11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (2903)

28. mál, togarakaup

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það voru tvær spurningar, sem hér komu fram nú hjá hv. 2. þm. Reykv. Hin fyrri var í sambandi við frekari lán, sem hugsað væri að taka vegna kaupa á þessum tólf 250 tonna skipum, þar sem fyrir liggur aðeins, að lán er fyrir helmingi andvirðis þeirra skipa til eins og tveggja ára, eins árs til hluta af skipunum og tveggja ára hjá nokkrum hluta af skipunum.

Ég sagði, að enn þá hefði ekki verið gengið frá frekari lánum í sambandi við þessi skipakaup. Lán þau, sem þarna er um að ræða., eru nákvæmlega hliðstæð þeim lánum, sem tekin hafa verið í sambandi við fiskibátakaup, þegar samið hefur verið um smíði á fiskibátum í Danmörku og Svíþjóð, en að því hefur verið nokkuð gert að undanförnu. Þessir samningar við austur-þýzku skipasmíðastöðina eru því byggðir á nákvæmlega sama lánsgrundvellinum. Hins vegar hefur verið allmikið rætt bæði við þá skipasmíðastöð og aðrar, og ríkisstj, er ljóst, að það er nauðsynlegt að reyna að tryggja sér þarna frekara lán, og er unnið að því, að þarna fáist lán til lengri tíma, þar sem erfitt er að standa undir svona miklum bátakaupum af þeim gjaldeyristekjum, sem til falla árlega. En sem sagt, eins og ég hafði áður upplýst, hefur ekki enn verið gengið frá frekari lánum í þess um tilfellum, en að því er unnið.

Síðari spurningin, sem hér kom fram hjá hv. þm., var um það, hvort ríkisstj. ætlaði sér að semja um smíði á þessum 15 stóru togurum, jafnvel þó að hún hefði ekki gengið frá þeim lánum viðvíkjandi þeim kaupum, sem hún teldi vera hagstæð lán.

Ég sagði hér í mínum fyrri upplýsingum, að ríkisstj, hefði tekið um það ákvörðun að ganga frá smíðasamningum, jafnvel þó að svo stæði á, af því að hún vildi ekki tefja það, að gerður yrði smíðasamningur. En þá byggir hún á því, að hún hefur þegar fengið upplýsingar um vissa lánsmöguleika, sem hún telur að vísu ekki nægilega góða, en telur, að líkur séu til þess, að hægt sé að koma þessum lánum í betra horf.

Ég vil líka minna á í þessu sambandi, að þegar síðustu 10 togararnir voru keyptir árið 1949, voru þeir keyptir á nákvæmlega hliðstæðum grundvelli. Þá var ekki búið að ganga frá neinum viðhlítandi lánum, sem hægt væri að byggja á í sambandi við þau kaup, en samt sem áður var samningur um skipabygginguna gerður, svo að hér er þá aðeins farið að á hliðstæðan hátt og þá var gert. Og ég tel, að miðað við þá möguleika, sem vitað er um um lán, sé hér ekki óeðlilega að farið, þar sem það skiptir okkur mjög miklu máli að fá fastan byggingarsamning um þessi skip, því að afgreiðslutími á skipunum er alllangur.

Ég held, að fleiri atriði hafi ekki komið þarna fram, sem sérstök ástæða er til þess að orðlengja um.