06.12.1957
Neðri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það stóð nú þannig af sér, að ég hafði ekki aðstöðu til að mæta hér á þingfundi í gær, þegar mál þetta var til umr., en sé nú á blaðaskrifum, að hér hafa farið fram nokkrar umræður um málið og m.a. verið gert allmikið úr því, að ég hafi ekki verið hér viðstaddur til þess að svara hér tilteknum athugasemdum, sem fram komu ummálið. Og nú voru lagðar hér fram sérstakar fsp., sem ég skal reyna að víkja nokkuð að.

Sérstaklega hefur verið fundið að því hér, að ekki hafi verið gerð grein fyrir því, hvaða ástæður raunverulega hafa legið til þess, að frv. þetta hefur verið flutt. Hér er vitanlega um misskilning að ræða, því að það hefur verið gerð alveg skýr grein fyrir því, hvaða ástæður liggja til þess, að frv. er flutt. Þegar frv. var lagt fram í Ed., gat ég þess, að það væru tvær meginástæður til þess, að þessi brbl. hefðu verið sett, en frv, er síðan nú til staðfestingar á brbl. Önnur ástæðan er sú, að rétt þótti að gera hag íslenzkra flutningaskipa nokkru betri í samkeppninni við erlend flutningaskip, sem vörur flytja samkv. flutningatöxtum, sem skráðir eru á opnum markaði. En eins og kunnugt er, þá er það svo með íslenzku flutningaskipin, að sum þeirra taka megintekjur sínar eftir flutningatöxtum, sem eru ákveðnir hér innanlands af verðlagsyfirvöldunum og hafa tekið vissum breytingum á hinum ýmsu tímum, en önnur íslenzku skipin flytja að mestu leyti vörur að og frá landinu eftir flutningatöxtum, sem eru ákveðnir á frjálsum markaði.

Nú var það svo, að þau skipafélög, sem einkum höfðu tekjur af hinum íslenzku flutningatöxtum, — þar með var sérstaklega Eimskipafélag Íslands, sem aðallega vinnur á þeim grundvelli, — höfðu fengið talsverða hækkun á farmgjöldum fyrr á árinu eða sem nam 5%, og nú upp úr vinnudeilunni s.l. sumar, þótti einnig rétt að fallast á það, að þessi flutningsgjöld yrðu hækkuð um 11/2%,svo að þarna var raunverulega orðið um hækkun að ræða, sem nam 61/2%. Á sama tíma voru önnur íslenzk flutningaskip þannig sett, að þau höfðu ekki fengið vegna ákvarðana hér innanlands neina hækkun á sínum tekjum, heldur þvert á móti höfðu þau orðið fyrir verulegri tekjulækkun, af því að fragtir á hinum opna markaði höfðu verið verulega fallandi. En áhrif ýmiss konar innanlandshækkana komu vitanlega jafnt við þessi skip og hin. Kauphækkunin, sem samið var um í vinnudellunni s.l. sumar, hlaut vitanlega alveg eins að verka á þennan hluta íslenzka kaupskipaflotans eins og hinn, sem bjó við þessi ákveðnu innlendu kjör.

Með tilliti til þessa þótti rétt að mæta ástæðum íslenzku flutningaskipanna þannig að setja þau ákvæði, sem þetta frv. felur í sér, þ.e. ákveðið yfirfærslugjald á allverulegan hluta af skipaleigum þeim, sem hér er nú um að ræða í samkeppni við íslenzku skipin, sem sagt að leggja allt upp í 8% yfirfærslugjald á erlendu skipaleigurnar, en það mundi að sjálfsögðu skapa íslenzku skipunum, sem kepptu við erlendu skipin, aðstöðu til þess að hækka sínar fragtir í þessum tilfellum sem þessu nam.

Þetta var nú önnur meginástæðan fyrir því, að þessi lög voru gefin út. Hin ástæðan var svo sú, að útflutningssjóður var í mikilli tekjuþörf. Hann þurfti á auknum tekjum að halda, og af því þótti rétt, að þær tekjur, sem inn hefðust á þennan hátt með því að leggja yfirfærslugjald á erlendar skipaleigur, rynnu í útflutningssjóð, en oft áður hafði verið einmitt rætt um það, hvort ekki væri rétt að leggja slíkt yfirfærslugjald á gjaldeyrisyfirfærslu vegna slíkra greiðslna.

Fleira vitanlega kom svo hér til, þó að þetta séu tvær meginástæðurnar. Hitt hefur svo alltaf verið, að það hefur skiljanlega verið vilji íslenzkra stjórnarvalda að hlynna fremur að íslenzku flutningaskipunum en þeim útlendu, og hefur oft verið gripið til þess að veita þeim algeran forgang til þess að fá flutninga, og hefur það skiljanlega verið gert líka í gjaldeyrissparnaðarskyni, og okkar gjaldeyrismál stóðu einnig þannig nú, að það skipti okkur miklu máli, að við fullnotuðum okkar íslenzku skip og leigðum í engu tilfelli erlend skip fram yfir það, sem óhjákvæmilegt væri eða flutningaþörfin yrði meiri, en íslenzku skipin gætu annað.

Það er líka misskilningur, sem ég hef séð hér í blöðum um þessar umræður, sem hér fóru fram í gær, að um þetta hafi verið haft nokkurt pukur. Frá þessu var skýrt í blöðum nokkru upp úr vinnudeilunum s.l. sumar, að fallizt hefði verið á samninga við skipafélögin um að gera hag þeirra nokkru betri, en reynt væri að koma þeim málum þannig fyrir, að til sem allra minnstrar verðhækkunar kæmi í verðlaginu hér innanlands. Og það var talið, að hækkun á hinum lögákveðnu eða reglugerðarbundnu frögtum hér innanlands um 11/2 % mundi yfirleitt ekki koma út í hinu almenna verðlagi fyrr, en þá seint og um síðir, því að þetta munaði svo tiltölulega litlu í hverju einstöku tilfelli. Og hitt var líka gefið mál, að það stóð þannig af sér, að það voru litlar líkur til þess, að þetta 8% gjald, sem fyrirhugað var á flutningsgjöldin í hinum tilfellunum, gæti komið fram sem beinar verðhækkanir, vegna þess að eins og ég sagði áður, þá stóðu málin þannig um þetta leyti, að einmitt þær vörur, sem hér var einkum um að ræða, voru verulega lækkandi, enda hefur það sýnt síg, að þrátt fyrir þetta hefur sement og annað það, sem aðallega hlaut að fá þessi gjöld á sig, farið lækkandi. En það er rétt, að vissulega hefði út af fyrir sig átt að vera hægt að koma þar fram enn þá meiri lækkun, ef ekki hefði þurft að grípa til þessarar ráðstöfunar. Hér á Alþingi hefur heldur ekkert pukur verið haft um þetta, því að frá þessu var skýrt strax þegar málið var hér lagt fram og það greinilega. Hér er það ljóst fyrir öllum, að þetta voru ástæðurnar til þess, að lögin voru sett og frv. nú flutt.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) var svo hér með þrjár tilteknar spurningar í tilefni af því, að þessi lög hafa nú verið í gildi í nokkra mánuði, og spyr nú um það, hvaða tekjur útflutningssjóður hafi fengið af þessum yfirfærslugjöldum. Ég get ekki upplýst það hér. Það flokkast ekki undir mitt rn. að fylgjast með því eða standa í sambandi við þessar innheimtur. Ég get ekki sagt um það. En hins vegar er auðvelt að afla upplýsinga um það, og ef hann flytur um það hér fsp. skriflega, þá er vitanlega sjálfsagt að svara því, því að það er aðeins að taka það upp, sem inn hefur komið í þessu efni. Við síðari umr. málsins hér ætti líka að vera hægt að taka þetta upp til þess að upplýsa þetta. En ég hygg nú, að einfaldast sé að spyrja banka þá, sem hafa með framkvæmd málsins að gera, eða útflutningssjóð sjálfan í rauninni um það, hvað þetta hafi þegar gefið mikið í tekjur, en ég hygg nú, að það sé ekki ýkja mikið, enda aldrei gert ráð fyrir því, að hér væri um ýkja mikinn skatt að ræða.

Þá var spurt um það, hvernig hagað væri innheimtunni. Innheimtunni er hagað skv. þeim reglum, sem um þetta voru settar á nákvæmlega sama hátt og með önnur yfirfærslugjöld, að þegar greiðslan fyrir hinar erlendu skipaleigur er yfirfærð hér, þá ber að greiða þetta yfirfærslugjald skv. settum reglum, og fer því um það nákvæmlega á sama hátt og með annað yfirfærslugjald.

Í þriðja lagi, hvað þetta hafi svo styrkt íslenzku skipafélögin mikið, það svarast af því, þegar maður fær að vita, hvað þetta hafi þegar numið mikilli upphæð. Þá mun það láta nokkuð nærri. Þó skal ég ekki fullyrða um það. Það er líka vitanlega hægt að taka það upp, hve margir farmar eða hve mikið magn af vörum, sem undir þetta falla, hefur verið flutt til landsins síðan, og áætla, hvað það muni hafa gert mikið. En hitt hygg ég þó að hafi einkum vakað fyrir hv. þm., þegar hann setti fram þessa spurningu, hve hér hafi raunverulega verið gengið langt til móts við kröfur skipafélaganna upp úr verkfallinu s.l. l. sumar, miðað við þær kröfur, sem þau gerðu. Og það er óhætt að segja það um þær hækkanir, sem þarna voru ákveðnar, 11/2% á stykkjavörufragtinni og svo þessi 8% á nokkrum vöruflokkum varðandi leiguna til erlendra skipa, að hér var aðeins um að ræða lítinn hluta af þeim kröfum, sem skipafélögin settu fram og töldu að þau þyrftu að fá í tekjuauka vegna hækkaðra útgjalda, sem stöfuðu af samningunum í vinnudeilunni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að ræða þetta frekar, nema tilefni gefist til, en þannig liggur þetta mál fyrir, eins og ég hef nú upplýst og ég hélt að öllum hefði í rauninni verið fullljóst fyrir.