05.05.1958
Efri deild: 88. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

169. mál, mannfræði og ættfræðirannsóknir

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Menntmn. flytur brtt. á þskj. 438 við frv. til laga á þskj. 381 um skráningu Íslendinga til stuðnings mannfræði- og ættfræðirannsóknum hér á landi.

Í 1. gr. frv. er svo fyrir mælt, að prestar þjóðkirkjunnar og prestar eða forstöðumenn annarra löggiltra trúfélaga sendi æviskrárritara árlega skýrslur yfir þá, sem eldri eru, en 15 ára og þeir jarðsyngja. Fyrri brtt., sem nefndin flytur, er sú, að í staðinn fyrir orðin „er þeir jarðsyngja“ komi: er látast í söfnuði þeirra.

Eins og mönnum er kunnugt, þá eru ekki allir jarðsungnir, sem látast. M.a. margir þeirra, sem drukkna, eru aldrei jarðsungnir. Nefndinni fannst rétt, til þess að skýrslur þessar gætu orðið sem fullkomnastar, að þessi skýrslugerð prestanna næði yfir alla, sem látast í söfnuði þeirra, hvort sem þeir eru jarðsungnir eða ekki.

Síðari brtt., b-liðurinn, leiðir af þeirri fyrri, þar sem lagt er til, að í staðinn fyrir orðið ,.greftraðir“ komi: látnir, — svo að hún er sama eðlis.

Með þessum brtt. stendur menntmn. einhuga um þetta frv. og mælir með, að það nái fram að ganga.