12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

5. mál, tollskrá o. fl

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) spurði um, og því, sem hann sagði um atvinnuaukningarféð og úthlutun þess.

Þessu er þannig varið með atvinnuaukningarféð og hefur verið, frá því að það fyrst var lögleitt, að ráðherrar eða ríkisstj. hefur úthlutað atvinnuaukningarfénu, og það er eins nú. Þetta þótti auðvitað sjálfstæðismönnum ágætt, alveg prýðilegt, á meðan þeir voru í ríkisstj., enda áttu náttúrlega sinn þátt í að móta þessa stefnu. Þegar þeir eru farnir úr ríkisstj, og aðrir hafa tekið við, þá er þetta auðvitað óalandi og óferjandi brot á þingræðisvenjum og farið fram hjá Alþ. o.s.frv.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. spurði, hvort það væri farið að ráðstafa fyrirfram atvinnuaukningarfé næsta árs að einhverju leyti, vil ég taka fram: Það má vel vera, að það hafi að einhverju litlu leyti verið nú þegar gefin út loforð um atvinnuaukningarfé næsta árs. En ég vil segja þessum hv. þm., að það mun vera með minnsta móti. Það mun vera mun minna, en við urðum stundum að gera, þegar við vorum saman í stjórn, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, því að þá var það algengt, að menn töldu sig tilneydda að lofa atvinnuaukningarfé fyrir næsta ár fyrir fram. Og svona rétt til gamans, fyrst þessi hv. þm. vill vera að tala um þessi fyrirframloforð, vil ég taka það fram, að þegar ég tók við hafnarmálum af formanni Sjálfstfl., þá var hann búinn að lofa fyrir fram öllum hafnarbótasjóðnum, eins og hann gat mestur orðið 1957, og upp undir helmingnum af því, sem hann gat orðið 1958. Ég hef ekkert verið að flíka þessu, en fyrst hv. þm. er að gera sig breiðan og spyrja um, hvort þau ósköp hafi skeð, að eitthvert loforð hafi verið gefið fyrir fram út á atvinnuaukningarfé næsta árs, og telur það eitthvert skelfilegt afbrot, þá er rétt, að þetta komi fram.

Ég vil ekki vera að kýta við hv. 1. þm. Reykv., þó að hann gæfi að sumu leyti tilefni til þess í því, sem hann sagði hér áðan. Það sýnir bara, hvað hann er „forstokkaður“, að hann sagði enn, að þeir, sem hefðu horft á hæstv. sjútvmrh., hefðu séð, að hann kinkaði kolli, þó að allir, sem hér eru inni og á hann horfðu, viti, að þetta er alger uppspuni.

Hv. þm. sagði, að ég hefði framkvæmt þá óhæfu að álasa þm, Sjálfstfl. fyrir, að þeir hefðu heimtað hækkuð ríkisútgjöld á mörgum sviðum. Ég held, að það sé engin óhæfa að upplýsa þetta og allra sízt þegar þessir hv. þm. hafa drýgt þá óhæfu að þykjast hvergi hafa komið nálægt þeirri hækkun á ríkisútgjöldum, sem orðið hefur á undanförnum árum, og deila, þegar þeim sýnist, á menn fyrir það, að útgjöldin hafi ekki orðið stórum hærri í mörgum greinum. Ég held, að það sé fullkomlega eðlilegt, að það sanna sé upplýst í þessu, og það er ekkert annað, sem ég hef gert.