23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (2894)

14. mál, skyldusparnaður

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í sambandi við þessar umr., sem gefa tilefni til frekari athugunar.

Hæstv. félmrh. segir, að hv. 2. þm. Eyf. muni ekki hafa sett sig nógu vel inn í málið og misskilið þess vegna það, sem hann hér er að segja. En ég leyfi mér að spyrja: Hver hefur átt þess kost að setja sig inn í þetta mál? hæstv. félmrh, upplýsir hér, að út hafi verið gefin 1. okt. reglugerð. Hvað hefur verið gert til þess að kynna almenningi þessa reglugerð og þeim ungu mönnum, sem eiga að greiða skyldusparnaðinn? Og er það ekki ábyrgðarhluti að setja 1. okt. reglugerð um það, sem mér skilst, eftir því sem ráðh, upplýsir núna, — hann leiðréttir þá, ef það er misskilningur, — að sé þannig, að þeir, sem eiga að greiða skyldusparnaðinn, eiga að greiða hann af tekjum sínum frá 1. júní þetta ár, af tekjum, sem þeir eru búnir að hafa undanfarna mánuði og hafa enga hugmynd haft um eða getað gert sér grein fyrir, hvað mikið eða hvernig þeir ættu að greiða af í þennan skyldusparnað? Bar því ekki hæstv. ríkisstj., ef hún ætlar að taka upp þessa aðferð, að innheimta þetta með skattafyrirkomulagi, hið allra bráðasta að tilkynna og gera almenningi það ljóst, að frá 1. júní mundu menn verða að gera ráð fyrir því að greiða skyldusparnað af tekjum sínum, sem hins vegar yrði ekki innheimtur fyrr en á árinu 1958? Og er ekki hægt að búast við því, að nokkuð mikið af þessum skyldusparnaði sé þegar orðið að eyðslueyri hjá þeim mönnum, sem eiga síðan að greiða hann?

Ég tel í fyrsta lagi, að þegar hugsuð var og lá fyrir í ágústmánuði hjá hæstv. félmrh. reglugerð með þessu sniði, hafi borið að hraða því að gefa hana út og tilkynna almenningi, öllum almenningi, og fyrst og fremst þeim, sem er ákveðið að verði innan ramma skyldusparnaðarins, um það, hvernig lagaákvæðin væru hugsuð framkvæmd, og í öðru lagi tel ég það mikið ábyrgðarleysi að gefa út reglugerðina 1. okt. og hafa ekki gert 22. okt. neinar ráðstafanir til þess, að almenningi séu þessi mál ljós.

Ég vil svo taka undir það með hv. 2. þm. Eyf., að það er algert einsdæmi og harla nýstárlegt, að það á að gefa út fyrir hálft árið eina reglugerð og aðra reglugerð eftir sex mánuði í sama máli. Það minnir mann dálítið á það fyrirkomulag, sem haft var um framkvæmd þessara mála á s.l. ári, þegar fyrst voru gefin út brbl. um það á s.l. hausti að fjölga í húsnæðismálastjórn upp í sjö, af því að húsnæðismálastjórnin hefði svo geysilega mikið að gera. En svo, þegar hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþ. húsnæðismálalagafrumvarp sitt, leggur sami hæstv. félmrh. til, að nú sé fækkað aftur í húsnæðismálastjórninni, sem hafði svona mikið að gera, úr sjö ofan í fimm, eftir að þessi mikli lagabálkur átti svo að samþykkjast hér á þingi.

Ég tel alveg nauðsynlegt, að þing það, sem nú situr, taki til meðferðar og endurskoðunar húsnæðismálalöggjöfina, og ég vildi mega bera vonir til þess, að hv. þm. séu haldnir það ríkri ábyrgðartilfinningu, að margir þeir vankantar, sem á þessari löggjöf eru og sjálfstæðismenn lögðu til á s.l. þingi að yrðu sniðnir af, verði sniðnir af á þessu þingi. Gæti þá svo farið og væri vissulega happasælast, að það þyrfti aldrei að koma til þess, að þessi reglugerð, sem mér skilst að nú sé í burðarliðnum og eigi að ganga í gildi 1. jan., komi nokkurn tíma til framkvæmda, og menn verði búnir að átta sig á því, að það sé happasælla að hafa annan hátt á þessu skyldusparnaðarmáli eða sparnaðarmáli til íbúðabygginga, eins og sjálfstæðismenn lögðu til á s.l. þingi.