30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (2918)

196. mál, lántaka til hafnargerða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fá ein orð út af því, sem hv. þm. tók fram. — Hann sagði, að það væri mikið álitamál, hvað ætti að sitja fyrir, þegar leitað er að erlendu lánsfé. Það kann að vera, að þetta sé alveg rétt hjá hv. þm. Á hinn bóginn hefur það ætið verið tekið mjög greinilega fram, einmitt til þess að ekki skyldi um neitt að villast, að núverandi ríkisstj. hefur litið þannig á, að Sogsvirkjunin og fimm aðrar framkvæmdir, sem ég nefndi, raforkuáætlunin, sementsverksmiðjan, ræktunarsjóðurinn, fiskveiðasjóðurinn og togarakaupin, yrðu að sitja fyrir. Og þetta hefur einmitt verið gert mjög rækilega, til þess að menn skyldu fá heildarmynd af málinu. Næst á eftir kæmi svo lán til hafnarframkvæmda, sem getið er um í stjórnarsáttmálanum og oftar hefur borið á góma og yfirlýsingar verið gerðar um.

Þegar svo þess er gætt, að lánsfé það, sem þarf til Sogsvirkjunarinnar og þessara 5 annarra fyrirtækja, sem ég var að minnast á, eru margfalt hærri fjárhæðir, en Íslendingar hafa nokkru sinni áður látið sér detta í hug að taka að láni eða a.m.k. langtum hærri, en nokkru sinni hafa verið teknar að láni, þá gefur að skilja, að það er ekki hægt að vita fyrir fram, hvenær röðin kemur að hafnargerðunum, og þess vegna get ég ekki fullyrt um það. Það fer eftir því, hversu vel gengur að útvega lánsféð. Ég gerði mér einmitt far um það í fjárlagaræðunni að bregða upp mynd af samhenginu í þessu efni og greindi þar frá öllum aðalatriðunum, sem hér hefur borið á góma.

Stjórnin hefur þetta mál til meðferðar ásamt hinum, og röðin er á þá lund, sem margsinnis hefur verið greint frá og reynt að gefa upplýsingar á þá lund, að menn litu á þessi efni af raunsæi.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að það væri máske skiljanlegt, að stjórnin hefði ekki kært sig um að fá samþykkta sérstaka lánsheimild vegna hafnargerðanna í fyrravetur, þar sem horfur hefðu verið svo daufar um árangur í því að taka hafnarlán. Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm, á, að það skortir ekki lánsheimildir í þessu sambandi, m.a. vegna þess, að Framkvæmdabankinn hefur mjög miklar lánsheimildir, og væri hægt að koma lántöku í kring, án þess að nokkur sérstök ný þingsamþykkt kæmi til. Það var því ekki nein ástæða til þess að samþykkja sérstaka heimild í þessu skyni. Annars er ekki hægt að segja annað, en lántökumálin hafi yfirleitt gengið vonum framar, miðað við, hvernig aðgangur er að erlendum lántökum, og miðað við það, sem áður hefur átt sér stað.

Ég þori ekki um það að spá, hvenær það kann að takast að fá hafnarlán, vegna þess að ég vil alls ekki gefa mönnum neinar tálvonir í því sambandi. En stjórnin hefur þetta mál á sínu „prógrammi“ á þann hátt, sem lýst hefur verið yfir.

4. Framkvæmd tillagna íslenzk-skandinavísku samgöngumálanefndarinnar.