11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. mælti eindregið á móti því, að af sinni hálfu eða stjórnarflokkanna hefði verið reynt að hafa nokkra launung á þessu máli eða tildrögum þess. Ég vil einungis ítreka það, sem áður hefur komið fram, að það var ekki fyrr heldur, en það var knúið fram af hv. 5. þm. Reykv. hér í þessari hv. deild, að í ljós kom það samhengi, sem þetta mál er í við lausn farmannaverkfallsins á s.l. sumri. Hvorki í grg. frv., í ummælum þeim, sem hæstv. fjmrh. lét fylgja frv. við 1. umr., né í fyrstu skýringum hv. frsm., hv. þm. V-Húnv., var nokkuð að því vikið, að þetta frv. væri ávöxtur af farmannadeilunni. Ég vil enn fremur spyrja hæstv. sjútvmrh. um það, hvort hann hafi sérstaklega gert grein fyrir því í Ed. Vel kann svo að vera, og þá hefur hann þar reynzt hreinskilnar en oft ella og á maklegt lof skilið fyrir það. En hafi hann aftur á móti ekki gert grein fyrir eðlilegu samhengi málsins í Ed., er það enn einn þáttur í því, hvernig reynt hefur verið að dylja hinar sönnu orsakir og ástæður þessa frv. Þá kom það fram hjá hæstv. ráðh., sem honum hættir ákaflega mikið til, ef hann lendir í vandræðum, þá vísar hann til einhverra allt annarra aðila. Allir þm. minnast þess, hvernig hann á síðasta Alþingi, er hann var lentur í vandræðum út úr okurálagningu á Hamrafells-farmgjöldin, vitnaði til þess, að í raun og veru hefði hann sjálfur engin úrslitaráð um þessi efni, heldur væri það hans samráðherra, hæstv. félmrh., sem þarna hefði öllu ráðið. Okkur hinum finnst nú ekki hæstv. félmrh. vera slíkur bógur, að það sé mikið skjól í því að skjóta sér á bak við hann, en hæstv. sjútvmrh, taldi sig þó svo illa kominn á berangri, að hann skreið í það skjól. Svipað átti sér stað að alþjóðarvitund í sumar, einmitt í sambandi við farmannadeiluna. Þá er það vitað, að hæstv. sjútvmrh. hvað eftir annað sagði við deiluaðila og sérstaklega farmennina, að hann væri sjálfur út af fyrir sig sammála svo eða svo góðri lausn, þeim hagkvæmri, á deilunni, en hann fengi einungis vilja sínum ekki fram komið vegna þess, að samráðherrarnir stæðu á móti honum. Það er því engin nýjung, þó að þessi hæstv. ráðh. reyni að bera aðra fyrir sig og skjóta sér í þeirra skjól, þegar illa er fyrir honum komið. Og svo reyndist einnig í þessu máli.

Þegar hæstv. ráðh. var spurður um það, hvernig þessi lög hefðu reynzt í framkvæmd, hverjar tekjur hefðu orðið af þeim; annars vegar fyrir útflutningssjóð, hins vegar fyrir hin innlendu skipafélög, þá sagði hæstv. ráðh., að það væri alls ekki sig að spyrja að þessu, það yrði að spyrja forráðamenn útflutningssjóðsins að þessu, þeir gætu vafalaust svarað þessu, en hann ekki. Nú er það auðvitað algerlega á móti réttum stjórnarháttum, að ráðh. vísi um svör til sinna undirmanna. Það er ráðherrann, sem er æðsti maður sinnar stjórngreinar, ber ábyrgð á því, sem þar fer fram, og Alþingi á óskoraðan rétt til þess, að hann svari fyrir, og ráðherranum er með öllu óhæfilegt að vísa þar til; að þingmenn eigi aðgang að hans undirmönnum. Hitt kynni að vera frekar, að hæstv. ráðh, hefði getað borið það fyrir sig, ef útflutningssjóður heyrði undir einhvern annan hæstv. ráðh., en sjálfan hann. En þess vegna verð ég að spyrja: Er það ekki raunverulega einmitt sjútvmrh., sem úrslitaráðin hefur um og úrslitaumsjón hefur með útflutningssjóði, að svo miklu leyti sem sú umsjón heyrir undir einn ráðh., eða er það öllu frekar hæstv. fjmrh., sem nú er að hvíslast á við ráðherrann og segja honum til um einhver málefni, sem þarna ræður öllu? Ég hefði haldið af því, sem ég bezt vissi, að hæstv. fjmrh. vildi algerlega þvo hendur sínar af þessum sjóði og honum hefði reynzt það nóg, að sannazt hefur, að hann veit jafnlítið um raunverulega afkomu ríkissjóðsins og komið er á daginn, þar sem upplýst er orðið, að jafnvel hæstv. félmrh., sem einna minnstur fjármálamaður allra þingmanna hefur verið talinn til þessa, hefur, að því er ljóst er orðið, sagt betur til um afkomu ríkissjóðsins við umræðurnar í haust, en hæstv. fjmrh., ef marka má þá afgreiðslu fjárlaganna, sem nú er fyrirhuguð, sem ég að vísu engan veginn segi að sé að marka, heldur má vel vera, að þar sé um hreinan blekkingarleik að ræða eins og að svo mörgu öðru leyti í starfsemi stjórnarinnar. En ég hélt sem sagt, að hæstv. fjmrh. hefði nóg með sig og sinn sjóð og væri þess vegna alveg einráðinn í því að láta hæstv. sjútvmrh. útflutningssjóðinn eftir, og ég vil þess vegna spyrja hæstv. sjútvmrh. að því: Er búið að gera á þessu aðra skipan, en í upphafi var ráðgerð? Er það ekki einmitt hann sjálfur, sjútvmrh., sem öðrum ráðherrum fremur hefur umsjón með þessum sjóði, og ef svo er ekki, af hverju hafði þá einmitt þessi ráðh. þau mjög einkennilegu afskipti af fjárreiðum sjóðsins, sem fram komu rétt fyrir aðalfund Landssambands ísl. útvegsmanna, þegar einmitt eftir afskipti þessa hæstv. ráðh, hagur sjóðsins var sagður batna um milljónir, ef ekki milljónatugi, á nokkrum dögum? Mönnum skildist, að hæstv. ráðh. vildi þá láta þakka sínum dugnaði og forsjá þá miklu breytingu, sem á var orðin og að vísu var ekki raunveruleg frekar, en flest annað hjá hæstv. ríkisstj., heldur var það, sem gerðist, einungis, að leiktjöldunum var dálítið hagrætt og útlitið gert nokkru betra, en það í raun og veru var.

Nei, hæstv. sjútvmrh. kemst ekki hjá því, að hann verður eftir réttum þingræðisreglum hér á Alþ. að svara til um það, þegar spurt er um afkomu útflutningssjóðs, og hann verður hér á Alþ. að svara til um það, þegar spurt er, hverjar tekjur skipafélögin hafi haft af þeirri verðlagshækkun, sem gerð var í skjóli þessara laga. Það er ekki einungis af formlega stjórnskipulegum ástæðum, sem eðlilegt er, að alþm. snúi sér til þessa hæstv. ráðh. um það efni, heldur kemur það einnig af því, að það er vitað, að með þessum lögum er verið að efna fyrirheit, sem einmitt þessi hæstv. ráðh. gaf í sambandi við lausn farmannadeilunnar og hann lét þá óspart í skina og raunar sagði við aðila, að hann hefði orðið að framþvinga gagnvart sínum meðráðherrum, af því að þeir hefðu viljað hafa allt annan hátt á, í þessum efnum, enda er það vitað, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að t.d. hæstv. félmrh. beinlínis beitti áhrifum sínum til þess, að farmannadeilan yrði leyst á allt annan hátt. Hann vildi láta beita hreinni lögþvingun, láta banna verkfallið, sbr. þá samþykkt, sem hann útvegaði frá Akureyri og lét Alþýðusambandið síðan senda áleiðis.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. sjútvmrh. að því vegna ummæla, sem féllu hjá hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), hvort það sé rétt, sem fleygt hefur verið á erlendum vettvangi, að sú mismunun, sem gerð er á milli útgerðarmanna og eigenda skipa í þessum lögum, kunni að brjóta í bága við einhverja samninga, sem ríkið hafi gert út á við, annaðhvort í sambandi við efnahagssamvinnustofnunina í París eða einhverja aðra þvílíka samninga. Þessu hefur verið haldið fram. Hv. 5. þm. Reykv. vék að þessu í umræðunum, og það er nauðsynlegt fyrir þm., áður en þeir taka endanlega afstöðu til þessa máls, að vita um það með vissu, — hafa fullyrðingu ríkisstj. í a.m.k. stað annars enn öruggara um það, að hún hafi kannað, að það sé fullvíst, að hér sé ekki brotið á móti neinum samningum við erlend ríki eða alþjóðasamtök.

Eins og ég gat um, þá játaði hæstv. sjútvmrh. berum orðum í umr. á dögunum, að þetta frv. væri sett í sambandi við lausn farmannadeilunnar, en hann hældist hins vegar um yfir því, að það hefði aðeins verið lítill hluti af kröfum útgerðarfélaganna tekinn til greina með þeirri verðlagshækkun, sem hér hefði átt sér stað. Ég hygg, að ég hafi lesið, m.a. í málgagni hæstv. sjútvmrh., frásögn af því, að skipafélögin hafi fengið kringum helming af sínum kröfum með þeirri hækkun, sem þeim var hér veitt. Og ég skal ekki segja, hvort það verður talinn mikill eða lítill hluti, — lítill hluti verður helmingur aldrei talinn af því, sem gerð er krafa um. Sannast er og að segja, að við alla slíka kröfugerð er gert ráð fyrir nokkurri og oft ekki svo lítilli afskrift, bæði af hálfu vinnuveitenda og verkfallsmanna, og er ekki ósennilegt, án þess að ég hafi um það nokkra vitneskju, að slíks hafi gætt við meðferð þessa máls, eins og tíðkanlegt er. En aðalatriðið er, að skipafélögin fengu hér sem svaraði helmingi af því, sem þau formlega settu fram sem sínar kröfur. Ég þori að fullyrða, að ef ríkisstj. eða talsmaður hennar, hæstv. sjútvmrh., hefði boðið þetta eða eitthvað því líkt fram á fyrra stigi málsins, þá hefði deilan orðið ólíkt auðleystari, en hún reyndist. Ég þori að fullyrða, að það var einmitt vegna þess, að hæstv. sjútvmrh. vildi ekki bjóða fram neitt þessu svipað, sem svo lengi stóð á lausn deilunnar.

Það mun að vísu vera rétt, að nokkuð snemma í deilunni hafi hæstv. sjútvmrh. viðurkennt, að ekki væri við því að búast, að útgerðarmenn gætu að neinu verulegu leyti orðið við fram komnum kröfum, nema því aðeins að þeir fengju sín útgjöld upp bætt með einum eða öðrum hætti. Þetta sögðu aðilar, sem heyrðu mál hæstv. ráðh., og síðan var sagt frá þessu í blöðum. En þá brá svo við, að hæstv. sjútvmrh. gaf yfirlýsingu um það, að hann hefði ekkert slíkt fyrirheit gefið, og eftir það var sýnt, að útgerðarmenn gátu ekki treyst neinu í þessu nema endanlega bindandi og formlegu loforði ráðh. Það var komið í ljós, sem við hér á Alþ. vitum og tökum sem hvern annan sjálfsagðan hlut, að orðum þessa hæstv. ráðh. er ekki treystandi að mjög miklu leyti, svo að um það sé brúkað þinglegt orðbragð. Það vissum við hér á Alþ., en auðvitað var útgerðarmönnum þetta ekki jafnkunnugt og alþm. öllum í heild og hverjum um sig er. Þeir höfðu þess vegna í upphafi löngun til þess að trúa fagurmælum hæstv. ráðh. En eftir að hann hafði lýst yfir því, að hann hefði aldrei gefið neina slíka yfirlýsingu, sem þeir með eigin eyrum höfðu heyrt ráðh. gefa, þá hvarf traust þeirra að verulegu leyti og óhjákvæmilega.

Það var þess vegna ekkí fyrr, en það lá alveg ljóst og ótvírætt fyrir, hve mikil þátttaka ríkisstj. mundi verða með löggjöf eða verðlagshækkunum, að deilan varð leysanleg. En sama dag og það lá ótvírætt fyrir, að sjútvmrh. vildi inna það af höndum, sem í þessu frv. kemur fram og í verðlagshækkunum að öðru leyti, þá leystist deilan. Það þarf sannarlega ekki frekar vitnanna við, að það var vegna hins vægast sagt mjög einkennilega háttalags hæstv. sjútvmrh., þegar hann lét boð út ganga um það, að það væri ekki að marka fyrsta, annað eða jafnvel þriðja tilboðið, sem gert yrði, það mundu koma önnur betri á eftir, og að öðru leyti það, hversu hann var staðinn að því að gefa yfirlýsingar, sem ekki stóðust, — það var af þessum rökum fyrst og fremst, sem þessi deila í sumar varð jafnerfið viðureignar sem hún reyndist. Menn nákunnugir þessum málum, sem séð hafa slíkar deilur árum saman og tekið hafa þátt í þeim, sögðu, að það væri vonlítið að leysa deiluna, meðan hæstv. sjútvmrh. léki þar lausum hala, enda varð það, eins og ég segi, ekki fyrr en hann var negldur niður á alveg ákveðin tilboð, sem öll stjórnin reyndist standa að, sem lausnin fékkst, og þá fékkst hún einmitt sama daginn.

Það er nauðsynlegt, að þetta komi fram í sambandi við þetta mál, því að ef sú verðlagshækkun, sem hér er heimiluð, og þær verðlagshækkanir að öðru leyti, sem leiddi af lausn deilunnar, eru réttmætar og áttu að koma, þá var auðvitað sjálfsagt af ríkisstj. að beita sér fyrir, að það yrði miklu fyrr, en ofan á varð til þess að spara öllu þjóðfélaginu þau gífurlegu óþægindi og útgjöld, sem þessu hér um bil 7 vikna verkfalli voru samfara.

Þá var einnig mjög fróðlegt að heyra það, sem hæstv. ráðh. hafði að segja varðandi lausn flugmannadeilunnar. Við höfum til skamms tíma mátt lesa það, sérstaklega í Tímanum, en einnig í málgagni hæstv. sjútvmrh. nú síðustu vikuna, að flugmannadeilan hafi nánast verið eitt af þeim skemmdarverkum, sem sjálfstæðismenn hafi beitt sér fyrir, og bæði Tíminn og Þjóðviljinn hafa vakið sérstaka athygli á því og talið það mjög miklu skipta, að tengdasonur Ólafs Thors hafi verið einn af forustumönnunum í þessu verkfalli og hafi komið þessari deilu af stað. Hefur verið ómögulegt að skilja málflutning þessara aðila á annan veg en þann, að ef þessi tengdamaður formanns Sjálfstfl. hefði ekki verið þarna að verki, þá hefði aldrei til flugmannaverkfallsins komið né til neinna kauphækkana í sambandi við það.

Nú upplýsir hæstv. sjútvmrh. allt annað. Hann heldur hér skelegga varnarræðu fyrir því, að flugmennirnir hafi átt að fá miklar kjarabætur. Hann segir að vísu: Sjálfar kauphækkanirnar voru óverulegar, en þeir fengu nokkur gjaldeyrisfríðindi. — Hann viðurkennir það. Hann telur að vísu, að það sé of mikið gert úr bæði kauphækkunum og gjaldeyrisfríðindum með því að segja, að þetta hafi numið samtals milli 35 og 40% raunverulegum kjarabótum. Það er hans fullyrðing, gersamlega órökstudd.

Hv. 9. landsk. þm. (ÓB) færði rök að því, að þessar kjarabætur eru í raun og veru mun meiri, en þær í fljótu bragði sýnast, t.d. vegna þess, að það verður skattfrjáls í framkvæmd sá hagnaður, sem menn fá af því að fá erlendan gjaldeyri í stað íslenzkra króna. Það hefur nýlega verið upplýst í blaði hæstv. sjútvmrh. af aðalefnahagsmálaráðunaut hæstv. ríkisstj., Haraldi Jóhannssyni, og þar margendurtekið, að íslenzka krónan væri nú ofskráð. Ef hún er ofskráð, þá liggur það í augum uppi, að þegar menn eru að sækjast eftir erlendum gjaldeyri, þá eru þeir að fá þann gjaldeyri til þess að geta notið þess verðmætis, sem felst í hinum erlenda gjaldeyri umfram þann íslenzka vegna formlegrar ofskráningar íslenzka gjaldeyrisins. Hér er því áreiðanlega samanlagt um mjög verulegar fjárhæðir að ræða. Kunnugustu menn hafa fullyrt, að kjarabæturnar hjá þeim, sem þær fengu mestar samkvæmt þessari deilu, hafi numið 35–40%, aðrir hafa sagt, að þegar á allt er lítið, muni kjarabæturnar nema enn þá meira fé. Ég vil ekki fullyrða, að það sé rétt, en ég vil fullyrða, að vefenging hæstv. sjútvmrh, á því, að kjarabæturnar nemi þeirri tölu, sem nefnd hefur verið, hefur ekki við rök að styðjast, heldur verður að vísa henni frá sem órökstuddri og út í bláinn, a.m.k. þangað til hann gerir einhverja tilraun til þess að styðja hana með málefnalegum rökum.

Það var einnig mjög hæpið, þegar hæstv. sjútvmrh. vildi rökstyðja þá hækkun, sem hann hér viðurkenndi, með því, að í ljós hefði komið, að flugmenn væru lengur erlendis ,en aðrir farmenn. Það má vel vera, að reglurnar um gjaldeyrishlunnindi sjómanna séu að einhverju leyti orðnar úreltar; það er ekki mín skoðun, en mér skildist, að það væri skoðun hæstv. sjútvmrh. Ef svo er, þá ber honum skylda til þess að taka þær upp til endurskoðunar. En þess ber að gæta, að vitanlega þarf maður meira á erlendum gjaldeyri að halda, ef maður er vikum og jafnvel mánuðum saman burtu frá sínu heimili, eins og oft er um sjómenn, heldur en þótt maður skreppi dag og dag úr landi, ef dvalartíminn hverju sinni nemur ekki nema einum eða tveimur sólarhringum og síðan kemur maður heim aftur. Ég skal ekki vefengja, að miðað við sjómenn kunni að hafa verið einhver ástæða til þess, að flugmenn fengju þvílíka fyrirgreiðslu, það er mál fyrir sig, sem við höfum ekki færi á að kanna hér til hlítar, en ég þori að fullyrða, að sú röksemd, sem hæstv. sjútvmrh. flutti í þessu sambandi, fær ekki staðizt. Sjómennirnir, sem eru vikum saman burtu, hafa í þessu mun ríkari þörf, en þeir menn, sem aðeins skjótast burtu dag og dag, en koma síðan nær jafnskjótt heim til sín.

Það reyndist í sambandi við lausn flugmannaverkfallsins, að þar fékk einn sá hópur manna, er hæst laun hafði áður hér á landi, meiri kjarabætur, en nokkrir menn aðrir hafa fengið. Hæstv. sjútvmrh. segir, að þetta hafi verið nauðsynlegt, vegna þess að laun flugmanna séu í algeru ósamræmi við laun sambærilegra flugmanna í öðrum löndum. Ég skal út af fyrir sig ekki bera á móti því, að svo kunni að vera. En ég þori að fullyrða, að hér er ekki um neitt einstakt fyrirbæri að ræða. Ég þori þvert á móti að fullyrða, að á Íslandi er sá háttur, að þeir, sem hærri launin hafa, eru yfirleitt mun lægra launaðir, en menn í sambærilegum stöðum í öðrum löndum, og ég þori að fullyrða, að það er svo, hvert sem leitað er. Það er sama, hvort leitað er til sósíaldemókratískra landa, til kommúnistískra landa eða þeirra landa, þar sem meira frjálsræði ríkir í efnahagsmálum. Alls staðar er launamunurinn mun meiri, en hann er á Íslandi. Þess vegna hlýtur af þeim hugsanagangi, sem hæstv. sjútvmrh. hér gerði sig að talsmanni fyrir, að leiða, að margar aðrar stéttir, en flugmennirnir, eigi að fá hækkun, ef menn á annað borð vilja fara svo að sem hæstv. sjútvmrh. hér var að rökstyðja. Launamismunurinn á Íslandi er orðinn mun minni og þar með lífskjaramunurinn á Íslandi mun minni, en í nokkru öðru þjóðfélagi, sem við höfum spurnir af, og það er mjög fróðlegt, að það skuli einmitt vera þessi maður, sem í orði kveðnu telur sig sérstakan talsmann fyrir þá, sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, sem hefur haft forustu um það að teygja þá hæst launuðu jafnhátt upp og raunin varð á með flugmennina, Og þar var heldur ekki um neitt einstakt atriði að ræða. Alveg það sama átti sér stað í lausn þess verkfalls, sem þessi lög eru sett til að greiða fyrir. Það var búið að marglýsa yfir því af hálfu ríkisstj. í öllum stjórnarblöðunum, að ekki kæmi til greina, að hinir hæst launuðu ættu að fá neina kauphækkun. Niðurstaðan varð sú, þegar lausnin loksins fékkst, að kauphækkanir hjá sjómönnum, farmönnum, sem hér áttu hlut að máli, varð hjá ýmsum milli 20 og 30%, en jafnvel hinir hæst launuðu af verkfallsmönnum fengu kringum 12% raunverulegar kjarabætur. Eftir allar fullyrðingarnar um það, að þeir hæst launuðu ættu ekki að fá neinar kjarabætur og það væri alger svívirðing, að þessir menn væru að knýja fram bætur sér til handa með verkfallsvopninu, beitti sjálf ríkisstj. með hæstv. sjútvmrh. í broddi fylkingar sér fyrir því, að þeir hæst launuðu verkfallsmenn fengju full 12% í kauphækkun.

Það er von, að þeir, sem slíkan málstað hafa, vilji reyna að haga löggjöf og framkvæmdum þannig, að kjósendur eigi sem örðugast að greiða atkv., og þeir taki þannig til orða, að þeim mun verr gefist heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Þessir menn vita, að þeir hafa brotið af sér í augum alls almennings og áfellisdómurinn verður þeim mun þyngri, því fleiri sem taka þátt í dómsfellingunni.