24.02.1958
Efri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

97. mál, réttur verkafólks

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu vert alls þakklætis, að hv. þm. V-Sk. skuli hafa slíkar áhyggjur af því, að sú löggjöf, sem hér er verið að setja, muni koma verkafólkinu sérstaklega í koll, svo og hugleiðingar hans í því sambandi.

Aðallega virðist hann hafa það út á málsmeðferðina að setja, að það hafi ekki verið haft nægilegt samráð við vinnuveitendur og launþegasamtökin um setningu þessara laga, og mér skilst, að hann telji, að hyggilegra hefði verið að gera þetta með samkomulagi milli málsaðila. Ég lýsti því lítillega við 1. umr. málsins, hvernig verkalýðssamtökin hefðu s.l. 15 ár verið að reyna að koma þessum réttindamálum í framkvæmd og hvernig vinnuveitendur hefðu tekið í það, og ætla ég ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði um það efni þá. En í stuttu máli er sú saga þannig, að þeir hafa aldrei léð máls á því, að neitt af þeim atriðum, sem í frv. felast, yrði fastmælum bundið í samningum, og hafa alltaf tekið öllum tilraunum verkalýðssamtakanna til þessa af fullkomlegum fjandskap.

Ég held, að við samningu þessa frv. hafi verið haft fullt samráð við verkalýðssamtökin. Frv. er flutt samkvæmt ósk þeirra, og það voru fulltrúar frá þeim, sem unnu við samningu þess. Hitt er svo ekkert undrunarefni, þó að ekki hafi verið leitað til þeirra um aðild að samningu frv., sem fyrir fram var vitað um að vildu þar ekkert til leggja og hafa sannað þá afstöðu á löngum tíma.

Ég held, að hvorki hv. þm. V-Sk. né aðrir þurfi að kippa sér mikið upp við þær hótanir, sem koma fram í plaggi vinnuveitendafélagsins. Slíkar hótanir og aðrar verri hafa alltaf verið til staðar hjá þeim samtökum, þegar um verulegar kjarabætur hefur verið að ræða fyrir alþýðu manna.

Ég held líka, að það sé hverjum manni auðsæilegt, að það er miklu æskilegra fyrir verkalýðssamtökin að fá slík ákvæði sem hér um ræðir sett í lög, heldur en þurfa að semja um þau við vinnuveitendur. Ef slíkt er tekið upp í samningum, þá hlýtur það alltaf að kosta afslátt á ýmsum öðrum kröfum, svo sem berlega kom fram í verkfallinu mikla 1955. Þá varð að kaupa réttindamál eins og atvinnuleysistryggingarnar og eina prósentið, sem ákveðið var að greiða til tryggingar mönnum í veikindaforföllum. Það varð að meta þetta allt í kaupi, það varð að gera þessi réttindamál að verzlunarvöru, það er sá mikli munur, sem á því er að lögfesta réttindamál og að semja um þau. Sé um lögfestingu að ræða, þá eru þau ekki lengur verzlunarvara. Það er auðvitað vel skiljanlegt, að þau sjónarmið komi fram hjá vinnuveitendum, að þeir vilji eiga í bakhöndinni slík mál sem þessi, sem þeir vita að mikill áhugi er fyrir hjá verkalýðssamtökunum, og þau mundu vilja, ef þau gætu ekki fengið þau fram á annan hátt, kaupa þau dýru verði í lægra kaupi, en ella mundi greit., En frá sjónarmiði verkalýðsfélaganna, verkamannanna, hlýtur lögfestingarleiðin að vera hin æskilegri leið, verði henni við komið.