12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

7. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það er nokkuð einkennileg tilhneiging til málþófs, sem kemur fram í sambandi við þetta litla frv. frá fulltrúum sjálfstæðismanna hér í d. Hér er staðið upp skipti eftir skipti, og hver þm. deyr af öðrum í umr. og það jafnvel oftar en einu sinni og spyr í sífellu um það sama, sem reyndar er margbúið að svara.

Nú heyri ég, að hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) er hér enn að endurtaka þær spurningar, sem hér er búið að svara, og enn er hann að biðja um upplýsingar um það mál, sem allar upplýsingar hafa hér verið gefnar um. Ég heyrði nú, að hann endurtók þá spurningu sína: Hvernig er innheimtu þessa gjalds háttað, sem hér er um að ræða? Ég hafði áður svarað þessu og sagt, að með innheimtu á þessu yfirfærslugjaldi væri farið eins og um innheimtu á öðrum yfirfærslugjöldum samkv. þessum sömu lögum. Sömu aðilar hafa með það að gera, og þar er enginn munur á. Það eru sem sagt gjaldeyrisyfirfærslubankarnir, sem hafa með innheimtu á þessu gjaldi að gera. Þetta er þegar upplýst, og samt er verið að endurtaka þessa spurningu hér.

Þá var spurt um það hér enn áður, og nú var sú spurning endurtekin, hvaða tekjur útflutningssjóður hafi haft af þessu gjaldi, sem nú hefur staðið rúma 2 mánuði. Ég sagði það hér á fyrra stigi málsins, að ég hefði ekki upplýsingar um það, enda flokkaðist það ekki undir mig að fylgjast með því nákvæmlega, hvað hver einstakur tekjupóstur í þessum lögum gæfi útflutningssjóði frá viku til viku eða mánuði til mánaðar, enda öllum mönnum augljóst, að hér gat ekki verið um miklar tekjur að ræða fyrstu tvo mánuðina, þegar um það er nú líka að gera, að hér er um að ræða gjald á yfirfærslum vegna erlendrar skipaleigu, en erlendu skipin eru ekki svo mörg eða leigur þær, sem hér er um að ræða, að búast megi við því, að á fyrstu tveimur mánuðunum sé innheimta komin að neinu verulegu marki. Ég taldi, að miklu réttara væri að kynna sér þetta hjá réttum aðilum, þegar lögin hefðu verið í gildi eins og hálft ár eða svo. En ég spurðist hins vegar fyrir um þetta hjá útflutningssjóði, hvað miklar tekjur hann væri búinn að fá af þessum yfirfærslum nú eftir fyrstu tvo mánuðina, og mér var tjáð, að þetta væri rétt rúmlega 100 þús. kr., sem þá væru innkomnar til sjóðsins, en búast mætti hins vegar við því, að nokkru meira hefði kannske verið innheimt af bönkunum, en ekki skilað enn þá til sjóðsins.

Þá endurtók hv. 5. þm. Reykv. líka þá spurningu sína: Hvers vegna var hér verið að leggja á 8% yfirfærslugjald, en ekki eitthvað annað?

Ég gerði hér allýtarlega grein fyrir því, hvaða ástæða hefði legið til þess. Ég benti á það, að íslenzku flutningaskipin sigla á tveimur mismunandi flutningataxtakjörum. Sum skipin búa við flutningsgjöld, sem eru ákveðin hér innanlands af innflutningsskrifstofunni eða verðlagsstjóra. Þannig er t.d. varið með flest skip Eimskipafélagsins. Þau starfa að mestu þannig, að þau flytja svonefnda stykkja- og sekkjavöru, sem er háð flutningsgjaldi eftir ákvörðun innflutningsskrifstofunnar. Þessi flutningsgjöld hafa á þessu ári verið hækkuð samkv. heimild íslenzkra yfirvalda, fyrst um 5% og síðan um 11/2%, eða hækkunin þar nemur um 61/2%. Með tilliti til þessarar hækkunar þótti ekki óeðlilegt, að hinum íslenzku flutningaskipunum, sem rekin eru á grundvelli flutningataxta, sem miðaðir eru við frjálsan markað, yrði gert kleift að hækka nokkuð sína flutningataxta eða allt að 8% á þeim einum vöruflokkum, sem hér eru greindir í þessum lögum, en það er aðeins takmarkaður hluti af þeirra flutningum. Og með tilliti til þess var sem sagt ákveðið að ganga hér inn á 8% yfirfærslugjaldið á leigum erlendu skipanna. En það gefur vitanlega auga leið, að um leið og ákveðið er að taka þetta 8% yfirfærslugjald af erlendu skipunum, fá íslenzku skipin tækifæri til þess að hækka sín flutningsgjöld í samkeppni við erlendu skipin, sem þessu gjaldi nemur, eða allt að því.

Þetta var gert hvort tveggja af því, að fyrir lá, að íslenzku flutningaskipin stóðu orðið höllum fæti í samkeppninni við erlendu skipin og það þurfti gjarnan að mæta óskum þeirra að nokkru leyti. Þau höfðu fengið á sig hækkuð útgjöld, m.a. í vinnudeilunni, sem hér stóð á s.l. sumri, og því þurftu þau gjarnan þarna á nokkurri aukinni vernd að halda. En auk þess þurfti svo útflutningssjóður líka á auknum tekjum að halda, og þótti þá rétt að haga þessu þannig, að hann fengi tekjuaukann, sem kæmi fram við það að fara þessa leið.

Ég heyrði svo hv. 6. þm. Reykv. gera hér stórar kröfur um það að fá upplýsingar um þetta mál. Mér er bara alveg hulið, hvað það er, sem hann telur ekki upplýst í þessu máli. Hefur hann ekki áttað sig á því, um hvað þetta mál fjallar, hvaða aðilar það eru, sem hér eiga að greiða aukið yfirfærslugjald, og hvaða almenna þýðingu það hefur fyrir hina, sem keppa á sama grundvelli og ekki þurfa að borga þetta gjald? Hefur hann ekki fengið upplýsingar um það, hvert þessar tekjur eiga að fara? Hvað er það, sem hv. þm. vantar yfirleitt í upplýsingum? Er það ekki miklu frekar hitt, að hann vanti eitthvert tækifæri til þess að standa hér uppi í pontunni og reyna að teygja lopann? Ég held, að það hljóti að vera það.

Þá hefur þessi þm. hér endurtekið það, að hann hafi heyrt orðróm vera uppi um, að erlendir aðilar væru að kveinka sér undan þessu gjaldi og teldu jafnvel, að brotnar væru á þeim reglur í sambandi við samninga, sem þeir hefðu við Ísland.

Ég verð að játa það, að ég hef aldrei heyrt þessu fleygt fyrr, en hér í ræðustól á Alþ. Ég hef aldrei heyrt á þetta minnzt. Enginn fulltrúi erlendra skipafélaga hefur á þetta minnzt við mig á nokkurn hátt, og hefði það þó ekki verið óeðlilegt, að umkvartanir hefðu þangað komið um þessi mál. Mér er ekki kunnugt um það heldur, að það hafi borizt til annarra ráðherra, eða ekki hefur verið á það minnzt í ríkisstj.

Ég held því, að þær miklu áhyggjur, sem þessi hv. þm. virðist hafa út af hagsmunum erlendra skipafélaga í þessu efni, séu með öllu ástæðulausar og hann geti sparað sér að hafa nokkrar áhyggjur í þeim efnum, enda sýnist mér líka vera alveg augljóst, að hér er ekki um neina misbeitingu að ræða, heldur það, sem vitað er að á sér stað í mörgum tilfellum, bæði hér hjá okkur og öðrum þjóðum, að það er fremur hlynnt að því, að innlend skip geti fengið þá flutninga, sem um er að ræða, og eru mörg hliðstæð dæmi þessu annars staðar frá.

Um það atriði svo, að það hafi átt að hylma yfir það, að með þessum lögum væri stefnt að því að hækka hér verð á tilteknum nauðsynjavörum eins og sementi og timbri, þá er það, eins og ég hef margskýrt hér frá áður, vitanlega líka tilhæfulaus ásökun, því að frá því var skýrt, áður en meira að segja lögin voru sett, að til þess yrði tekið að leyfa nokkra hækkun á flutningsgjöldum til íslenzku skipafélaganna, en það mundi verða reynt að koma því þannig fyrir, að hér yrði um sem minnsta verðhækkun að ræða fyrir almenning í landinu. Og þess var jafnframt gætt að, að því leyti til, sem þetta kemur á sement og timbur, þá var reynt að sæta lagi með að koma því þannig fyrir, að a.m.k. yrði um eins litla verðhækkun á þessum vörum í útsölu að ræða og frekast voru tök á, enda hefur reynslan sýnt, að verð á sementi og timbri hefur farið lækkandi síðan þetta gjald var sett. (Gripið fram í.) Nei, það var vegna þess, eins og ég skýrði hér líka frá áður, að flutningsgjöldin voru almennt að lækka, en þau eru vitanlega stór liður í þessu vöruverði. Og það var það, sem haft var í huga, að á sama tíma sem þarna var að eiga sér stað veruleg lækkun á flutningsgjöldum, var þetta gjald sett á um leið og einmitt á þá vöruflokka, þar sem lækkunin var einna mest.

Það er svo svipað með þetta mál eins og ráðstafanirnar til stuðnings útgerðinni í byrjun ársins. Það er þetta sífellda kvak um það, að vissir hv. þm. hafi ekki skilið, hvað í löggjöfinni fólst, þeir hafi ekki skilið það, hversu stuðningurinn var mikill við útgerðina, og ekki heldur skilið það, um hvað miklar álögur var að ræða á hina einstöku vöruflokka og á almenning í landinu. Þetta er í rauninni alveg furðulegt, að menn skuli enn í dag vera að staglast á þessu. Og í sambandi við stuðninginn til útgerðarinnar verð ég að segja það, að þetta getur ekki sýnt neitt annað, en það, að þannig var búið að ganga frá þeim málum áður, að þeir, sem að því stóðu, vissu ekkert um, hvaða stuðning útgerðin hafði eftir öllum þeim liðum, sem þar voru ákveðnir til stuðnings útgerðinni, því að löggjöfin, sem nú var sett, var eins skýr í þessum efnum og frekast varð á kosið, þar sem ákveðið var, að útgerðin skyldi fá þann stuðning að fá tiltekna prósentuhækkun til uppbóta á hið erlenda söluverð aflans. Það lá því alveg skýrt fyrir, hvað stuðningurinn var mikill. En hvað var þá hækkunin mikil frá því, sem áður hafði gilt? Það gátu þessir herrar ekki reiknað út, af því að þeir vissu ekkert, hvað í gildi var eftir öllum þeim ákvæðum, sem þá voru í gildi. Það er sannleikur málsins.

Þessir hv. þm. geta svo í rauninni ekki ásakað neinn annan, en sjálfa sig um það að skilja ekki, hvað í jafneinföldu frv. felst og því, sem hér liggur fyrir, eða þeirri löggjöf, sem búin er að standa hér í gildi frá Alþ. í heilt ár og sett var um síðustu áramót til stuðnings framleiðslunni.

Eitt atriði var hér enn, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist hér á. Hann sagði, að leiðrétta bæri það, sem sagt hefði verið af hálfu ríkisstj. við forseta Íslands og fram kæmi hér í sambandi við þau brbl., sem um þetta voru sett, þar sem var sagt, að það væri nauðsynlegt að breyta l. um útflutningssjóð að því er varðar innheimtu yfirfærslugjalds, og taldi, að hér væri ranglega skýrt frá. Hér er auðvitað fullkomlega rétt skýrt frá, því að breytingin á l. varðar aðeins þann kafla l., er varðar innheimtu á yfirfærslugjaldi. (Gripið fram í.) Já, það er hvort tveggja, bæði innheimta og álagning, og má vel segja það kannske, að það hefði mátt hafa hitt líka, ef menn vilja hafa alla þessa nákvæmni með, og kannske þarf slíka nákvæmni, til þess að þessir hv. þm. fái skilið það efni, sem frv. fjallar um.