29.10.1957
Efri deild: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (1702)

19. mál, tollskrá o. fl.

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. talaði fyrir þessu frv. við 1. umr. Ég tók til máls á eftir og tók það fram þá, að ég væri í höfuðatriðum honum sammála í því, sem hann þá sagði og voru rök fyrir því, að þetta frv. hlyti samþykki hér á Alþingi. En ég bætti dálitlu við, þ. e. a. s. ég brá upp annarri hlið á þessu máli í því skyni að styrkja og styðja aðstöðu þeirra, sem berjast fyrir málinu hér á Alþingi.

Fyrir þetta virðist hv. 6. þm. Reykv. kunna mér litlar þakkir. Hann virðist vera mér mjög ósammála í því, sem ég flutti málinu til stuðnings. En skyldi það nú vera svo í raun og veru, þegar betur er að gáð? A. m. k. viðurkenndi hann í sinni fyrstu ræðu nú í dag, að bæjarsjóður Reykjavíkur ætti í nokkrum erfiðleikum um greiðslur nú um stundarsakir. En nægir þetta ekki til þess að bera það fram sem ástæðu, sem rök í málinu, að Reykjavíkurbær á um stundarsakir í greiðsluörðugleikum? Ég sagði þetta einnig í minni ræðu við 1. umr. málsins, en ég gat þess líka, að ég væri hræddur um, að þessir greiðsluörðugleikar bæjarsjóðs væru meira en stundarfyrirbrigði.

Af þessu ræð ég það, að hv. 6. þm. Reykv. muni mér ekki mjög svo ósammála um það, að hið háa Alþ. komi hér til stuðnings bæjarfélaginu einmitt einnig af þessum ástæðum. Þess vegna dró ég þessa hlið fram við 1. umr., því að ég taldi, að það mundi styðja málið, en ekki spilla fyrir því í augum hv. þdm. Það er nefnilega engin nýlunda, að sveitarfélög leiti til Alþ. um aðstoð í ýmsu formi. Ég fyrir mitt leyti tel það sjálfsagt, að þegar sveitarfélag þannig leitar til Alþ., þá sé rétt að athuga slíkt mál gaumgæfilega og með velvild og helzt, ef unnt er að verða við beiðninni um aðstoð. Það er máske óvenjulegt, að höfuðborgin þurfi að leita til hins háa Alþ. um slíka aðstoð. En ef það kemur fyrir, þá ber hv. alþm. að taka það líka til greina og athuga með sömu velvild og um hvert annað sveitarfélag væri að ræða.

Ég vil því enn og aftur mælast til þess við hv. þdm., að þeir athugi málið vel áður en þeir greiða atkvæði á móti frv., og að þeir einmitt taki þessa hlið málsins með í sínu fullnaðarmati.