11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

75. mál, einkaleyfi til útgáfu almanaks

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkvæmt tilmælum háskólaráðs. Í því felast tvær mjög smávægilegar breytingar á gildandi lögum frá 1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks.

Í 1. gr. felst það eitt, að breytt er sektarákvæðum laganna til samræmis við breytt peningagildi.

Í 2. gr. felst það, að örlitið er rýmkað það verkefni, sem háskólaráð má verja fé úr almanakssjóði til. Í gildandi lögum er tekið svo til orða, að verja megi fé úr almanakssjóði til eflingar stærðfræðivísinda, en hér er lagt til, að notað verði orðalagið stærðfræðileg vísindi, þ.e., að réttur háskólaráðs til að úthluta fé úr sjóðnum sé ekki einungis bundinn við framlag til hreinna stærðfræðivísinda, heldur megi einnig styrkja þau vísindi, sem reist séu á stærðfræðilegum grundvelli, ýmis hagnýt vísindi, sem einkum styðjast við stærðfræði, svo sem eðlisfræði, stjörnufræði, efnafræði, tölfræði og verkfræði.

Ég vildi mega vænta þess að lokinni þessari umr., að hv. deild vísi frv. til hv. menntmn. og málið fái skjóta afgreiðslu hjá hv. nefnd.