21.02.1958
Sameinað þing: 29. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur athugað þetta mál, en tveir hv. þm., sem sæti eiga í kjörbréfanefnd, voru ekki viðstaddir, þeir Bjarni Benediktsson, 1. þm. Reykv., og Friðjón Þórðarson, 11. landsk. þm.

Fyrir n. var lagt símskeyti, þar sem kjörbréfið sjálft liggur ekki fyrir, — það er frá formanni yfirkjörstjórnar Suður-Múlasýslu og er svo hljóðandi:

„Út hefur verið gefið kjörbréf handa Helga Seljan Friðrikssyni sem fyrsta varaalþingismanni af lista Alþýðubandalagsins við alþingiskosningar, sem fram fóru í Suður-Múlasýslukjördæmi hinn 24. júní 1956.

Lúðvík Ingvarsson, formaður yfirkjörstjórnar Suður-Múlasýslu.

Undirskriftina staðfestir Auður Valdimarsdóttir, símastúlka.“

N. var sammála um að mæla með því, að þetta símskeyti yrði tekið gilt sem kjörbréf og kosningin yrði samþykkt og kjörbréfið samþykkt.