10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

18. mál, umferðarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að gera nokkra athugasemd við það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um brtt. mínar á þskj. 216. Hann heldur því fram, að ákvæði frv. viðkomandi ölvun ökumanna séu strangari, en það, sem lagt er til í mínum brtt.

Þetta er byggt á misskilningi hjá hv. þm. Í 25. gr. frv., eins og það nú er, segir m.a., að ef vinandamagn í blóði manns sé 0.60%0, þá teljist hann eigi geta stjórnað tækinu örugglega. Þetta mun vera byggt á einhverjum athugunum sérfræðinga og þeirra dómum um þetta efni, og þetta felur það í sér, að maður, sem hafi þetta vinandamagn í blóðinu, sé undir áhrifum áfengis, og till. mín er um það, að enginn megi aka eða reyna að aka vélknúnu ökutæki, ef hann er undir áhrifum áfengis. Verði það lögfest, þá hlyti það að verða svo, að maður, sem hefði þetta vinandamagn, sem ég nefndi og þarna er nefnt í 25. gr., mundi verða dæmdur fyrir brot á lagaákvæðinu samkv. minni till., ef samþykkt verður.

Það hafa meira að segja komið fram raddir um það, og ég held, að það liggi fyrir till. um að færa þetta mark niður í 0.5%0, því að ýmsir fróðir menn í þessum efnum telja, að maður, sem hefur það vinandamagn í blóðinu, sé undir áhrifum áfengis og geti því eigi stjórnað ökutæki örugglega.

Þetta er því allt byggt á misskilningi, sem hv. 1. þm. Reykv, sagði um mína till. Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða um þetta meira. Ég gerði grein fyrir því, þegar ég ræddi um mínar brtt. upphaflega, að ég tel þessa flokkun á ölvuðum ökumönnum, sem að er stefnt með ákvæðum 25. gr., ákaflega varhugaverða. Ég óttast, að þarna sé verið að búa til fallgryfju, sem gæti orðið vinhneigðum mönnum, sem hafa ökuréttindi, mjög hættuleg.