12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (2789)

57. mál, ferðamannagjaldeyrir

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég vil byrja með að lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. menntmrh., sem hér talaði síðast, virtist hafa á því fullan skilning, að aðgerða væri þörf í þessu efni, ef tækist að leysa tæknileg vandamál í sambandi við það. En hann innti sérstaklega eftir því, hvort ég hefði í fyrsta lagi tillögur að gera um það, hversu hátt það álag yrði á ferðamannagjaldeyrinn, sem hér yrði tekið upp, og svo í öðru lagi, hvernig ætti að afla fjár til þess eða m.ö.o. til hvaða hluta ætti að selja slíkan gjaldeyri.

Það var af ásettu ráði, sem ég hef ekki í grg. gert um þetta ákveðnar tillögur, því að ég áleit, að það mundi einmitt verða líklegra til samkomulags um þetta efni, að það væri látið standa opið, en nefnd sú, sem í þetta yrði skipuð, tæki það sérstaklega til athugunar, hversu hátt það álag yrði, sem útlendu ferðamennirnir fengju á sinn gjaldeyri, eða á hvað háu verði hann yrði keyptur af þeim. Svarið við þeirri spurningu yrði náttúrlega m.a. undir því komið, hvort það af öðrum ástæðum mundi vera talið æskilegt að ýta undir það, að menn ferðist hingað í ríkara mæli, en nú er. Það er hlutur, sem erfitt er að meta. Ég tel, að ef þetta ætti að koma að einhverju gagni, væri óeðlilegt, að þetta álag yrði lægra, en t.d. það, sem Íslendingar, sem kaupa erlendan gjaldeyri til ferðalaga, nú greiða, sem mun vera um 56%. Mér finnst, að ef út á þessa braut yrði farið, gæti minna varla komið til greina. Hvað mikið ætti að fara hærra en þetta, verður svo álitamál, sem ég get að svo stöddu ekki gert neina ákveðna tillögu um.

Hvað það snertir, hvernig þennan gjaldeyri svo ætti að nota, þá er það fyrir það fyrsta auðsætt, að þennan gjaldeyri má auðvitað ekki nota til kaupa á hinum svokölluðu vísitöluvörum, þannig að það hafi áhrif til þess að hækka hið almenna verðlag í landinu. Hvað sem um uppbóta- og niðurgreiðslufyrirkomulag má segja að öðru leyti, getur það auðvitað aldrei verið tilgangur ráðstöfunar slíkrar sem þessarar að kollvarpa því, þannig að þessar ráðstafanir yrði þá að fella inn í hið almenna kerfi um þetta. En ýmsar leiðir kæmu að mínu áliti til greina í sambandi við þetta. Það mætti selja þennan gjaldeyri til kaupa á ákveðnum vörutegundum, sem óhjákvæmilegt er talið að flytja eitthvað inn í landið, en mundu vera taldar frekar til munaðarvara, þannig að það ylli ekki tilfinnanlegum verðhækkunum, þó að gjaldeyrir til þeirra vörukaupa yrði dýrari, en annars gerist. Í öðru lagi kæmi til greina að selja þennan gjaldeyri Íslendingum, sem ferðast til annarra landa, annaðhvort með því álagi, sem nú er á þennan gjaldeyri, eða með hærra álagi, ef sú leið væri valin. Ég hugsa, að jafnvel þó að þetta álag yrði hærra, en álag á ferðagjaldeyri nú er og jafnvel til muna hærra, yrði enginn vandi að finna næga kaupendur að slíkum gjaldeyri, og það mundi undir öllum kringumstæðum vera viðkunnanlegra, að menn keyptu slíkan gjaldeyri á löglegan hátt í bönkunum heldur en, eins og á allra vitorði er nú, að menn kaupa slíkan gjaldeyri í stærri og minni stíl á svörtum, ólöglegum markaði.

Þetta eru aðeins hugmyndir, sem ég teldi eðlilegt að væru ræddar í sambandi við þetta. En mér fannst ekki tímabært að svo stöddu að leggja fram í því efni ákveðnar till., af því að ég taldi einmitt líklegra til samkomulags, að þetta yrði að svo stöddu látið standa opið.