24.03.1958
Efri deild: 72. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

100. mál, skattur á stóreignir

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég veit það og skil, að hæstv. forseta er mjög vandgert og hann á oft í miklum vandræðum út af málaskorti hér í hv. d. Honum er sárt um virðing deildarinnar og vill ógjarnan, að fundur verði árangurslaus. En ég held, að ef litið er yfir störf þessa þings, muni einhverjir dagar hafa komið fyrir, sem hafa orðið árangurslausir, þannig að það væri ekkert einsdæmi í þingsögunni, þó að mál hlyti ekki afgreiðslu á þessum fundi.

Ég vil eindregið taka undir beiðni hv. þm. Vestm. um, að þessu máli verði nú frestað, þar til fyrir liggja þær upplýsingar, sem skattstjóri telur sig þó geta gefið, sem sagt áætlunarupplýsingar. Sú leið að taka aftur brtt. nú til 3. umr. er ekki fullnægjandi, því að ef svo færi, að þessar brtt. okkar hv. þm. Vestm. yrðu felldar nú, þá mundum við trúlega reyna aðrar brtt., sem þá gengju eitthvað skemmra, við 3. umr. Ég vil sem sagt eindregið taka undir þessi tilmæli hv. þm. til hæstv. forseta, að hann verði við þessari ósk um að fresta málinu, enda býst ég við, að skattstjórinn geti með mjög skömmum fyrirvara haft þessar upplýsingar sínar tilbúnar, þannig að verulegur dráttur þurfi ekki á þessu að verða.