14.03.1958
Efri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (1644)

138. mál, dýralæknar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá atriði, sem komu fram hjá hv. frsm. minni hl., sem ég vildi víkja að. Hann hefur gagnrýnt mjög þetta frv. og sagði m. a. um það, að ég mundi sjálfur ekki telja það til neinna bóta fyrir Vestur-Barðastrandarsýslu, ef ég hef heyrt þetta rétt.

Mér þykir nú alveg furðulegt að heyra þetta, að ég sé að flytja frv. til hagsbóta fyrir Vestur-Barðastrandarsýslu, sem ég telji sjálfur engar hagsbætur fyrir hana. Það er ekki líklegt, að svona liggi í þessu.

Hann segir líka og þeir í minni hl., að með þessu frv, sé verið að fara í öfuga átt við þá þróun, sem hafi átt sér stað, það sé verið að stækka dýralæknisumdæmi. Ég hélt, að það væri nú augljóst mál, að þegar verið er að flytja Vestur-Barðastrandarsýslu úr Ísafjarðarumdæmi í Dalaumdæmi, þá væri verið að minnka annað hérað alveg nákvæmlega jafnmikið og er verið að stækka hitt, svo að þetta held ég gangi upp hvað stærðina sjálfa snertir.

Annars virðist mér öll ræða hans byggjast á því, að hann gangi út frá því sem einhverjum sjálfsögðum hlut, að dýralæknir Dalahéraðs sitji í Búðardal, og telji, að hann sé innifrosinn í Króksfjarðarnesi eða þeim megin við Gilsfjörð, ef hann yrði þar. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvað hefur hann fyrir sér í því, að dýralæknirinn eigi að sitja í Búðardal, þó að engin breyting verði gerð á þessum l.? Hefur nokkur ákvörðun verið tekin um það, hvar væntanlegur dýralæknir eigi að sitja. Ég vil beina því til hæstv. landbrh., hvað hafi gerzt í því? Og ef þessi dýralæknir yrði nú kannske settur í Króksfjarðarnes, þrátt fyrir það þó að engin breyting yrði, hvað segir hann þá við því?

Nei, það má nærri geta, að þetta er ekki til óhagræðis Vestur-Barðstrendingum, að flutt er þetta frv., því að þá væru þeir ekki að biðja mig um að flytja það. Það þarf því ekki aðra til að dæma um það, hvort þeim er það til hagræðis eða óhagræðis, enda vita það allir, að þeir eru sama sem dýralæknislausir með því að hafa dýralækni á Ísafirði, ef hann kemur þá einhvern tíma þangað. Nei, það er verið að skapa hagræði fyrir hinn væntanlega dýralækni í Ísafjarðarumdæmi, um leið og þessi breyting yrði gerð. Það er ekki heldur verið að fara í neina öfuga átt með flutningi þessa frv. Það er aðeins verið að jafna aðstöðuna milli þessara tveggja héraða, og þó að það að sjálfsögðu hafi einhver óþægindi í för með sér fyrir hluta af Dalasýslu, þá hefur það að sama skapi þægindi í för með sér fyrir annan landshluta.

Hann taldi meira að segja, að ef dýralæknir yrði settur í Króksfjarðarnes eða þeim megin Gilsfjarðar, þá mætti telja dýralæknislaust í Dalahéraði. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ef hann yrði nú settur þar, þó að engin breyting yrði gerð á lögunum, og ef þeir eru dýralæknislausir í Dalasýslu, ef dýralæknir situr í Króksfjarðarnesi, hvað er þá um alla búendur Austur-Barðastrandarsýslu, ef dýralæknir situr í Dalasýslu? Eru þessir örðugleikar þarna á milli um samgöngur ekki alveg gagnkvæmir?

Hv. þm. gat þess, að þeir hefðu kosið að flytja dagskrártill. við þetta frv. Af hverju nefndu þeir það þá ekki í hv. landbn.? Ég veit ekki til, að þeir hafi minnzt á það einu einasta orði að flytja dagskrártill., og ekki flytja þeir hana núna. Hvað kemur til?

Hv. þm. talar um, að það væri nær að skipta Ísafjarðarhéraði og láta þá Vestur-Barðastrandarsýslu vera þar með og fjölga þar með dýralæknum. Ekki flytja þeir neina till. um það heldur.

Þá getur hann þess, að Vestfirðingar séu svo framúrskarandi menn, að þeir séu yfirleitt sjálfum sér nógir, þeir hafi t. d. engan landbúnaðarráðunaut og engan dýralækni, en þeir hafi nú t. d. fjóra sjálfmenntaða dýralækna. Ég skal ekki bera á móti því, að þeir séu margir hverjir vel gefnir, Vestfirðingar, og dugandi menn, en ekki hef ég séð neinn af þessum fjórum dýralæknum á Vestfjörðum. Ég hef heyrt getið um einn, sem ég hygg að muni vera kominn á níræðisaldur og fékkst einu sinni við lækningar, en ég held það hljóti að vera, að hann sé kominn um áttrætt, því að sonur hans, sem er hér í bænum, er um sextugt, eða rétt nálægt því, svo að það getur ekki skakkað mjög miklu, en að hann fáist við dýralækningar núna, það efast ég um, a. m. k. ekki á öllu svæðinu. Það getur verið, að það séu einhverjir fleiri, sem hafa hjálpað kú, sem kallað er, en mér þykir ólíklegt, að Dalamenn séu það á eftir öðrum, að þeir geri það ekki líka svona í viðlögum.

Hann nefndi mjólkursölu, hún væri engin í Austur-Barðastrandarsýslu. En ekki er það nú alveg rétt. Mjólkursala á sér stað á Reykhólum í Reykhólahreppi. Að mjólkursala sé í Dalasýslu, er ég ekkert að vefengja, en það er alveg eins í Vestur-Barðastrandarsýslu, og vegna mjólkursölunnar hafa þeir meira gagn af dýralækninum, ef hann situr í sýslunni, heldur en ef hann situr á Ísafirði. Af honum eru engin not þar af eðlilegum ástæðum vegna samgangna.

Þá drap hann hér á áskorun frá sýslunefnd Dalasýslu um dýralækni, sem hefði búsetu í Búðardal, en hins vegar hefði ekkert heyrzt frá Barðstrendingum fyrr en nú? Er það ekki alveg nóg að heyra það nú? Er það ekki alveg nóg, að þeir geri í vetur, bæði í austur- og vestursýslunni, samþykktir um að fá þessari breytingu komið á, eða eru það einhver rök í málinu, að þeir hafi ekki flutt fyrir svo og svo löngum tíma þessar till. sínar eða óskir?

Sem dæmi um það, hvað Dalamenn yrðu illa settir, ef þessi stækkun ætti sér stað, er það, að þeir mundu líklega verða að sækja dýralækni til Borgarness. Ja, er það nú alveg voðalegt fyrir Dalamenn að eiga að sækja dýralækni til Borgarness, þegar á það er að líta, að öll Vestur-Barðastrandarsýsla á að sækja sinn dýralækni norður á Ísafjörð, ef hann er þá nokkur til þar? Ég geri ráð fyrir, að það sé öllu hægara fyrir Dalamenn að sækja til Borgarness og alveg ólíku saman að jafna. Hinir mundu nú sennilega verða að sækja dýralækni alla leið til Reykjavíkur, ef þeir ættu að ná sér í lækni.

Loks gat hann þess eða gaf í skyn fyllilega, að það væri alveg óþarfi fyrir hv. Ed. að samþykkja frv., því að það yrði drepið í Nd. Ja, mér þykir hann fróður að geta sagt þetta svona alveg fyrir. Ég skal ekkert segja um það, hver verða afdrif þessa frv., þegar þangað kemur. En ekki get ég gert mér neina hugmynd um, hvort það verði drepið eða ekki drepið þar. (Gripið fram í.) Já, eða svæft. En að þm. skuli geta vitað þetta, ég kalla það merkilegt,

En hvernig er það, eiga þá þm. aldrei að flytja frv., ef þeir hafa hugmynd um, að það kunni að verða drepið í síðari deild? Er það stefna, sem þm. eiga að hafa. Ég fellst ekki á það, og ég flyt frv. eða till. hér í hv. deild alveg án tillits til þess, hvort horfur eru á, að það nái fram að ganga í síðari deild eða ekki.

Hann vitnar í umsögn yfirdýralæknis, sem fylgir prentuð hér með frv., sérstaklega þessi orð: „Sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, leysir því eigi erfiðleika þá, sem bændur í Vestur-Barðastrandarsýslu eiga við að etja.“ Þetta er rétt, þetta stendur í umsögn hans. Og það er líka alveg rétt hjá yfirdýralækni, að það leysir ekki vandann, m. ö. o.: það þurrkar ekki vandann út, þó að þetta verði gert. En hann segir fyrr í þessu áliti sínu, og það las hv. þm. ekki: „..Eins og samgöngum er nú háttað, mun auðveldara fyrir íbúa Vestur-Barðastrandarsýslu að ná til dýralæknis, er situr í Dalaumdæmi, heldur en dýralæknis í Ísafjarðarumdæmi, sem væntanlega hefur búsetu á Ísafirði, a. m. k. mun svo vera að sumri til og fram á haust, meðan vegir eru færir.“

Það er ekki hægt að neita því, að yfirdýralæknir sér fullkomlega kosti við þetta, þó að hann að sjálfsögðu taki hitt fram, að það leysi ekki allan vandan. Það segir sig alveg sjálft líka, en það er veruleg bót að því samt, og af því er frv. flutt, og af því hafa menn í bæði Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu óskað eftir því, að ég flytti það.