29.10.1957
Efri deild: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1695)

19. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Fjhn. þessarar d. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. nefndarinnar, hv. 4. þm. Reykv., hv. 2. þm. Árn. og ég, leggur til, að frv, verði samþ. óbreytt, en minni hl. leggur til, að það verði afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Þetta mál var rætt nokkuð við 1. umr., og þarf ég ekki að rekja það mjög ýtarlega hér. Meginefni þess er það, að fjmrn. verði veitt heimild til þess að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld á jarðborum, sem notaðir eru til að bora eftir gufu eða heitu vatni, eða tækjum til þeirra.

Eins og tekið er fram í grg. og rætt var hér við 1. umr., er hagnýting jarðhitans hið mesta hagsmunamál Íslendinga og sjálfsagt af opinberri hálfu að greiða fyrir því eftir föngum, að sá jarðhiti verði hagnýttur. Hitaveitur hafa verið gerðar fyrir nokkra kaupstaði, og nú er mikill áhugi manna fyrir að bora sem víðast eftir heitu vatni og gufu til þess að nota þá orku bæði til upphitunar og til raforkuframleiðslu og efnavinnslu, eftir því sem orka hrekkur til.

Grundvallarskilyrði þess, að hægt sé að hagnýta þessa orku sem bezt, er auðvitað, að tiltækir séu jarðborar til að bora eftir gufu og heitu vatni. Um einn slíkan bor varð samkomulag í fyrra milli ríkisstjórnar og Reykjavíkurbæjar að kaupa til landsins. Þetta er gufubor, sem fyrst og fremst er hugsaður til að bora eftir gufu á gufusvæðum, eins og Krýsuvík, Námaskarði, Hengli og víðar. Hér er um mikið og stórvirkt tæki að ræða, sem kostar hingað komið með núgildandi aðflutningsgjöldum rúmar 11 millj. kr.

Rökin fyrir því, að hér er farið fram á að veita ríkisstj. heimild til að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld af þessu, eru einkum þau, sem nú skal greina :

Í fyrsta lagi þykir það réttmætt og sjálfsagt, að ríkisvaldið stuðli að því, að unnt sé að eignast slík tæki og að þau verði ekki allt of dýr í stofnkostnaði og rekstri. Hér er ekki eingöngu um þann gufubor að ræða, sem nú er kominn til landsins í samlögum ríkis og Reykjavíkurbæjar, heldur eiga þar ýmis slík tæki eftir að fara, og um slík bráðnauðsynleg tæki þykir það óeðlilegt, að tekin séu mjög há opinber gjöld. Það er þannig um þennan gufubor, að opinber gjöld af honum eftir síðustu upplýsingum stjórnar fyrirtækisins munu vera um 3.5 millj., eins og ég gat um.

Mér virðist og okkur flm., að virkjanir jarðhita séu nægilega dýrar, þó að ekki sé aukið á þær með því að gera undirbúningstækin og rekstur þeirra miklu dýrari, en brýn þörf er á.

Í öðru lagi má geta þess, að það eru ekki aðeins þeir aðilar, ríkissjóður og bæjarstjórn Reykjavíkur, sem hér eiga hlut að máli. Þessi tæki verða notuð af ýmsum bæjar- og sveitarfélögum hér á landi, og vitanlega verður rekstrarkostnaður þeirra sumpart og að verulegu leyti miðaður við stofnkostnaðinn, þ. e. a. s. það verður í rekstrinum að reikna með eðlilegum greiðslum af stofnkostnaði, og þessi rekstur verður auðvitað þeim mun dýrari eða afnotagjöld borsins sem stofnkostnaðurinn er dýrari.

Með því að halda dauðahaldi í þessi gífurlega háu gjöld, opinber gjöld, er því verið að gera erfiðara fyrir alla þá aðila og öll bæjar- og sveitarfélög landsins, sem þurfa að nota slík tæki síðar, miklu erfiðara og dýrara, en þyrfti að vera.

Ég vil enn fremur geta þess í sambandi við umr., sem um þetta hafa farið fram, að þessi umræddi gufubor hefur stórhækkað í verði, fyrst og fremst af völdum Alþ. og ríkisstj., síðan sameignarsamningurinn var gerður milli þessara tveggja aðila í október í fyrra. Síðan í október í fyrra, þegar sameignarsamningurinn var undirritaður, hefur þessi gufubor hækkað í verði um tæpar 2 millj, kr., eða nánar tiltekið rúml. 1.7 millj. kr.

Ég nefndi það, að það eru ekki aðeins ríkissjóður og Reykjavíkurbær, sem hér eiga hlut að máli. Eitt fyrsta verkefnið, sem þessi bor á að sinna, verður borun á hinu mikla jarðhita- og gufusvæði í Krýsuvík, sem er í eigu og umráðum Hafnarfjarðarkaupstaðar. Varðandi þá orku, sem þar fæst, má að sjálfsögðu gera ráð fyrir, að það verði nálæg bæjar- og sveitarfélög, sem njóta góðs af henni, Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjavík o. fl. Og ef stofnkostnaður borsins er gerður hærri, en sanngjarnt mætti teljast með óhóflegum opinberum gjöldum, bitnar það að sjálfsögðu á þessum sveitarfélögum og að sjálfsögðu á öllum þeim, sem eiga að njóta þessarar orku eða hitans síðar. Það kemur fram á fleiri aðilum, því að næsta verkefni þessa mikla jarðbors, eftir að borað hefur verið í Krýsuvík, er Námaskarð í Þingeyjarsýslu, — það er gert ráð fyrir að bora þar — og má því gera ráð fyrir, að þetta skipti nokkru máli fyrir þá sýslu og kaupstað, sem þar er, og nálægar sveitir.

Ég þarf í rauninni ekki að telja fram frekar til áréttingar því, sem sagt var hér við 1. umr., rök fyrir þessu máli, en skal þó aðeins minnast á það, hvað komið hefur fram til að andmæla því, að það mætti veita þessa heimild til lækkunar á aðflutningsgjöldum, heimild, sem er samsvarandi við nær óteljandi heimildir í gildandi lögum.

Í gildandi tollskrá 1954 eru mjög margar, skipta mörgum tugum þær heimildir, sem eru til undanþágu á ýmiss konar nauðsynjatækjum og efnivöru, og enn hefur á þessu ári, 1957, verið bætt töluvert að tilhlutan núverandi ríkisstj. við þær undanþáguheimildir. Sú röksemd, að með þessu litla frv. sé verið að brjóta niður tollkerfi landsins, er því svo fjarri öllu lagi, að mig furðar, að henni skuli haldið fram hér í þingi af jafnmætum og hyggnum manni og frsm. minni hl. er.

Ég taldi hér upp nokkrar slíkar undanþágur við 1. umr. þessa máls og þarf ekki að telja það frekar, þær eru nefndar m. a. í grg. þessa frv. Í þeim lögum, sem samþ. voru um breytingar á tollskrárlögum á síðasta þingi að tilhlutan núverandi ríkisstj., er bætt við fjölda undanþáguheimilda, m. a. að lækka eða fella niður aðflutningsgjöld af hvalveiðaskutlum og hvalveiðabyssum og skotfærum til þeirra og veiðarfærum, svo að aðeins lítil dæmi séu nefnd, vefnaðargarni úr baðmull og gerviefnum, ef viðtakandi vörunnar rekur dúkaverksmiðju, og þannig mætti lengi telja. Sem sagt, það eru ekki aðeins óteljandi undanþáguheimildir í gildandi tollskrá frá 1954, heldur var að tilhlutan núv. ríkisstj. og núv. þingmeirihluta bætt riflega við þær undanþáguheimildir, án þess að þá kæmu orð um það, að verið væri að brjóta niður tollakerfi þjóðarinnar, þó að ein og ein undanþáguheimild væri veitt. Nei, sú röksemd er tæpast svaraverð.

Önnur röksemd er sú, að ríkissjóður megi ekki missa þær tekjur, sem þessi aðflutningsgjöld eru af jarðborum. Ríkisstj. sjálf hefur svarað og hrakið þá röksemd, því að hún býðst sjálf til þess að taka þennan bor og þar með, ef hún er ein eigandi, fær hún að sjálfsögðu ekki neinar greiðslur, tollagreiðslur eða aðflutningsgjöld, eins og hún ætlast til og mun fá að sjálfsögðu frá þeim aðilum, sem eru sameigendur hennar. M. ö. o.: um leið og ríkisstj. segir og stjórnarflokkarnir í öðru orðinu, að ríkissjóður verði að fá þessa peninga, þessar tekjur, þá býðst hún í hinu orðinu til þess að gerast einn eigandi að þessu með þeim afleiðingum, að hún fær engar tekjur. Að vísu geri ég ráð fyrir, að ríkisstj. muni, ef hún væri einn eigandi þessa gufubors, reikna í endurgjaldi eða leigugjaldi fyrir borinn til annarra með stofnkostnaði einnig þessa tolla. En þó að hún tæki þannig frá sveitarfélögunum þessa tolla á löngum tíma, er öllum ljóst, að ef hún væri ein eigandi borsins, mundi hún ekki fá þetta fé a. m. k. að svo stöddu.

Þessari röksemd, að ríkissjóður hafi ekki efni á því og megi ekki missa þessar tolltekjur, þurfi að fá þessa peninga strax, hefur ríkisstj. sjálf svarað og hrakið það eftirminnilega.

Inn í þessar umræður hefur blandazt það, að annar flm. þessa frv., hv. 1. landsk., hefur reynt eftir megni að ljá andstæðingum málsins nokkrar röksemdir til þess að vera á móti því, og í nál. minni hl. nefndarinnar er sumt af þeim röksemdum hv. flm. tekið upp. Ég verð nú að segja, að ég býst við, að það sé allt að því einsdæmi, að flm. máls sýni þau heilindi í stuðningi við það að gefa andstæðingum málsins þannig vopn í hendur.

En hann um það, af hverjum heilindum hann stendur að þessu máli. Í nál. minni hl. er rætt um það, að bágborinn fjárhagur Reykjavíkurbæjar eigi að teljast ein af röksemdunum fyrir því að lækka þessi aðflutningsgjöld. Ég vil taka það skýrt fram, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur einróma skorað á Alþingi og ríkisstj. að lækka þessa tolla. En það er ekki byggt á þeirri röksemd, sem hv. 1. landsk. þm. reynir að hampa hér, að fjárhagur Reykjavíkurbæjar sé svo bágborinn. Að vísu er rétt að taka það fram, að vegna aðgerða ríkisstj. á ýmsum sviðum er hjá bæjarsjóði Reykjavíkur örðugra um handbært fé nú, en ella hefði verið með venjulegum hætti, ef þessar aðgerðir ríkisstj. hefðu ekki komið til. Hitt er auðvitað fjarstæða að ætla að tala um bágborinn fjárhag bæjarsjóðs Reykjavíkur sem rök fyrir þessu máli. Bæjarsjóður Reykjavíkur á, eins og ég gat hér um við 1. umr., milli 2 og 3 tuga milljóna hjá ríkissjóði, sem ríkisstj. hefur ekki fengizt til að standa skil á, og ef Alþingi neitar um lækkun eða undanþágu á þessum aðflutningsgjöldum, mun Reykjavíkurbær að sjálfsögðu greiða þessa tolla og aðflutningsgjöld með skuldajöfnun við ríkissjóð, þannig að sá fjárskortur eða bágborni fjárhagur, sem hv. 1. landsk. leyfir sér að tala hér um, er náttúrlega engin ástæða í þessu máli.

Það hafa margar leiðir verið reyndar í þessu efni, til þess að svo þurfi ekki lengur að standa að þetta stórvirka og dýra tæki skuli haft í haldi og lokað inni nú hátt á annan mánuð. Það hefur verið reynt að fá nokkra liðkun á aðflutningsgjöldunum. Ríkisstj. hefur neitað því, og Alþingi á nú eftir að skera úr um það efni. Það hefur verið boðið fram að setja fulla tryggingu, bankatryggingu, fyrir greiðslu þessara aðflutningsgjalda, meðan beðið væri eftir úrskurði Alþingis. Frá fjmrh. er þvert nei við því að losa þetta stórvirka tæki úr því haldi, sem hann hefur það í, nema beinharðir peningar út í hönd komi til. Ég verð að segja, að þetta er í rauninni alveg einstæð framkoma af öðrum eiganda slíks stórvirks tækis, og ég ætla, að t. d. ef einhver gjöld hefðu átt að greiðast, svo að nokkru næmi, af þessu tæki, t d. til bæjarsjóðs Rvíkur, söluskattur, sem sveitarfélögin ættu að fá, eða annað, hefði engum bæjarfulltrúa í Reykjavík dottið í hug að stöðva þetta stórvirka tæki af þeim ástæðum. Hér er alveg um einstæða óbilgirni og stirfni af hálfu hæstv. ríkisstj, að ræða. Það var henni auðvitað gersamlega útlátalaust að láta leysa borinn úr haldi, strax þegar hann kom hingað, því að ríkisstj, gat haft alveg fullar tryggingar fyrir skilvísri greiðslu á þessum aðflutningsgjöldum af hálfu Reykjavíkurbæjar, strax þegar endanlega væri úr því skorið, hver þau aðflutningsgjöld ættu að vera.

Varðandi þær röksemdir, ef röksemdir skyldi kalla, sem bæði í nál. minni hl. greinir, málgögn stjórnarflokkanna hafa tönnlast á, hæstv. fjmrh. líka, að verið sé að brjóta niður tollakerfi landsins með þessu, má minna á það, að hæstv. núv. fjmrh. hefur sjálfur ekkert verið feiminn við það að bera fram ýmsar tillögur um lækkanir og undanþágur. Við skulum segja t. d., að fyrir nokkrum árum flutti hann sjálfur till. um að undanþiggja t. d. vélbáta aðflutningsgjöldum. Annað skiptið ekki fyrir löngu flutti hann var fjmrh, þá sjálfur — till. um það að endurgreiða aðflutningsgjöld af minkum, sem fluttir hefðu verið frá Kanada. Ég veit ekki, hvort hann hefur verið að gera þá sjálfur tilraun til að brjóta niður sitt eigið tollakerfi. En ég mundi nú ætla, að þeir jarðborar eða þessi nauðsynlegu tæki til hagnýtingar jarðhitans, séu þó öllu þýðingarmeiri fyrir þjóðfélagið í heild heldur en till. fjmrh. fyrir nokkrum árum um að fella niður aðflutningsgjöld af minkum. Ég vænti þess, að hv. þdm. fallist á það, að sanngjarnt sé og réttmætt vegna þjóðarhagsmuna að veita heimild til að lina nokkuð á þeim háu gjöldum, sem af þessum nauðsynlegu tækjum eru nú tekin.