26.03.1958
Sameinað þing: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2274)

51. mál, hafnargerðir og endurskoðun hafnarlaga

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti, Fjvn. hefur haft til athugunar till. til þál. um framkvæmdaáætlun um hafnargerðir og endurskoðun hafnarlaga á þskj. 83.

Hún hefur leitað um till. þessa álits hafnarog vitamálastjóra, og liggur fyrir umsögn hans um málið. Er sú umsögn jákvæð, þannig að hann telur mjög mikilvægt og æskilegt, að sú athugun fari fram, sem gert er ráð fyrir í till., og efnislega leggur því fjvn. til að nánar athuguðum öllum atriðum málsins, að till. verði samþykkt með smávægilegum breytingum.

Áður en ég geri nánar grein fyrir málinu efnislega, þykir mér rétt að taka það fram, sem kemur fram að vísu nokkuð í nái. fjvn. á þskj. 321, að allshn. Sameinaðs þings hafði samráð við fjvn. í tilefni þess, að til þeirrar nefndar var vísað annarri till., sem snertir einn þátt þessa máls, þ.e.a.s. till. á þskj. 41 um endurskoðun laga um hafnarbótasjóð. Þótti allshn. eðlilegt, að þessi mál væru tekin sameiginlega til meðferðar, og þar sem sú till. fjallaði aðeins um einn þátt málsins, þótti eðlilegt að athuguðu máli af hálfu þessara nefnda beggja að sameina tillögurnar, á þann hátt, að efnislega var gert nokkru fyllra ákvæði till. á þskj. 83 um framkvæmdaáætlun um hafnargerðir varðandi það atriði, er snerti endurskoðun laganna um hafnarbótasjóð sérstaklega. Ber því að líta svo á, að till. fjvn, í þessu efni feli í sér afgreiðslu á báðum þessum tillögum.

Við flutning málsins, þ.e.a.s. þáltill. á þskj. 83 og enn fremur till. á þskj. 41, var gerð ýtarleg grein fyrir nauðsyn þess máls, sem hér er um að ræða, þ.e. þess, að leitazt væri við að finna traustari grundvöll, en nú er undir hafnarframkvæmdir í landinu, bæði hvað snerti áætlun um nauðsynlegar hafnarbætur og enn fremur hinn þáttinn, sem er fjáröflun til framkvæmdanna.

Svo sem fjvn. leggur til að till. verði afgreidd, er gert ráð fyrir því, að þessi áætlun verði miðuð við 10 ár, Hér er að sjálfsögðu um að ræða mjög miklar framkvæmdir, því að víða kreppir skórinn að og þarfirnar fyrir bætt hafnarskilyrði víðs vegar um landið eru mjög miklar. Það sjónarmið er látið fylgja, að fyrst og fremst skuli við það miða, að framkvæmdirnar geti stuðlað að öruggri og aukinni útflutningsframleiðslu.

Hafnirnar hafa vitanlega tvíþættu hlutverki að gegna: Annars vegar að vera vöruflutningahafnir varðandi þær nauðsynjar, sem að landinu þarf að draga og hverju einstöku byggðarlagi, og í því sambandi einnig að sjálfsögðu útflutningshafnir, en í öðru lagi, að þær geti veitt fullnægjandi aðstöðu til útgerðar frá þeim stöðum, þar sem sá atvinnuvegur helzt er stundaður á landinu. Þessi sjónarmið er að sjálfsögðu eðlilegt að höfð séu í huga, og vitanlega verður að leggja á það höfuðáherzlu, að ófullnægjandi hafnir séu því ekki til hindrunar, að hægt sé að stunda útflutningsframleiðslu til sjávarins, eftir því sem mögulega er unnt.

Þetta er annar þáttur málsins að láta gera þessa framkvæmdaáætlun, sem miðist við 10 ár. Hinn þátturinn er svo sá, að leitað verði eftir úrræðum til þess að afla fjár til framkvæmdanna og þá m.a. í því sambandi athugað sérstaklega, hvort ekki muni tiltækilegt að efla hafnarbótasjóð á þann hátt, að hann geti sinnt þessu hlutverki, og enn fremur, að gerð verði í sambandi við framkvæmdaáætlunina sérstök athugun á skiptingu kostnaðar við hafnargerðirnar milli ríkis og sveitarfélaga, því að það er vitanlega eitt mikilvægt atriði í þessu máli að búa þannig um hnútana, að fjárhagslega sé sæmilega fyrir þessum málum séð. Og það verður að teljast nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig þessi mál verði leyst á þann hátt, að heilbrigt geti talizt, þ.e.a.s., að hluti sveitarfélaga verði þar ekki gerður stærri en svo, að sveitarfélögin geti með sómasamlegu móti undir honum risið. Það er vitanlega algerlega óheilbrigt, ef í ríkari mæli verður farið inn á þá braut, sem menn of mikið hafa neyðzt inn á nú þegar, að ríkið taki að sér að greiða ríkisábyrgðarlánin fyrir hafnirnar. Slíkt er mjög óheilbrigt, og þarf að byggja þessa kostnaðarskiptingu upp á þann hátt, að fullkomlega sé hægt að ætlast til þess, að sveitarfélögin geti staðið undir sínum hluta.

Það er bent á það af vitamálastjóra, að eitt það atriði, sem sérstaklega mæli með því, að framkvæmdaáætlun sem þessi sé gerð, sem hann telur að vísu, að muni taka nokkurn tíma, sé það, að mikilvægt sé að fá sem allra fullkomnastar tæknilegar athuganir á öllum aðstæðum varðandi hafnargerðir á hverjum stað, og gera sér grein fyrir því sem allra bezt fyrir fram, hvernig aðstæðurnar eru, því að víða þarf að gera margvíslegar athuganir í þessu sambandi.

Þetta er oft og tíðum erfitt við að fást, nema því aðeins að, að þessum málum sé unnið á skipulagsbundinn hátt, Og með hliðsjón af því mikla verkefni, sem hér er fyrir höndum, og mikilvægi þess fyrir þjóðarheildina, að reynt verði að ýta þessum hafnarmálum áleiðis, svo sem kostur er, þá telur fjvn. rétt að mæla með samþykkt tillögunnar eða réttara sagt tillagnanna, með þeirri breytingu, sem um getur í nál. á þskj. 321.