03.03.1958
Efri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (1638)

138. mál, dýralæknar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. hv. þm. Barð., ef því verður vísað til landbn., því að þar gefst væntanlega tilefni til að fjalla um það nánar. Ég vil þó ekki láta hjá líða strax á þessu fyrsta stigi málsins að mótmæla þessu frv.

Núgildandi dýralæknalög gera ráð fyrir því, að dýralæknisumdæmi sé Dalasýsla ásamt Skógarstrandarhreppi í Snæfellsnessýslu og Austur-Barðastrandarsýslu. Álít ég þetta umdæmi ærið nóg og víðáttumikið fyrir einn lækni. Hv. flm. segir, að ástæðan til þess, að þetta frv. sé flutt, sé hvorki stærðarmunur umdæma né fjöldi búpenings. Höfuðrökin vill hann telja þau, að samgönguerfiðleikar séu miklir milli Ísafjarðar og Vestur-Barðastrandarsýslu. Og eftir því sem hann hefur skýrt frá í grg. frv., gerir hann ráð fyrir, að þessi dýralæknir, eftir að umdæminu hefur verið breytt, ætti aðsetur í Króksfjarðarnesi. En ég vil spyrja hv. þm.: Hvernig er samgöngum háttað milli Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu? Ég veit ekki betur en sú samgönguleið stöðvist snemma á haustin, strax í fyrstu snjóum, og sé ekki fær að vetrarlagi nema fuglinum fljúgandi. Álít ég þess vegna hina mestu firru að hafa dýralækni búsettan í Króksfjarðarnesi, þar sem hann yrði raunverulega innifrosinn og fenntur meiri hluta ársins. En hins vegar vil ég benda hv. þm. á það, að ef hann telur Vestfjarðaumdæmi vera of víðáttumikið og erfitt yfirferðar fyrir einn dýralækni, þá ætti hann að reyna að fara þá leið, sem félagi hans, hv. þm. A-Sk., hefur reynt að fara nú á þessu þingi, og það er að fitja upp á því að skipta Vestfjarðaumdæmi í tvennt.

Ég get alls ekki fallizt á röksemdir hv. þm., hef ekki fleiri orð um þetta, en vænti þess, að mér gefist tækifæri til að skýra þetta mál betur á næsta stigi.