30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2340)

46. mál, jafnlaunanefnd

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þáltill. þá, sem hér er til umr., til athugunar og leitað um hana álits Alþýðusambands Íslands, Sambands starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsambands bænda, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna.

Öll þessi samtök hafa tjáð sig meðmælt því, að till. nái fram að ganga.

Þá hafa nefndinni einnig borizt áskoranir, m.a. frá Kvenréttindasambandi Íslands og fleiri samtökum kvenna, sem styðja þessa till.

Að athuguðu máli leggur allshn. einróma til, að till. verði samþ., en tveir nm. hafa þó undirritað nál. með fyrirvara, en sá fyrirvari mun þó ekki snerta aðalatriði málsins.

Eins og alkunnugt er, samþ. Alþingi á s.l. ári þál. um fullgildingu jafnlaunasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar af Íslands hálfu. Með þeirri samþykkt er íslenzka ríkið skuldbundið til að stuðla að því innan þeirra takmarka, sem hérlendar aðferðir við ákvarðanir launataxta setja, að reglan um jöfn laun karla og kvenna við jafnverðmæt störf nái til alls starfsfólks í landinu.

Nú er það svo, að nokkuð þykir skorta á, að hér sé til staðar heildaryfirlit um það, hvar við stöndum í þessum efnum. En slíkt yfirlit verður þó að teljast eitt af grundvallarskilyrðunum til þess, að viðhlítandi ráðstafanir verði gerðar til þess að tryggja fullkomið launajafnrétti. Til þess að slíkt heildaryfirlit fáist, er nauðsynlegt að uppfylla ákvæði 3. gr. jafnlaunasamþykktarinnar, en þar segir: „að þar sem slíkt mundi greiða fyrir því, að ákvæðum samþykktarinnar sé framfylgt, skal gera ráðstafanir til þess að koma á óvilhöllu mati á störfum, sem byggjast á því, að metin sé sú vinna, sem inna skal af hendi.“ Varla orkar tvímælis, að slíkt mat sem þarna er gert ráð fyrir og raunar gert að skyldu mundi greiða fyrir ráðstöfunum til aukins launajafnréttis. Það mundi t.d. taka af allan vafa um það, hvort eða að hve miklu leyti starfsfólki hins opinbera er mismunað þrátt fyrir launalög, sem kveða á um jafnrétti kynjanna, en það er álit kvennasamtakanna og að ég held einnig Sambands starfsmanna ríkis og bæja, að konur séu í ýmsum tilfellum beittar órétti í launagreiðslum hjá ríkinu í skjóli rangs mats á störfum þeirra og einnig í skjóli úreltra og rangra starfsheita.

Að samanlögðu virðast ákvæði þeirrar till., sem hér er rætt um, um nefndarskipun til þess að athuga, að hve miklu leyti konum og körlum raunverulega eru greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf hér á landi, jafnt hjá því opinbera sem í hinum ýmsu starfsgreinum í atvinnulífinu, og til að gera till. um ráðstafanir til að koma fram launajafnrétti, vera eðlilegt framhald og rökrétt afleiðing af fullgildingu jafnlaunasamþykktarinnar á s.l. ári, og beri því að samþ. þessa till.