03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

93. mál, kostnaður við rekstur ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur gefið hér nokkrar skýringar á, hvernig í því liggi, að þessi tilhögun hefur verið valin, sem frv. greinir frá. En ég verð að segja það, að hann hefur ekki sannfært mig hér um, að neinar þær aths., sem ég bar fram, hafi ekki haft við full rök að styðjast. Hann staðfesti, að raunverulega hefði það runnið út í sandinn, að fjmrh. hefði getað haft eftirlit með fjölgun starfsmanna, vegna þess að ráðuneytin hefðu farið sínu fram, og nú væri þó sú nýja skipan upp tekin, og það skildist mér vera aðalnýmæli frv., að það væri ákveðið, að ráðning væri ekki gild, nema málið hefði verið lagt fyrir umrædda nefnd. Það getur út af fyrir sig verið góðra gjalda vert. En þá bara rekum við okkur enn á það sama, sem ég gat um áðan, að n. hefur ekki annað vald, en tillögurétt, þannig að ráðh. getur eftir sem áður farið sínu fram, og sú eina kvöð, sem á hann leggst, er, að hann sendi fjvn. síðan grg. um það, af hverju hann hafi ekki farið eftir tillögum umræddrar n. Það getur vel verið, að í því felist eitthvert aðhald, en ég held, að það aðhald sé vægast sagt harla lítið.

Hæstv. ráðh. taldi, að það væri ekki gerlegt að ganga svo langt að taka ráðningarvaldið af viðkomandi ráðh. eða ríkisstjórninni. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, þá er þetta gert auðvitað í fjöldamörgum tilfellum. Við höfum launalög, þar sem er ákveðið um starfsmannafjölda í mörgum greinum, og það hefur jafnframt mjög tíðkazt, að það væru sendar til fjvn. Alþingis á hverjum tíma frá fjmrn. tillögur annarra rn. um fjölgun starfsmanna, og fjmrn. hefur talið eðlilegt, að það ylti að sjálfsögðu á því, hvort fjvn. og Alþ. teldi þessar mannaráðningar það nauðsynlegar, að hún vildi veita til þeirra fé. Og ríkisstj. hlýtur stjórnskipulega að sjálfsögðu á hverjum tíma að vera við það bundin að fjölga ekki starfsmönnum meira en svo, að hægt sé að greiða þeim laun af því fé, sem Alþ. veitir hverju sinni til viðkomandi embættis. Þetta er hin stjórnskipulega regla, þó að því miður hafi hún að undanförnu verið meira á pappírnum vegna þess, hversu lítið aðhald hefur verið um greiðslur umfram fjárlög. Ég sé því ekki, að það væri á neinn hátt goðgá að láta sér detta það í hug, að ráðh. væri bundinn við till. umræddrar n., þannig að það væri ekki hægt að skipa mann eða ráða í hina umdeildu stöðu og það yrði síðan lagt á vald Alþ. með eðlilegu móti, hvort það teldi þessa skipun mála heppilega eða ekki. Það mætti vel hugsa sér það form á, að ef Alþ. síðan með fjárveitingu viðurkenndi, að það væri eðlilegt, að settur yrði maður í þessa stöðu, eftir greinargerðum, sem fyrir fjvn. og Alþ. yrðu lagðar frá bæði viðkomandi ráðherra og eftirlitsnefndinni, þá að sjálfsögðu mundi málið ná fram að ganga, en fyrr ekki.

Hæstv. ráðh. sagði, að þar sem framkvæmdavaldið bæri ábyrgð á ríkisstarfseminni og starfrækslunni allri, þá væri eðlilegt, að það væri í þess höndum að ákveða endanlega, hvort starfsmenn væru svo og svo margir. Eftir okkar stjórnskipan og eftir þeim lögum, sem gilda, er ekki gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi það vald að geta ráðið því upp á sitt eindæmi, vegna þess, eins og ég áðan gat um, að það er í fjölmörgum lögum bundið, hvað mannahald á að vera, og það hefur aldrei verið talið neitt óeðlilegt, að settar væru reglur af Alþingi um það efni.

Ég held a.m.k., að ef það á að vera svo, þessi skipan mála, eins og hér er gert ráð fyrir, þá sé það í alla staði óeðlilegt, að framkvæmdavaldinu sé veitt það vald að hafa eftirlit með sjálfu sér, því að eftir tilhögun þeirri, sem er í skipun umræddrar eftirlitsnefndar, hefur framkvæmdavaldið meiri hluta í nefndinni, sem á að dæma um það, hvort ráðstafanir og ráðagerðir framkvæmdavaldsins sjálfs séu eðlilegar eða ekki, og það held ég þó undir öllum kringumstæðum að ætti að vera eðlilegra, að það væri þó a.m.k. löggjafarvaldið eða fjárveitingavaldið, sem hefði meiri hluta í þessari nefnd.

Hæstv. ráðh. sagði, að þegar það hefðu komið fram till. um ráðsmann ríkisins á sínum tíma, þá hefði verið gert ráð fyrir því, að framkvæmdavaldið skipaði hann, og af því vildi hann ráða, að það hefði verið talið eðlilegt af þeim, sem að því máli stóðu, að þetta væri framkvæmdavaldsins mál. Það er vitanlega mesti misskilningur, vegna þess að, að formi til, eins og við vitum, er sú skipan á höfð, t.d. með dómara hæstaréttar, að þeir eru skipaðir af framkvæmdavaldinu, og þó hefur aldrei nokkur maður látið sér detta í hug, að framkvæmdavaldið ætti að hafa neitt um að ráða aðgerðir þessara manna, og það var einmitt með ráðsmann ríkisins gert ráð fyrir því, að hann hefði alveg sérstaka vernd gagnvart framkvæmdavaldinu, þannig að það hefði ekkert yfir honum að segja.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. muni vilja taka til athugunar þær ábendingar, sem hér hafa fram komið. Vafalaust koma fram fleiri sjónarmið í þessu máli, þegar það verður rætt í n., en ég taldi rétt á þessu stigi að gera aðeins grein fyrir þessum atriðum, sem vissulega snerta meginkjarna þessa máls, hvaða líkur séu til þess, að frv. sem slíkt, eins og það er úr garði gert, geti stuðlað að því aðhaldi í ríkisrekstrinum, sem til virðist vera stofnað.