14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

73. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að leggja mikið til þessara mála, en af því að hefur dálítið verið heilsað upp á þann flokk, sem ég tilheyri, þykir mér þó rétt að segja örfá orð.

Hv. þm. Vestm. (JJós) taldi þessu frv. sérstaklega stefnt á Sjálfstfl. til að gera honum bölvun og til að hindra kjósendur hans í að geta kosið. Hv. þm. V-Sk. (JK) taldi aftur á móti, að þessu frv. væri stefnt gegn Reykvíkingum öllum, til þess að gera þeim erfitt fyrir að kjósa. Ég fæ ekki skilið þessar staðhæfingar, enda var ekki reynt að færa nokkur rök fyrir slíku.

Það hefur gengið sá söngur undanfarið, aðallega í blöðum Sjálfstfl., stundum líka í blöðum annarra flokka, að Framsfl. væri óvinur Reykjavíkur, og það er auðséð, að nú á að herða mjög þann áróður, vegna þess að kosningar standa fyrir dyrum. Ef þetta hefði við nokkuð að styðjast, hlyti það að byggjast á því, að Sjálfstfl. notaði allra flokka mest það, sem hér er bannað, Það hlyti að byggjast á því, en ég hef engar sannanir fyrir því, að svo sé, Ég álít, að hér séu lagðar vissar hömlur á áróður kjördaginn og á kjörstaðnum á alla flokka jafnt, en ekkert á Sjálfstfl. sérstaklega, og það, sem hv. þm. Vestm. er að tala um, að það sé ekki nema lítið bíl þar á milli að leyfa yfirleitt ekki nema einn lista og banna allan áróður, þá er þetta auðvitað hrein fjarstæða. Skv. þessu frv., þó að það yrði að l., má hafa allan áróður í frammi, bara ekki á kjörstaðnum, og það hefur verið í l. frá upphafi vega, að kosningar voru hér, að það má ekki hafa áróður í frammi beinlínis á kjörstaðnum og við kosningaathöfnina sjálfa.

Ég er það gamall og hv. þm. Vestm. einnig, að ég var á kjörfundi í seinasta skiptið, sem kosið var upphátt, menn urðu að segja upphátt, hvern þeir kysu fyrir alþm. Að vísu var ég ekki kjósandi þá. Í næstu kosningalögum var þetta bannað, og þótti alveg sjálfsagt að banna það, til þess að menn yrðu síður beittir þvingunum, og þetta frv. gengur nákvæmlega í sömu átt og þegar það var bannað að kjósa upphátt. Mér skilst, að það miði eingöngu að því, að fólk sé ekki beitt þvingunum og sízt af öllu á kjörstaðnum sjálfum eða vitneskja sú, sem fæst við kosningaathöfnina sjálfa, sé ekki notuð til þess að þvinga menn til að kjósa, sem ekki vilja kjósa.

Ég var nú einu sinni hér í Reykjavík, þegar bæjarstjórnarkosningar fóru fram. Þá ætlaði húsfreyjan í húsinu, sem ég var í, ekki að kjósa, og það kom maður seint um kvöldið, og það vildi svo til, að ég hitti hann fyrstur að máli. Hann sagði: Þessi kona á eftir að kjósa. — Ég sagði henni, að hér væri kominn maður til að sækja hana, og hún vildi ekki fara. Svo kom annar, — ég er ekki viss um, að hann hafi verið af sama flokki, — og vildi fá hana með sér, og hún vildi ekki fara. Svo kom sá þriðji og vakti bara upp. Það stóð nú svo á, að ég átti þægilegast með að fara til dyra og gerði það, og þá var þar maður, sem segir: Ja, frúin á eftir að kjósa, hún verður að koma. — Hann ætlaðist til, að hún færi upp úr rúminu til þess að koma og kjósa. Hann var víst af sama flokki og sá, sem fyrst kom. Ég held, að það sé ekki neitt í einræðisátt, þó að þess konar ágangur sé bannaður. Þess vegna er þetta bara fjarstæða, sem ég er alveg hissa á að jafnreyndur þm. og hv. þm. Vestm. og prúður maður venjulega, skuli taka sér í munn, að með þessu frv. sé stefnt í þá átt að innleiða hér einræði og það, að ekki megi kjósa nema einn lista, því að vitanlega gilda þessi l. fyrir alla lista jafnt og alla frambjóðendur jafnt, og það má hver vinna eins og hann getur að framgangi síns lista utan kjörfundar, alveg eins og áður.

Mönnum þykir það m.a. skerða rétt kjósenda, að kjörfundi á að vera lokið kl. 11 í staðinn fyrir, að eftir núgildandi l. er það auðvitað kl. 12, sem kjörfundi á að vera lokið. En það stendur í frv., að þó megi þeir kjósa, sem þá eru komnir á kjörstað. Ákvæðið í frv. þýðir m.ö.o. það, að það á að tryggja, að kjörfundi geti orðið lokið kl. 12, því að ef ekki er lokað kjörklefum fyrr en kl. 12 og þá bíða menn í anddyrinu til þess að kjósa, þá verður annaðhvort að gera að reka þá út eða láta þá kjósa á öðrum degi en kjördegi. Ég hef heyrt, að það hafi hvað eftir annað átt sér stað hér í Reykjavík, að kosið hafi verið fram eftir nóttu, Það hygg ég skv. núgildandi l. sé bara hreint og beint ólöglegt, og ég efast um, að þm. Reykv. séu í raun og veru löglega kosnir þm., því að það er víst, að alþingiskosningin hér í Reykjavík, fór fram lengur en kjördaginn, sem átti að kjósa. (Gripið fram í.) Ja, það er nú búið að taka kosninguna gilda, svo að það verður ekki við því gert héðan af, en það hefði alveg eins mátt hreyfa þessu atriði, þegar rætt var um gildi kosninga síðast, eins og sumu öðru, sem hreyft var. Það verður ekki við því gert, sem búið er að gera.

Ég skil ekki, hvernig þetta á að bitna sérstaklega á Reykjavík, eins og hv. þm. V-Sk. hélt fram. Hér er að vísu meiri mannfjöldi, en annars staðar. En það er kosið hér í mörgum kjördeildum, og það er ekki annað, en hafa kjördeildir það margar, að allir kjósendur geti kosið á þeim rúma tíma, sem þeir hafa til þess. Ég hygg, að sá, sem ekki er búinn að kjósa kl. 11, hafi ekki mikinn áhuga á því að kjósa, og ef hann kýs eftir þann tíma, þá mun það vera oftast nær þannig, að hann er þá teymdur til þess.

Menn geta haft skiptar skoðanir um þetta frv. og þótt það óþarfi o.s.frv., gert brtt, og allt þess háttar, og um það er ekkert að segja. Mundi ég ekki blanda mér í það. En að vera með brigzlyrði út af því, að hér sé stofnað til einræðis og hér eigi að ofsækja einn sérstakan flokk o.s.frv., það finnst mér heldur langt sótt. Þá er, finnst mér, betra að láta blöðin um þess konar áróður og þá ef mönnum sýnist að hafa hann í frammi í hv. Nd., en mér finnst það ekki eiga við að hafa þess konar áróður í frammi hér í hv, Ed.