veitt mönnum, enda þótt þeir fullnægi ekki almennum kröfum um líkamshreysti, og setur þá hvert sinn nánari reglur um efni skírteinisins.

Allshn. treysti sér ekki til að ganga lengra í þessu efni, en gert er í þessari grein, enda eru tilfellin um fötlun eða vöntun á líkamshreysti svo margvísleg, að ómögulegt er að setja sérstakar reglur um þau öll. Hitt sýnist n. verða að nægja, að ráðh. meti það hverju sinni, að sjálfsögðu í samráði við kunnáttumenn, hverjum fötluðum mönnum sé unnt að láta í té ökuskírteini og með hvaða skilyrðum.

Ýmis önnur atriði voru rædd á fundum n., svo sem hvort taka skyldi upp hægri handar akstur. Það er umdeilanlegt mál, en n. taldi eftir atvikum ekki rétt að gera till. um það efni né mörg önnur, sem til álita geta komið.

Um 17 ár eru nú liðin, síðan núgildandi umferðar- og bifreiðalög voru sett. Á þessum árum hefur orðið mikil breyting á þeim vandamálum, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um. Þéttbýli hefur stóraukizt, bifreiðaeign landsmanna hefur líklega þrefaldazt og fjöldi annarra ökutækja aukizt enn meir hlutfallslega. Hér á landi eru nú 16 þús. skráð ökutæki, en árið 1929 voru þau aðeins 1.100. Vegna hinna nýju vandamála og miklu tækniþróunar, sem átt hefur sér stað undanfarið, var fullkomlega tímabært að endurskoða núgildandi löggjöf um umferðar- og bifreiðamál. Það er skoðun allshn., að þessi endurskoðun hafi tekizt vel, og hún væntir þess, að frv. fái fullnaðarafgreiðslu og verði afgreitt sem lög á þessu Alþingi.