27.11.1957
Sameinað þing: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (2780)

55. mál, elli- og örorkulífeyrir

Flm. (Jóhanna Egilsdóttir):

Herra forseti. Till. sú á þskj. 87, sem ég hef leyft mér að flytja og nú liggur hér til umræðu, er það auðskilin hverjum manni, að ekki þarf um hana langa grg. En þar sem nauðsyn hefur þó til þess borið að vekja athygli hv. alþm. á því, hve naumt er skammtað elli- og örorkulifeyrisþegum, ætla ég að leyfa mér að bæta nokkrum orðum við þá stuttu grg., sem á þskj. er.

Eins og allir vita, tók nokkuð mörg ár að ræða og undirbúa tryggingarlöggjöfina, og síðan hún kom fyrst til framkvæmda, 1936, hefur hún verið endurskoðuð hvað eftir ann- að og eðlilega gerðar á henni ýmsar breytingar, eftir því sem reynslan hafði leitt í ljós að nauðsynlegt væri. Með till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er aðeins gert ráð fyrir endurskoðun um almannatryggingar í því skyni, að hækkaður verði elli- og örorkulífeyrir, og þó að fyrir liggi nú fleiri tillögur um endur- skoðun þessara laga í öðrum greinum, sem hv. Alþ. mun væntanlega fjalla um og afgreiða á jákvæðan hátt, mun ekkert brýnna, en bæta kjör gamla fólksins og öryrkjanna.

Tryggingarnar voru ræddar oft og rækilega innan verkalýðsfélaganna og í fulltrúaráðum þeirra, meðan verið var að skapa almenningsálitið og auka skilning á þeirri nauðsyn að létta lífsbaráttuna hjá þeim, sem lasburða voru í þjóðfélaginu. Ég man eftir þeim mörgu, sem létu þetta mál til sín taka, rökræddu það og fluttu till. um, hvernig bezt mundi að leysa vandann. Þeirra á meðal voru margir verkamenn og verkakonur, sjómenn og iðnaðarmenn, sem höfðu árum eða áratugum saman starfað í sínu stéttarfélagi. Voru sum farin að slitna og nálgast elliárin. Þetta var fólk, sem þekkti margs konar órétt í þjóðfélaginu, fólk, sem hafði barizt harðri lífsbaráttu, mætt mörgu misjöfnu og þekkti bæði af sögu og reynd, hve ógeðfelld ganga það var að sækja framfærslueyri til sveitarsjóðsins. Þeim greiðslum fylgdi áður fyrr ekki aðeins skerðing mannréttinda, heldur og særandi og lítilsvirðandi ummæli og oft viðmót kalt og hrokafullt. Það var því ekkert undarlegt, þó að þetta fólk gerði sér vonir um að losna við það angur, sem fylgdi sveitarstyrknum.

Allir þrá öryggi um sina lífsafkomu og ekki sízt þegar aldurinn færist yfir og starfskraftarnir þverra. Þá vex óttinn við skortinn. Sjálfsbjargarmöguleikarnir hafa þá minnkað.

Þetta fólk, sem ræddi fyrst um tryggingarnar, þekkti vel, hvað það var að hafa lítið á milli handanna. Það gerði ekki kröfu um mikinn eyðslueyri, og verkafólkið skildi þá vel, að tréð fellur sjaldan við fyrsta högg. Öll sín réttindi hafði það orðið að sækja gegn harðvítugri andstöðustétt. Þess vegna fannst því góðum áfanga náð, þegar ellilífeyrir var ákveðinn sem næst 30% af launum Dagsbrúnarmanns. Það var reiknað með framhaldandi þróun, auknum réttindum, en ekki skerðingu. Því miður hafa verkalýðsfélögin ekki fylgt þessu máli eftir sem skyldi, og þess vegna hafa öryrkjar og ellilífeyrisþegar ekki fyrir mat sínum, hvað þá meira, eins og sést af tölum þeim, sem tilfærðar eru á þskj. 87 og allar eru miðaðar við fyrsta verðlagssvæði. Fjöldi þessa fólks verður því að leita á náðir bæjar- eða sveitarsjóðs, þ.e. allir aðrir en þeir, sem eiga vandafólk, sem réttir hjálparhönd á einhvern hátt, eða fólk, sem nýtur tekna af eignum sínum eða heldur starfskröftum og er svo heppið að fá vinnu við sitt hæfi. En það var aldrei og getur aldrei orðið lífeyristrygging að fá greiddan einhvern styrk. Tryggingar eru allt annað en styrkgreiðsla, og ellilífeyrir getur það ekki heitið réttu nafni, sem ekki nægir fyrir brýnustu nauðþurftum. Ég vil heldur ekki trúa því, að á þessum framfaratímum sé talið nægilegt, að gamla fólkið hafi rétt til hnífs og skeiðar, a.m.k. er það í mjög miklu ósamræmi við lifnaðarhætti þjóðarinnar í heild. Mundi hv. alþingismönnum t.d. finnast það óþarfi, að gömlu hjónin gætu greitt afnot af útvarpinu sínu, svo að ekki sé minnzt á, að þau hafi ráð á að greiða fyrir eitt dagblað eða svo? Ég held, að enginn hugsi þannig, að gamla fólkið og öryrkjarnir eigi að lifa án þess að komast í snertingu við annað fólk, ef heilsa þess leyfir það, og án þess að fylgjast með daglegum viðburðum o.s.frv. En þetta er ekki hægt án vasapeninga. Það skilja allir, ef þeir leiða hugann að því, og það má eng- inn vera hugsunarlaus í þessu efni, því að ef svo væri, þá er hann í andstöðu við þá lífsskoðun, sem hann játar sig fylgja og byggist á kenningum kristindómsins, hvaða nöfn sem menn halda nú að sé vísindalegra að gefa þeim.

Ég vil leiða sérstaka athygli að því óréttlæti, sem í því er fólgið, að hjón skuli hafa lægri lífeyri, en tveir einstaklingar. Ég veit, hvaða rök eru talin fyrir þessu, að það sé ódýrara fyrir tvo að leigja saman og matreiða saman o.s.frv. En þessi rök eru algerlega haldlaus, á meðan ellilífeyrisgreiðslan dugir hvergi nærri fyrir daglegu brauði. Þegar eftirlaunin eru orðin það há, að gömlu hjónin geta greitt af þeim húsaleigu, ljós og hita auk fæðis og fatnaðar og að auki geta þau átt útvarpstæki sitt áhyggjulaust og keypt flokksblaðið sitt, þegar þau geta leyft sér þann munað að fara í strætisvagni til vina og vandamanna einu sinni í viku eða svo án þess að takmarka matarkaupin sín, þá getum við farið að ræða um, hver munur eigi að vera á lífeyri einstaklinga og llífeyri hjóna, en ekki fyrr.

Ég hvorki vil né get skilið svo við þetta málefni að mínna ekki á þá staðreynd, hvað hugsunarháttur þjóðarinnar hefur breytzt síðan verkalýðssamtökin hófu fyrst baráttu fyrir tryggingunum. Þjóðin skilur nú, að tryggingarnar eru mál, sem á að vera hafið yfir flokkaþrætur, af því að það er óhjákvæmileg skylda kristins manns að hjálpa þeim, sem er minni máttar. Tryggingarnar eru í dag sú leið, sem þjóðfélagið á greiðasta til þess að rétta þeim hjálparhönd, sem þess þurfa. Konurnar í þjóðfélaginu skilja þetta nær allar. Síðustu árin hafa samtök kvenna rætt þessi mál allýtarlega og staðið óskipt um tillögur til endurbóta, m.a. um till. í þá átt, sem ég ræði nú.

Sjónarmið flokkanna koma fyrst til greina í þessu máli, þegar rætt er um, hvernig eigi að afla fjár. Ég hætti mér ekki inn á þá braut að ræða fjáröflunarleiðir hér á þessu stigi, enda mundi eigi þörf á að flytja till. í þessu formi, ef ekki þyrfti að leita úrræða um fjáröflun, sem nægilegur einhugur fylgir hér á hv. Alþingi. Ég vil þó rétt geta þess til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning um einhverja sérstaka kvenfrelsisbaráttu, sem felst bak við kröfuna um hækkaðan hjónalífeyri, að konur munu áreiðanlega með glöðu geði greiða jafnhátt persónuiðgjald og karlar greiða til almannatrygginga, þegar jafnlaunasamþykktin kemur til framkvæmda, sem varla getur dregizt lengi úr þessu, ef nokkur hugur fylgir öllu því orðaflóði, sem eytt hefur verið um þetta réttlætismál. Í annan stað vil ég benda á það, að hér verður um tilfærslu að ræða á greiðslum, þar sem hækkaður lífeyrir léttir greiðslum af bæjarsjóðum, um leið og létt yrði áhyggjum af ellilífeyrisþegum og létt nokkru fargi af samvizku þeirra, sem vilja hugsa um sinn minnsta bróður.

Tryggingarnar hljóta jafnan að verða til umhugsunar og umræðu. Þær snerta fjárhags- lega alla þegna þjóðfélagsins og eru mælikvarði á siðferðislegan styrk og samvizku þjóðarinnar á hverjum tíma. Í þeim málum þarf jafnan að vera vakandi og leita hinna beztu úrræða, og ég veit, að hv. alþm. vilja allir eiga þar hlut góðan vegna kjósenda sinna og vegna sjálfra sín. Hér er aðeins rætt um smáúrbót. Framtíðarlausnin verður sú, að allir þjóðfélagsþegnar hafi rétt til sama lífeyris hlutfallslega af launatekjum eins og fjöldamargir launþegar tryggja sér nú í dag með sérstökum lífeyrissjóðum.

Ég legg til, að þessari till. verði vísað til fjárveitinganefndar.