06.03.1958
Efri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1639)

138. mál, dýralæknar

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til þess að fjölyrða frekar um þetta núna, þar sem við hv. 11. landsk. eigum báðir sæti í þeirri n., sem frv. kemur væntanlega til, svo að við getum sjálfsagt talazt við seinna. Þó vil ég aðeins drepa á það, sem hann nefndi, að hann taldi Dalahérað það víðáttumikið, að það væri sannarlega nægilega stórt. Ég get nú í sjálfu sér tekið undir það; þetta er alveg nógu stórt hérað. En hvað vill hann þá segja um Ísafjarðarhéraðið? Er það þá ekki of stórt? Ég hefði haldið það. Hann nefndi það að skipta því í tvennt. En er það líklegt, að hæstv. Alþ. vilji nú fallast á að fjölga dýralæknum frá því, sem Alþ. er fyrir skömmu búið að gera og áður en séð er hvort það fást nokkrir í þau fimm dýralæknisumdæmi, sem eru óskipuð enn þá? Ég get ekki verið að flytja slíkt mál, ég segi það alveg eins og er. Meðan ekki eru til læknar í nema sjö umdæmi af 12 og hin eru auð, að fara þá að flytja till. um að skipta í tvennt og fjölga þar með dýralæknum, það get ég ekki fengið mig til, af því líka að ég sé ekki nokkra ósanngirni í því að stækka Dalahérað nokkuð til þess að létta á Ísafjarðarhéraði, sem er alveg óhæfilega stórt og óhæfilega erfitt fyrir dýralækni. Ég vona, að hv. þm. mótmæli ekki, að svo sé, að það sé alveg ósambærilegt við Dalahérað. — Hann nefndi það, að samgöngur mundu gersamlega lokast milli Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu og yrði því dýralæknir innifrosinn í Króksfjarðarnesi. Ekki er það nú álitlegt. En verður hann ekki innifrosinn fyrir norðan líka? Hvernig getur hann sinnt Vestur-Barðastrandarsýslu sitjandi á Ísafirði, frekar en hann getur, ef hann væri í Króksfjarðarnesi?

Ég nefndi áðan, að snjóbíll hefur fastar áætlunarferðir þessa leið, sem hv. þm. var að tala um að væri frosin. Það er rétt, hún er frosin, en snjóbíll fer yfir þetta frost og það í hverri viku og hefur gert í allan vetur.

Nei, ég vil ekki gera lítið úr erfiðleikum að komast yfir Þingmannaheiði að vetri til, það veit ég. En það eru bara allar þessar heiðar að vetri til lokaðar. Hvernig er Breiðadalsheiði? Yfir hana yrði sannarlega læknirinn að fara, ef hann ætti að fara vestur á Rauðasand. Og hann yrði að fara fleiri: Gemlufallsheiði, Hrafnseyrarheiði, Hálfdán, Mikladal og Skersfjall. Þarna eru sex heiðar í röð. Ætli einhver þeirra yrði ekki frosin?