17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

73. mál, kosningar til Alþingis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Sjálfstæðisflokksins hafa nú fundið ýmislegt að þessu frv., sem hér er til umræðu, m.a. það, að ef það yrði að lögum, yrði erfitt fyrir flokkana og kosningaskrifstofur þeirra að fylgjast með því á kjördegi, hverjir hefðu kosið og hverjir ekki. Þegar einn af þeirra hv. þm, var að tala um þetta í ræðu sinni hér í dag, að það væru erfiðleikar á að vita það, hverjir væru búnir að kjósa, þá varpaði ég fram spurningu í fjórum orðum, sem var svona: Hverjum kemur það við? Ég fékk ekki svar við henni þá, en nú nýlega, þegar hv. 1. þm. Reykv. minntist á þessa spurningu mína, vonaðist ég eftir að fá nú svar við henni, en því var ekki að heilsa. Spurningunni er ósvarað enn. Ég veit ekki til þess, að það komi mér neitt við, t.d., hvort hv. 1. þm, Reykv. fer að kjósa á kjördegi eða ekki, og ég sé ekki, að það komi honum við, hvort ég nota minn atkvæðisrétt eða ekki. Ég fæ heldur ekki séð, að það komi mér við, hvort einhverjir kjósendur í mínu kjördæmi sitja heima eða fara á kjörstað, það er þeirra einkamál, og ég held, að sama máli gegni með Reykvíkinga og aðra landsmenn, hvar sem þeir eru búsettir.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði mikið í sinni ræðu um fyrirgreiðslu og fyrirgreiðslustarfsemi af hálfu flokkanna í kosningum, Hann margendurtók þetta, Það fer ekki fram hjá þeim, sem hafa verið hér staddir í Rvík t.d. einhvern tíma, þegar kosningar hafa farið fram, að þessi fyrirgreiðsla er mikil. Það hefur verið ákaflega mikið af bifreiðum á ferð um göturnar með ýmiss konar flokksmerkjum og oft alls konar veifum þar að auki, og ég held, að engum geti blandazt hugur um það, að allt heilbrigt fólk, sem getur komizt á kjörstað, hafi möguleika til þess að ljúka því af, fyrir venjulegan háttatíma, ef það kærir sig um að nota sinn atkvæðisrétt, með allri þeirri fyrirgreiðslu, sem í té er látin að deginum. En þetta hefur ekki þótt nægja, því að þess eru mörg dæmi, að eftir að komið hefur verið fram á nótt, hefur verið komið heim á heimili fólks og það jafnvel rifið upp úr svefni úr rekkjum sínum og svo hart að gengið, að það hefur fengizt til að koma á kjörstað, þó að það hefði ekki áður ætlað sér það, og notaðar ýmsar vafasamar aðferðir við þessa smölun. Og ég held, að það sé ekki of sterkt að orði kveðið, að þessi starfsemi öll sé ákaflega óviðkunnanleg og megi hverfa, og þarna er áreiðanlega ekki um að ræða fyrirgreiðslu við einstaka kjósendur. Það er þá verið að greiða fyrir einhverjum öðrum með slíkri starfsemi.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á mitt kjördæmi og var að tala um kjósendafjölda þar o.s.frv., og í þeim kafla ræðunnar fór hann að tala um, að það gæti nú verið erfitt fyrir fólk, ef það væri einn aðili, sem réði yfir farartækjum –manni skildist, að þá gætu orðið örðugleikar á því að komast á kjörstað, ef það væri einn aðili, sem réði yfir farartækjum, og hv. 5. þm. Reykv., sem talaði hér næst á undan mér, fór að tala um þetta líka, þann háska, ef eitthvert eitt fyrirtæki réði yfir samgöngutækjum. Þetta sýnir ákaflega mikinn ókunnugleika þessara hv. þm., ef þeir halda það virkilega, að það sé þannig í ýmsum sveitakjördæmum t.d., að fólk komist ekki á kjörstað, nema ef til vill kjósendur eins ákveðins flokks, vegna þess að það sé einn aðili, sem ráði yfir samgöngutækjum. Ég held, að það sé ákaflega viða í sveitum landsins, að það sé samvinna um það milli frambjóðenda að greiða fyrir kjósendum að komast á kjörstað með því að láta bifreiðar vera í förum um sveitirnar, en auk þess er svo það, að í flestum sýslum landsins skipta nú bifreiðar hundruðum, og fjöldi manna á slík tæki og þarf ekki að vera upp á neinn annan kominn með að komast á kjörstað.

Þeir, sem tala um örðugleika af því, að það vanti farartæki, auglýsa aðeins vanþekkingu sína á þessum hlutum, eins og nú er ástatt.

Hv. 1. þm. Reykv. færðist mjög í aukana, þegar hann fór að ávarpa mig og minnast á mitt kjördæmi. Hann gerði sér ferð þangað í júnímánuði 1956, skömmu fyrir kosningar, og boðaði þar fund, til þess að menn þar og einkum flokksbræður hans ættu kost á að sjá hann og heyra hans mál. Hann hafði ekki komið þar áður, a.m.k. ekki á slíkan fund, svo að ég viti til, nýlega, en einhvern tíma á sumarhátíð eða árshátíð þeirra áður. Í þessum kosningum, 1956, varð útkoman sú þar, að það varð miklu meiri munur á atkvæðatölum flokkanna heldur en áður hafði verið, þ.e.a.s. atkvæði, sem Framsfl. hafði fram yfir Sjálfstfl., voru margfalt fleiri 1956, en næst áður. En Bjarni kom heldur ekki þangað í fyrra skiptið.