02.06.1958
Sameinað þing: 50. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti, góðir hlustendur. Landhelgismálið hefur allmikið verið rætt í þessum umr., og er það að vonum. Stækkun landhelginnar er stærsta mál þjóðarinnar í dag. Aukin vernd fiskimiðanna við strendur landsins og forgangsréttur Íslendinga til þess að nytja þau er undirstaða allra efnahagsmála okkar. Stækkun fiskveiðilandhelginnar er því efnahagsmál efnahagsmálanna og ræður úrslitum um það, hvort okkur tekst að treysta og bæta efnahagsgrundvöll þann, sem nú er byggt á.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum á miðju ári 1956, lýsti hún yfir því, að hún mundi beita sér fyrir stækkun landhelginnar, þar sem aukin friðun fiskimiðanna fyrir ágangi erlendra skipa væri orðin brýn nauðsyn vegna atvinnuöryggis landsmanna, Þar sem ákveðið hafði verið, að á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem skyldi hefjast í lok ársins 1956, yrði landhelgismál þjóðanna tekin til meðferðar, þótti rétt að bíða eftir úrslitum þess þings og sjá, hvort aðstaða okkar til framkvæmda í málinu batnaði ekki.

Þing Sameinuðu þjóðanna lauk störfum snemma árs 1957, en vék sér undan að afgreiða reglur um landhelgismálin. Þess í stað ákvað þingið að boða til alþjóðlegrar ráðstefnu um landhelgismál, og skyldi hún haldin í Genf í febr. 1958. Fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum mótmælti þessari frestun og benti á, að Íslendingar hefðu þegar beðið svo lengi eftir alþjóðlegum fundum og ráðstefnum, að þeir gætu ekki frestað, frekar en orðið væri nauðsynlegum framkvæmdum í landhelgismálum sínum. Vegna þess að ekki tókst full samstaða um að ráðast þegar í mest aðkallandi breytingar á fiskveiðimörkunum að loknu þessu þingi Sameinuðu þjóðanna, varð niðurstaðan sú, að við frestuðum enn framkvæmdum og biðum fram yfir Genfarráðstefnuna. Sú bið var þó ákveðin með því bindandi samkomulagi, að strax að Genfarráðstefnunni lokinni skyldi ráðizt í stækkun og það án tillits til þess, hvort þeirri ráðstefnu yrði frestað eða ekki.

Genfarráðstefnunni lauk 28. apríl s. l., og þá var komið að því að taka ákvörðun um næsta áfanga okkar í landhelgismálinu. Eins og við er að búast í stóru og vandasömu máli, hafa verið uppi misjafnar skoðanir um málsmeðferð. Það hefur verið skoðun Alþb., að frekari dráttur en orðinn er, kæmi ekki til mála. Vegna þess hef ég lagt allt kapp á það að hraða málinu, en leita þó allra ráða til samkomulags milli manna og flokka. Með sérstöku samkomulagi, sem gert var innan ríkisstj., var því lýst yfir 30. apríl s. l., að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að gefa út nýja reglugerð um málið dagana milli 10. og 20. maí. Í beinu framhaldi af þessu tilkynnti ég í ríkisstj. 17. maí, að ég teldi óhjákvæmilegt, að nýja reglugerðin yrði ákveðin og gefin út í síðasta lagi 20. maí, þar sem þá hefði gefizt nægur tími öllum flokkum til þess að koma fram með skoðanir sínar um einstök efnisatriði málsins.

Hér skal ekki farið nákvæmlega út í að rekja gang þessa máls eða þann ágreining, sem uppi var, en hins vegar tel ég rétt að skýra nokkru nánar frá niðurstöðu þeirri í málinu, sem bindandi samkomulag hefur orðið um, en samkomulagið er þannig:

Reglugerð um fiskveiðilandhelgi Íslands verði gefin út 30. júní n. k. Í reglugerðinni verði eftirfarandi efnisbreytingar einar gerðar frá því, sem nú gildir skv. reglugerð um verndun fiskimiða umhverfis Ísland, nr. 21 frá 19. marz 1952:

1) Fiskveiðilandhelgin skal vera 12 sjómílur út frá grunnlínunni.

2) Íslenzkum skipum, sem veiða með botnvörpu eða dragnót, skal heimilt að veiða innan fiskveiðilandhelginnar, en þó utan núverandi friðunarlínu. Sérstök ákvæði skulu sett um þessa heimild, og tilgreina skal nánar veiðisvæði og veiðitíma.

3) Reglugerðin skal öðlast gildi 1. sept. n. k. Tíminn, þangað til reglugerðin kemur til framkvæmda, verður notaður til þess að vinna að skilningi og viðurkenningu á réttmæti og nauðsyn útfærslunnar. Réttur til breytinga á grunnlínum er áskilinn.

Eins og þetta samkomulag ber glögglega með sér, hefur efnislega að fullu og öllu verið gengið frá þessu máli. Engin önnur efnisatriði en þau, sem greind eru í samkomulaginu, geta komið til greina, eins og þar stendur. Með þessu var vísað frá þeirri hugmynd að fresta málinu enn, með þessu er útilokuð sú hætta, að erlendum aðilum takist að pressa inn á okkur óeðlileg ákvæði um sérréttindi erlendra skipa í íslenzkri landhelgi, og með þessu er vísað á bug erlendum tilmælum um að gera málið að samningamáli.

Allur undansláttur í málinu er héðan af útilokaður. Þessi atriði skiptu mestu máli, eins og komið var, en lögformleg birting á þegar ákveðnu máli mátti að skaðlausu bíða um mánaðartíma.

Allan þann tíma, sem landsmenn hafa staðið í baráttu fyrir auknum rétti sínum til yfirráða yfir fiskimiðunum í kringum landið, hafa þær erlendar þjóðir, sem mest sækja fisk upp að ströndum Íslands, snúizt öndverðar gegn kröfum Íslendinga. Þær hafa mótmælt stækkun landhelginnar og jafnvel beitt okkur refsiráðstöfunum. Á erlendum ráðstefnum og fundum hafa þær lagzt gegn máli okkar og jafnan lagt fast að okkur að semja um sérstök fríðindi sér til handa á grunnmiðum okkar.

Aðstaða okkar til samninga við þessar þjóðir er ekki góð. Þær eru margar gegn okkur einum, og vissulega hafa þær í ýmsum efnum sterka aðstöðu gagnvart okkur efnahagslega og viðskiptalega. Í þetta skiptið höfum við einnig fengið að þreifa á þessu. Hart hefur verið að okkur lagt og við beðnir að bíða og taka upp samninga. Ákvörðun okkar um að neita samningum og ákveða einhliða lausn okkar á málinu var ekki tekin af fjandskap við neina þjóð, hún var tekin af þjóðarnauðsyn, hún var tekin vegna þess, að afkomuöryggi þjóðarinnar krafðist þess.

Allir landsmenn gera sér ljósa grein fyrir nauðsyn þess að stækka landhelgina. Þeir vita, að 95% af árlegri gjaldeyrisöflun þjóðarinnar er fengið fyrir útfluttar sjávarafurðir. Aukin gjaldeyrisöflun er eitt brýnasta hagsmunamál okkar í dag, og hvar stæðum við, ef fiskimið landsins, hinn eini raunverulegi gjaldeyrisvarasjóður okkar, væru urin upp af ofveiði erlendra fiskiskipa? Við vitum, að fiskafli sá, sem Íslendingar taka árlega á miðunum við landið, er minni en sá afli, sem erlend skip fara með heim til sín af miðum okkar. Við sjáum, að fiskiskipastóll hinna erlendu bjóða vex árlega á miðunum við landið, og ofveiðin segir greinilega til sín. Þær þjóðir, sem mest stunda fiskimiðin við Ísland, vita líka jafnvel og við, að hverju stefnir. Því verður ekki trúað, að forustumenn þeirra viðurkenni ekki staðreyndir og vilji ekki unna okkur eðlilegs réttar, þegar að þeim degi kemur, þegar framkvæma á hinar nýju reglur. Það er sannarlega ekki vilji Íslendinga að eiga í illdeilum við þjóðir Vestur-Evrópu, sem mest sækja hingað á okkar fiskimið. Þær eru góðar viðskiptaþjóðir okkar, og við óskum einskis fremur, en mega eiga góð og réttlát samskipti við þær. En þau samskipti verða að vera réttlát, og þær verða að viðurkenna tilverurétt okkar og neita sér um að eyðileggja lífsbjörg okkar.

Næsti áfangi í landhelgismálinu er ákveðinn. Þar er aðeins um áfanga að ræða, áfanga að því marki, að Íslendingar hafi forgangsrétt til fiskimiðanna við landið og óskoraða lögsögu yfir öllu landgrunninu. Hér er um mikinn og merkan áfanga að ræða, og það er höfuðnauðsyn, að þrátt fyrir nokkurn skoðanamun um afstöðu til málsins, þá standi nú allir flokkar einhuga að því að tala máli þjóðarinnar út á við og þjóðin öll standi sem einn maður að því, sem ákveðið er, og sanni þannig umheiminum, hve mikilvægt málið er í augum þjóðarinnar.

Alþb. telur, að farsæl lausn landhelgismálsins sé undirstaða þess, að takast megi að leysa aðra þætti efnahagsmála þjóðarinnar. Það hefur því lagt allt kapp á, að samhliða efnahagsmálatill. ríkisstj. um tekjuöflun vegna atvinnuveganna yrði landhelgismálið leitt til lykta, en því ekki skotið á frest lengur.

Reynt hefur verið að halda því fram, að afstaða mín og Alþb. til lausnar landhelgismálinu hafi markazt af ofurkappi og tillitsleysi gagnvart vinaþjóðum okkar, og nú síðast hefur hæstv. utanrrh, haldið því fram hér í umr., að deilur á milli flokka í landhelgismálinu undanfarna daga hafi ekki staðið um að ákveða sjálfa stækkun landhelginnar, heldur í rauninni verið ágreiningur um ýmis efnisatriði reglugerðar þeirrar, sem ég lagði til að sett yrði 17. maí. Þetta er ekki rétt. Frá minni hálfu og míns flokks hefur greinilega komið fram og það í skriflegum till., að við vorum fúsir til samkomulags við aðra flokka um öll efnisatriði reglugerðarinnar. Í till. mínum, sem lagðar voru fram í landhelgismálanefndinni 28. apríl s. l., sagðist ég helzt kjósa tilteknar breytingar á grunnlínum og 12 mílna landhelgi. Þar tók ég líka fram, að ég vildi leyfa íslenzkum togurum veiðiréttindi innan hinnar nýju fiskveiðilandhelgi, en ég teldi ekki rétt að taka það ákvæði upp strax í reglugerð vegna ágreinings um það efni innanlands. En aðrir flokkar lýstu ekki sínum till. nema Framsfl., sem gerði það nokkru síðar. Hinir flokkarnir vildu bíða með málið óafgreitt áfram og halda áfram viðræðum við erlenda aðila um málið. Deilur þær, sem hér risu upp milli flokka, voru því um, hvort taka ætti ákvörðun um málið, ganga frá málinu eða hvort málið ætti að bíða áfram í óvissu.

Hæstv. utanrrh. deildi hér mjög á Þjóðviljann fyrir skrif hans um landhelgismálið. Þær umsagnir Þjóðviljans, sem virtust særa hann mest, voru fregnir, sem blaðið flutti um fundinn í Kaupmannahöfn eftir erlendum blöðum, sem tilgreind voru. Reglugerð sú, sem Þjóðviljinn birti, er í öllum aðalatriðum rétt, enda auðvelt fyrir alla að ganga úr skugga um það með því að lesa samkomulag stjórnarflokkanna, sem gert hefur verið, en það samkomulag hefur Alþýðublaðið, blað hæstv. utanrrh., enn ekki séð sér fært að birta.

Alþýðublaðið, blað hæstv. utanrrh., hefur líka ráðizt harkalega á mig fyrir Nasser-vinnubrögð mín í landhelgismálinu, eins og blaðið hefur kallað það. Ég kippi mér ekki stórt upp við þessi skrif. Ég veit skjöld minn hreinan í landhelgismálinu, ég hef gert það eitt, sem skylda mín bauð mér í því máli. Eins og ég hef rakið hér nokkuð, þá hefur afstaða okkar í Alþb. einmitt miðazt við það að reyna, eftir því sem frekast var unnt, að ná samstöðu allra flokka um landhelgismálið. Framkvæmdir í málinu hafa verið dregnar í nærri tvö ár, síðan ríkisstj, lofaði að beita sér fyrir stækkun landhelginnar, til þess einmitt að fá öruggari samstöðu flokkanna um málið. Fyrst var tekinn frestur í hálft ár fram yfir þing Sameinuðu þjóðanna, síðan var enn ákveðið að bíða í eitt ár fram yfir Genfarráðstefnuna. Samkvæmt gerðu samkomulagi átti þá að hefjast handa, þegar að henni lokinni. Eftir því var að sjálfsögðu gengið, að það samkomulag yrði haldið, því þó að samkomulag sé gott, þá má það ekki verða um aðgerðaleysi og um undanbrögð í málinu. En eftir Genfarráðstefnuna dróst enn með framkvæmdir, og þá var enn gert samkomulag um, hvenær mætti gefa út nýja reglugerð. Þegar sá tími var liðinn, taldi Alþb., að ógerlegt væri að fresta málinu, frekar en orðið var. Þessi gangur málsins sannar, að Alþb. vildi samkomulag og samþykkti til þess hvern frestinn af öðrum.

Um efnisatriði málsins, þ. e. hver stækkunin skyldi vera að þessu sinni, er hið sama að segja. Við Alþb.-menn lýstum strax yfir vilja okkar og till., en jafnframt lýstum við yfir því, að við vildum fúslega fallast á önnur atriði til samkomulags. Segja má, að gengið hafi verið á eftir öðrum flokkum með að láta uppi sínar till. í málinu.

Um afstöðu okkar til annarra þjóða í málinu er það að segja, að hún hefur alltaf verið skýr. Við getum ekki fallizt á, að semja eigi um landhelgismál Íslands við aðrar þjóðir, og þetta hafa aðrir flokkar einnig viðurkennt í orði. Og enn þá síður getum við fallizt á að heimila útlendum skipum sérréttindi í íslenzkri landhelgi. Við höfum því haft ímugust á öllum NATO-fundum og NATO-afskiptum af landhelgismáli okkar. Einarðleg og ákveðin framkoma er enginn fjandskapur við aðrar þjóðir. Réttur Íslands til landgrunnsins er ekkert fjandskaparmál okkar við þær þjóðir, sem vilja hafa landhelgi okkar sem minnsta. Forgangsréttur okkar til fiskimiðanna er aftur á móti lífsnauðsyn fyrir efnahagslegt öryggi þjóðarinnar í framtíðinni, og því verður að vinna einarðlega að framgangi landhelgismálsins.

Jafnhliða landhelgismálinu hefur ríkisstj. og Alþ. haft til meðferðar að undanförnu till. um nýjar ráðstafanir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þessar till. hafa verið æði lengi á döfinni, enda málið allt margþætt og vandasamt og ágreiningur mikill um ýmis atriði þess. Alþb. tekur það skýrt fram um afstöðu sína til frv. um efnahagsmálin, að líta ber á það sem samkomulags- og málamiðlunarleið. Sjónarmið voru í ýmsu ólík, en viðurkennt var af öllum, að ekki yrði komizt hjá nýjum tekjuöflunarráðstöfunum til öryggis framleiðslunni og til þess að mæta vaxandi útgjöldum ríkisins, þar sem ekki hafði orðið samkomulag um neina teljandi niðurfærslu eða lækkun útgjalda í ríkisrekstrinum.

Þegar efnahagsráðstafanir þær, sem nýlega hafa verið gerðar að l., eru ræddar, er nauðsynlegt að rifja upp nokkur aðalatriði í gangi efnahagsmálanna að undanförnu.

Þegar núverandi stjórn tók við völdum í júlímánuði 1956, var allt verðlag í landinu á æðandi uppleið. Vísitalan hafði hækkað um 25 stig á rúmu ári, og fyrirsjáanleg voru stórvandræði hjá framleiðslunni. Núverandi stjórn setti sér þá það mark að stöðva verðhækkunarskrúfuna. Allt verðlag var þá bundið fast í nokkra mánuði og framleiðslunni þannig bjargað út það árið. Með þessu hófst verðstöðvunarstefnan, sem Alþb. lagði ríka áherzlu á að halda áfram og verkalýðshreyfingin í landinu hét stuðningi sinum. En það urðu mörg ljón á vegi verðstöðvunarstefnunnar. Fyrst þurfti að afla mikils fjár til þess að greiða framleiðsluatvinnuvegunum upp gamla skuldasúpu frá tíð fyrrv. ríkisstj., og greiða þurfti auknar bætur vegna hækkunar á framleiðslukostnaði, sem orðin var, þegar núverandi stjórn tók við völdum. Það var að sjálfsögðu erfitt að afla nýrra tekna í stórum stíl, án þess að verðlag hækkaði verulega og þá um leið kaupgjald og framleiðslukostnaður að nýju, en við þetta var glímt og strangt verðlagseftirlit sett á fót þrátt fyrir hörkuleg mótmæli stjórnarandstöðunnar. Verzlunarálagning var stórlækkuð og nýja tekjuöflunin vegna atvinnuveganna þannig að verulegu leyti lögð á milliliði. En nokkur hluti verðlagsins hlaut þó að hækka. Þá skall á um þetta leyti Súez-stríðið, sem leiddi af sér talsverðar verðhækkanir, einkum á frögtum, og auk þess hamaðist svo stærsti flokkur landsins, Sjálfstfl., gegn verðstöðvunarstefnunni og ögraði þeim stéttarfélögum sem ekki fóru út í verkföll, og hrinti þeim félögum út í kauphækkunarbaráttu, sem hann hafði getu til.

Verðstöðvunarstefnan skilaði þó miklum árangri. Í árslok 1957, þegar samningar hófust að nýju við sjávarútveginn, kom í ljós, að ekki þurfti að breyta bótagreiðslum vegna hækkunar á rekstrarkostnaði. Samið var um litla hækkun útflutningsbóta og eingöngu vegna hækkunar á kaupi sjómanna og vegna minnkandi aflamagns bátanna, en árið 1957 hafði reynzt lélegt aflaár hjá sjávarútveginum almennt. Þrátt fyrir fleiri báta, sem veiðarnar stunduðu, þrátt fyrir miklu lengri úthaldstíma og meiri tilkostnað í útbúnaði, en áður, varð aflinn þó minni og gjaldeyristekjurnar lægri. en árið á undan.

Þetta mikla aflaleysi bæði báta og togara hlaut að segja til sín og skapa nýja erfiðleika. Vegna minni gjaldeyristekna fór það svo, að innflutningur á þeim vörum, sem mestar tekjur áttu að gefa útflutningssjóði og ríkissjóði, var miklu minni, en árið áður. Þannig lækkaði innflutningur hátollavöru úr 254 millj. kr. árið 1956 í 174 millj. kr. árið 1957, eða um 80 millj. kr. Þetta þýddi tekjumissi fyrir útflutningssjóð og ríkissjóð, sem nam yfir 100 millj. kr. Um s. l. áramót stóðu sakir því svo, að óhjákvæmilegt var, að afla þyrfti nýrra tekna til stuðnings framleiðslunni.

Eins og jafnan áður voru skiptar skoðanir um, hvaða leiðir skyldi fara til lausnar vandanum. Sú kenning hefur lengi verið uppi, að leysa ætti vanda efnahagsmála okkar með nægilega mikilli gengislækkun. Hefði sú leið verið farin nú, hefði þurft að hækka hið skráða verð á erlendum gjaldeyri um a. m. k, 130%, til þess að hægt hefði verið að gera ráð fyrir bótum og þeim launagreiðslum, sem miðað er við í efnahagsmálatill. ríkisstj. nú. Slík gengislækkun hefði leitt af sér um 50 stiga hækkun á vísitölu. Þessi gífurlega breyting hefði orðið stórtækust á nauðsynjavörum og bitnað meir á láglaunafólki, en nokkrum öðrum í landinu. Þessari leið var hafnað.

Þar sem fyrir lá, að almennar kauphækkanir mundu verða á þessu ári að öllum líkindum, og ekki hafði tekizt að ná samkomulagi um neina niðurfærslu á útgjöldum hins opinbera, var augljóst, að nægileg tekjuöflun án verðhækkana var ekki möguleg, enda skortur á skilningi á nauðsyn verðstöðvunarstefnunnar. Af þessum ástæðum var sú milli- og samkomulagsleið valin, sem nú hefur verið lögfest. Höfuðgallar þeirrar leiðar eru að dómi okkar Alþb.– manna þeir, að hætt er við, að verðhækkanir verði meiri, en auðvelt verður við að ráða. En auðvitað ræður hér miklu um, hversu tekst með framkvæmd þessara nýju till. Hinar nýju efnahagsmálatill. hafa verið affluttar af stjórnarandstöðunni á svo purkunarlausan hátt, að algert einsdæmi má teljast. Þetta er því furðulegra, ef þess er gætt, að stjórnarandstaðan hefur ekkert sjálfstætt til málanna haft að leggja, engar till. getur hún flutt um málið, en afsakar sig helzt með því, að hana vanti upplýsingar og hún viti því ekki, hvaða vandi er á höndum.

Hér skal nú í örstuttu máli drepið á meginefni þessara efnahagsmálatill. Tekjuöflunin er í öllum aðalatriðum byggð upp á sama grundvelli og í eldri l. um útflutningssjóð. Vöruinnflutningi til landsins er skipt í þrjá aðalflokka með misháum gjöldum. Áður voru flokkar þessir fjórir. Nú er nauðsynjavöruflokkurinn nokkru stærri en áður, þ. e. a. s. meira af nauðsynjavörum verður í gjaldlægsta flokknum og hækka þær því minna, en aðrar vörur. Gjaldið á hinum beinu vísitöluvörum hækkar þó nokkuð, en það skilar sér að sjálfsögðu til fulls til launþega aftur í hækkuðu kaupi. Eins og áður er því reynt að stilla svo til, að brýnustu nauðsynjar hækki minnst í verði og alls ekki nema full kauphækkun komi á móti. Þá er áfram svonefndur hágjaldavöruflokkur. þ. e. a. s. gömlu bátagjaldeyrisvörurnar, Þar er nákvæmlega sami háttur hafður á og áður var. Þær vörur hækka nú talsvert í verði. Svo eru í þriðja lagi aðrar almennar vörur eins og áður, en gjöld á þeim hækka nokkuð og í sumum tilfellum talsvert mikið.

Eina verulega breytingin, sem gerð er um fyrirkomulag tekjuöflunarinnar nú, er sú, að áður hafa rekstrarvörur framleiðslunnar jafnan verið undanþegnar gjöldum og þeim því haldið í lágu verði, en nú var ákveðið að leggja sömu gjöld á rekstrarvörur framleiðslunnar og á aðrar almennar vörur, sem inn til landsins eru fluttar. Þetta þýðir í framkvæmd, að veiðarfæri útgerðarinnar hækka verulega í verði og sömuleiðis olíur og fleiri nauðsynjar rekstrarins. Á sama hátt hækkar nú í verði fóðurbætir og áburður til landbúnaðarins og aðrar rekstrarvörur hans. Þessa hækkun greiðir framleiðslan vitanlega sjálf. En jafnframt eru svo bætur til hennar auknar sem þessu nemur. Þessi breyting er því fyrst og fremst formsbreyting. Því verður ekki neitað, að ýmis almenn rök eru fyrir því, að rétt hafi verið að gera þessa breytingu.

Sá háttur að halda niðri verði á rekstrarvörum árum saman, þó að allt annað verðlag í landinu hafi tekið stórum breytingum, felur vissulega í sér miklar hættur. Tökum nærtækt dæmi. Vélar í fiskibáta eru fluttar inn erlendis frá. Með því að halda þeim árum saman utan við þá almennu verðlagshækkun, sem orðið hefur í landinu, hefur dregið að því, að þær væru svo ódýrar, miðað við innlent vinnuafl og viðgerðarkostnað, að lítill áhugi væri fyrir því að láta gera við vélarnar, en hins vegar leitað þeim mun fastar eftir kaupum á nýjum vélum í staðinn. Þannig hefur þetta verið með fóðurbætiskaup bænda. Fóðurbætirinn hefur ekki hækkað til jafns við hækkun á tilkostnaði við að afla innlends fóðurs. Misræmi, sem þannig verður til, leiðir af sér óeðlilega notkun á erlendum gjaldeyri. Hitt er svo aftur hin mesta fjarstæða, að halda því fram, að hækkun á veiðarfærum útgerðarinnar, sem hún greiðir sjálf, sé álögur á almenning í landinu.

Þannig er tekjuöflunarhlið efnahagsmálafrv. ríkisstj. í meginatriðum eins byggð upp og áður. Hún er byggð á mismunandi gjöldum á innflutning og brýtur þannig í bága við grundvallarstefnu gengislækkunarleiðarinnar, sem gerir verðbreytinguna jafna yfir allt.

Útgjaldahlið frv. er einnig byggð í meginatriðum á sömu reglu og gilt hefur. Þar er ákveðið að greiða misháar bætur eftir þörfum útflutningsgreinanna, en þó er þar stefnt að meiri samræmingu, en áður hefur verið.

En hvað felur þá hin nýja efnahagsmálalöggjöf í sér miklar nýjar álögur? Íhaldið segir, að nýjar álögur á þjóðina samkv. lögunum nemi 790 millj. kr. Slíkt er sagt gegn betri vitund og er alger fjarstæða. Sé samanburður gerður á hliðstæðum grundvelli á milli hins eldra kerfis og hins nýja, má telja, að tekjuaukning útflutningssjóðs geti verið um 240 millj. kr. á ári. Mikils meiri hluta þessara nýju tekna er aflað með hækkun gjalda á hátollavörum, benzíni, bílum, innlendum lúxusvörum, hækkun ferðagjaldeyris og hækkun skatts á gjaldeyrisbönkunum. Talsverð hækkun er svo einnig á almennum varningi, en minni en á öðrum.

Og hvernig er svo þessum nýja tekjuauka útflutningssjóðs varið? Um 60 millj. kr. ganga til þess að standa undir greiðslum, sem ríkissjóður hafði áður, en það eru niðurgreiðslur á verðlagi innanlands. Þá eru eftir 180 millj. kr., sem renna til útflutningsframleiðslunnar. Af þeirri fjárhæð fara 50 millj. kr. til þess að mæta 5% launahækkun til sjómanna og alls verkafólks, sem lögin gera ráð fyrir. Þá fara um 60 millj. kr. í auknar bætur til framleiðslunnar, en þar nemur mestu, að bætur til togara eru nú auknar til jafns við bætur til bátaútvegsins, og svo eru hækkaðar bætur til síldarútvegsins um 20 millj. kr., fyrst og fremst til þess að mæta verðlækkun, sem orðið hefur á síldarafurðunum á þessu ári. Önnur tekjuaukning sjóðsins er svo til þess að jafna nokkuð þann halla, sem fyrir var á sjóðnum.

Þegar rætt er um það, hvaða álögur efnahagsmálalöggjöfin nýja felur í sér, er óhjákvæmilegt að athuga jafnframt þau nýju útgjöld, sem lögin gera ráð fyrir að tekin séu upp. Lögin eru ekki aðeins um hækkaðar álögur, þau eru jafnframt og að sama skapi um ákveðnar greiðslur til ákveðinna aðila. Og hver er þá afstaðan til þessara greiðslna? Það er ekki hægt að vera með útgjöldunum, en neita samtímis öllum leiðum til þess að afla tekna vegna hinna nýju útgjalda. Við skulum athuga þetta nánar.

Með því ákvæði í lögunum, að kaupgjald allt skuli hækka nú þegar um 5–7%, skapast óhjákvæmileg útgjöld, sem nema 50 millj. kr. Þeir, sem viðurkenna réttmæti þessara útgjalda, verða að finna leiðir til tekjuöflunar á móti. Ég veit, að íhaldið telur sér slíkt ekki skylt. Það er einmitt sérstaklega á móti þessu ákvæði í lögunum. En það sama íhald, sem þannig hugsar, sýnir ábyrgð sína í því að egna hálaunamenn til meiri kauphækkunar og helzt vinnustöðvana.

Þá gera lögin ráð fyrir, að hagur togaraútgerðarinnar í landinu verði bættur um 20 millj. kr. á ári. Hver er afstaðan til þessa? Er rétt að halda togaraútgerðinni áfram í slíkum taprekstri og hún hefur verið í? Hafa ekki mörg bæjarfélög í landinu orðið að taka á sig stórtöp togaranna og leggja þar með á verkamenn og sjómenn í bæjum þeim, sem togararnir eru gerðir út frá, aukaútsvör vegna taprekstrarins? Er rétt, að fólkið í þeim bæjarfélögum einum, sem togarana reka, beri tapið, eða mundi ekki eðlilegra, að þjóðarheildin bæri það?

Í lögunum er gert ráð fyrir auknum tekjum fiskveiðasjóðs, sem nemur 10 millj. kr. Öll sú fjárhæð rennur því til nýrra báta og framleiðslufyrirtækja. Þá skapa, lögin grundvöll fyrir lífeyrissjóði togarasjómanna, en útgjöld af þeim verða um 7 millj. kr. á ári. Þá gera lögin ráð fyrir útgjöldum, sem nema 20 millj. kr. á ári til þess að mæta verðlækkun á síldarafurðum. Átti að neita þeirri staðreynd, að síldarlýsið hafði stórfallið í verði og Norðurlandssaltsíldin var seld með lækkandi verði á þessu ári?

Hér hef ég nefnt 5 nýja útgjaldaliði hinna nýju laga, sem nema samtals 107 millj. kr. Þá vil ég nefna þá nýju samninga, sem gerðir voru við sjómenn og útgerðarmenn um síðustu áramót. Með þeim var ákveðið að auka bætur framleiðslunnar um ca. 30 millj. kr. Meginhluti þeirrar upphæðar fór til kauphækkunar hjá sjómönnum. Vegna aflaleysis á vetrarvertíðinni 1957 stórlækkuðu tekjur sjómanna þá. Þeir komu beinlínis með miklu færri krónur frá borði en áður, á sama tíma sem allir aðrir í landinu höfðu fengið 5 vísitölustiga hækkun á sitt kaup. Áttum við að láta sem ekkert hefði gerzt og neita sjómönnum um lítils háttar kjarabætur? Áttum við að stefna út í þann háska, að fiskimönnum okkar fækkaði enn á flotanum með þeirri óhjákvæmilegu afleiðingu, að gjaldeyrisöflunin minnkaði, þjóðartekjurnar drægjust saman með öllum afleiðingum þess? Eða áttum við að viðurkenna staðreyndir og taka að okkur að glíma við vandann? Það er ekki hægt að standa með öllum þessum útgjöldum, en neita jafnframt að koma með tillögur um, hvernig teknanna skuli aflað til þess að mæta þessum nýju útgjöldum.

Framkoma stjórnarandstöðunnar hefur verið með fádæmum í sambandi við þessi efnahagsmál. Ábyrgðarleysi og vitaverð rangfærsla hefur einkennt vinnubrögðin. Það er athyglisvert, að stærsti flokkurinn á Alþ., Sjálfstfl., skuli ár eftir ár standa eins og þvara tillögulaus og úrræðalaus, þegar vandamál atvinnuveganna eru til afgreiðslu á Alþ. Er hægt að hugsa sér aumari frammistöðu, en tilburði Ólafs Thors, formanns Sjálfstfl., og annarra foringja flokksins við afgreiðslu efnahagsmálanna nú að þessu sinni, þar sem hann hefur og flokksmenn hans ekkert haft jákvætt til málanna að leggja, en aðeins neikvætt nöldur?

Bjarni Benediktsson, 1. þm. Reykv., sá, í hvert óefni stefndi fyrir flokknum með þessum vinnubrögðum, og hann kaus því að stinga sér úr landi, á meðan á efnahagsmálunum stóð á Alþ. Jóhann Hafstein fór að dæmi hans og stakk sér út líka. Bjarni hefur legið og sólað sig suður við Miðjarðarhaf, en Jóhann fór til Ameríku. Reisur þessara íhaldsforingja bera að vísu ekki vott um mikla ábyrðartilfinningu, þegar vitað var, að stórmál eins og landhelgismálið og efnahagsmálin lágu fyrir þinginu. En þeim er vorkunn, eins og stefna eða stefnuleysi þeirra flokks er í þessum málum.

Ein höfuðafsökun íhaldsforingjanna fyrir því, að þeir þora engar tillögur að leggja fram til lausnar í efnahagsmálunum, er sú að þeir viti svo lítið um þessi mál. Þá vantar skýrslur og upplýsingar. Hvað er að heyra? Mennirnir, sem stjórnað hafa sjávarútvegsmálum þjóðarinnar um 17 ára skeið og fylgzt hafa stig af stigi með þeim vanda, sem þeir hafa sjálfir leitt yfir þessa atvinnugrein, þykjast nú ekkert vita og spyrja nú eins og börn um einföldustu atriði málsins. Auðvitað er þessi uppgerðarheimska hlægileg, því að flokkurinn á fulltrúa enn þá í öllum þeim nefndum og stofnunum, sem daglega hafa með málefni atvinnuveganna að gera. Sjálfstfl. á fulltrúa í bönkum landsins, í stjórn útflutningssjóðs í innflutningsskrifstofunni, í stjórnum helztu sölufélaga framleiðslunnar og í félagssamtökum útgerðarmanna. Skortur á upplýsingum háir ekki foringjum íhaldsins í þessum málum.

En hvað er það þá, sem veldur, að þeir leggja ekki fram sín úrræði? Ástæðan er sú, að þeir vita, að úrræði þeirra eru óvinsælli, en jafnvel þær álögur, sem þeir skrökva upp að stj. sé að leggja á landslýðinn. Íhaldið segir, að þær nýju álögur, sem nú eigi að demba á þjóðina, nemi 790 millj. kr. Það segir, að af þessu nemi hækkunin til útflutningssjóðs 650 millj. kr. Hér er ekki um neina smáræðisfúlgu að ræða, þegar það er haft í huga, að allar tekjur útflutningssjóðs s. l. ár námu aðeins 370 millj. kr. Tekjur sjóðsins ættu því nærfellt að þrefaldast samkv. þessum upplýsingum íhaldsins. En sömu foringjar íhaldsins sem þetta segja, þegar þeir eru að mála upp hinar gífurlegu álögur, sem almenningur þarf að taka á sig, segja svo í sömu andránni, að allar greinar framleiðslunnar fái skarðan hlut og því megi jafnvel búast við því, að framleiðslulífið allt stöðvist. Hversu lengi halda íhaldsmenn að svona málflutningur dugi þeim? Halda þeir, að almenningur sé svo skyni skroppinn, að hann finni ekki mótsagnirnar í þessu? En hvernig getur annars staðið á þessum háu tölum, sem íhaldið nefnir um álögur á þjóðina? Jú, skýringin er sú, að vísvitandi taka þeir hækkun, sem verður á veiðarfærum, skipum og bátum og öðrum rekstrarvörum, og telja þá hækkun álögur á almenning í landinu. Auðvitað greiðir framleiðslan sjálf þessa hækkun, því að hún fær jafnmikla hækkun í fiskverði sem nemur rekstrarvöruhækkuninni. Á sama hátt er leikið sér með tölur af svonefndum duldum greiðslum. Á þennan hátt er reynt að halda því fram, að álögurnar séu margfalt hærri, en þær raunverulega eru.

Hv. þm. G-K., Ólafur Thors, og þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, hafa gerzt hér í umræðunum í kvöld æði stórorðir um efnahagsmálatillögur ríkisstj., en þeir hafa ekki haft mörg orð um úrræði sín. Væri nú ekki æskilegt, að þm. (G-K., Ólafur Thors, upplýsti hér í þessum umr., t. d. útgerðarmenn í Keflavík og Sandgerði, um það, hvernig hann mundi hafa mætt kröfum þeirra um fiskverðshækkun um síðustu áramót og hvernig hann nú vill afla tekna til þess að standa undir auknum greiðslum til framleiðslunnar? Eða getur það verið, að Ólafur Thors hefði með öllu neitað sjómönnum og útvegsmönnum um þá leiðréttingu, sem þeir þá fengu? Væri líka ekki æskilegt, að þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, sem mætti sem fulltrúi útgerðarmanna úr sinni sýslu á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna um s. l. áramót og tók þar þátt í að krefjast miklu hærri bóta útgerðinni til handa en síðar varð samkomulag um við útvegsmenn, — væri ekki rétt, að hann skýrði einmitt hér í þessum umr. frá því, hvar hann vil taka fé í stórauknar bætur til framleiðslunnar? Ja, ábyrgð fylgir vegsemd hverri, þm. N-Ísf. Það er ekki hægt að mæta sem kröfuhafi á útgerðarmannafundi og krefjast aukinna styrkja, en heykjast svo á Alþ., þegar á reynir, að afla nauðsynlegra tekna upp í hluta af þeim kröfum, sem maður hefur sjálfur gert.

Það væri sannarlega æskilegt, að þessir talsmenn íhaldsins vildu gefa skýr svör við þessu einmitt hér frammi fyrir þjóðinni og á þann hátt, að samtímis mættu heyra mál þeirra sjómenn og útvegsmenn í Keflavík og Bolungavík og launþegar í Reykjavík og aðrir, sem ekki eru framleiðendur og íhaldið er alltaf að nudda sér upp við. Þessir herrar þurfa að segja togarasjómönnum, hvort þeir raunverulega vilja gera kleift að koma upp lífeyrissjóði þeim til handa. Þeir þurfa að segja, hvort þeir vilja afla fjár, svo að fiskveiðasjóður geti lánað til nýbyggingar fiskiskipa. Þeir þurfa að svara því, hvort þeir vilja leysa togaraútgerðina úr taprekstrinum og hvort þeir vilja afla tekna, svo að hægt verði að halda uppi eðlilega háu síldarverði í sumar. Eða á kannske að láta verðfallið á síldarafurðunum skella á sjómönnum og útgerðarmönnum? Tilgangslaust með öllu er að setja upp sauðarsvip og þykjast ekkert vita. En ekkert svar frá þeirra hálfu er líka svar, og það svar verður munað.

Við Alþb.-menn viðurkennum, að í efnahagsmálatill. stj. eru ýmis ákvæði, sem við óttumst að kunni að leiða af sér meiri verðhækkun, en auðvelt verður að ráða við. Við hefðum kosið að hafa ýmis ákvæði laganna á annan veg en það samkomulag, sem varð um afgreiðslu málsins. Framkvæmd laganna mun ráða miklu um, hvernig þau reynast. Miklu skiptir um verðlagseftirlit, hvernig það tekst, en þó enn þá meir um það, hvernig stjórn bankanna verður á peningamálunum og hvernig til tekst með skipulag þjóðarbúsins, fjárfestingarmál og þróun atvinnuveganna.

Það er skoðun okkar, að tekjuöflunarfrv. eins og það, sem nú er nýlega orðið að lögum, komi að litlu gagni og aðeins skamma hríð, ef ekki tekst að auka útflutningsframleiðslu þjóðarinnar og þar með gjaldeyristekjurnar. Aukinn útflutningur er það, sem öllu skiptir í þessum efnum. Undirstaða þess, að svo megi verða, er stækkun landhelginnar, stækkun fiskiflotans, meiri vinnsla úr fiskinum og síðast, en ekki sízt, fleiri landsmenn að framleiðslustörfunum.

Það má öllum vera ljóst, að vaxandi fjárfesting með minnkandi útflutningi getur ekki gengið öllu lengur. Fjárfestingin í landinu hefur verið meiri síðustu árin, en gjaldeyrisþol þjóðarinnar hefur leyft. Hefðum við fjárfest 200 millj. kr. minna s. l. ár eða álíka mikið og árið áður og jafnframt beint því vinnuafli, sem þannig hefði losnað, til útflutningsframleiðslunnar, þá hefðum við ekki þurft að greiða 35 millj. kr. í gjaldeyri til erlendra sjómanna og þá hefðum við að líkindum ekki þurft að glíma við þann vanda, sem nú hefur verið glímt við í efnahagsmálunum.

Á s. l. 6 árum hefur þjóðin haft til ráðstöfunar 1.500 millj. kr., eða hálfan annan milljarð, sem fengizt hefur sem erlent gjafafé eða greiðsla frá herstöðinni í Keflavík. Þessi mikla fjárhæð hefur sagt til sín í íslenzku efnahagslífi. Hún hefur villt mörgum sýn um raunverulegar og traustar árlegar tekjur þjóðarinnar. En það er kominn tími fyrir okkur að átta okkur á þessum staðreyndum. Auknar framleiðslutekjur verða að koma í stað tekna af þessu tagi, ef þjóðin vill búa við efnahagslegt sjálfstæði. Herstöðin á Miðnesheiði hefur orðið Íslendingum dýr á marga vegu. Hún hefur truflað allt efnahagslíf okkar. Hún hefur skapað hér gullgrafaraæði gráðugra okurkarla. Hún hefur raunverulega lagt þungar búsifjar á framleiðsluatvinnuvegi landsins og valdið óeðlilegum fólksflutningum í landinu. En auk þessa hefur svo herstöðin sljóvgað sjálfstæðisvitund þjóðarinnar og djarfmannlega framkomu gagnvart erlendum þjóðum. Barátta fyrir efnahagslegu sjálfstæði verður jöfnum höndum barátta fyrir brottför hersins úr landinu og fyrir uppbyggingu traustra atvinnugreina í landinu.

Af þessum ástæðum leggur Alþb. nú höfuðáherzlu á stækkun landhelginnar sem undirstöðu efnahagslífsins í landinu, kaup á nýjum fiskiskipum, meiri fiskiðnað og aukna útflutningsframleiðslu. Það eitt getur tryggt góð lífskjör í landinu og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar á komandi árum, — Góða nótt.